Fækkun sveitarfélaga fyrir vorið?

Á nokkrum stöðum á landinu er verið að skoða sameiningar sveitarfélaga en kosið verður til sveitarstjórna í maí 2018. Lengst eru mál líklega komin hjá Sveitarfélaginu Garði og Sandgerðisbæ en þar hefur verið skipað í samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna tveggja.

Á Snæfellsnesi eru hefur verið umræða um sameiningu Grundarfjarðarbæjar, Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar. Eyja- og Miklaholtshreppur ákvað á fundi í júní sl. að skoða fjóra kosti þ.e. að vera áfram sjálfstætt sveitarfélag, skoða að vera með í ofangreindri sameiningarumræðu eða skoða hlutina með Snæfellsbæ eða Borgarbyggð.

Á Norðurlandi vestra hafa sveitarfélögin Skagabyggð og Sveitarfélagið Skagafjörður ræðst við. Akrahreppur hefur lýst yfir vilja til að koma að viðræðunum en öllum sveitarfélögum á Norðurlandi vestra hefur verið boðið að viðræðuborðinu. Sveitarfélögin í Austur Húnavatnssýslu hafa ákveðið að boða til sameiginlegs fundar seinni partinn í ágúst til að fara yfir málin. Ekki er vitað með vilja Húnaþings vestra.

Á síðasta ári voru settar fram hugmyndir hjá Akureyrarkaupstað um sameiningu allra sveitarfélaga við Eyjafjörð. Dræmt var tekið í þær hugmyndir að hálfu flestra sveitarfélaga á svæðinu.

Sameiningarviðræður hafa átt sér stað á milli Djúpavogshrepps, Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Skaftárhrepps. Stefnt er að íbúafundum í haust.

Í Árnessýslu stendur yfir greining á kostum og göllum þess að sameina öll sveitarfélög í Árnessýslu. Íbúafundir voru haldnir í júní. Sveitarfélögin eru Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Hveragerðisbær, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Sveitarfélagið Árborg og Sveitarfélagið Ölfus.

Gangi allar þessar hugmyndir eftir gæti sveitarfélögum fækkað um allt að tuttugu en þau eru 74 í dag. Reynslan kennir reyndar að það er ólíklegt.

Athygli vekur að nokkur af minnstu sveitarfélögunum sem telja um eða innan við 100 íbúa eru ekki í viðræðum um sameiningu sveitarfélaga. Þau eru Árneshreppur (46 íbúar), Skorradalshreppur (58), Tjörneshreppur (59), Fljótsdalshreppur (81), Svalbarðshreppur (95),  Kaldrananeshreppur (106) og Borgarfjarðarhreppur (116).

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Sósíalistaflokkur Íslands stofnaður

SosialistaflokkurÍ gær, á 1. maí, var Sósíalistaflokkur Íslands formlega stofnaður á fundi í Tjarnarbíói í Reykjavík. Gunnar Smári Egilsson fyrrverandi ritstjóri og einn aðalhvatamaður að stofnun flokksins segir að meðlimir séu orðnir a.m.k. 1.400. Nokkur hundruð manns voru á stofnfundinum samkvæmt frétt á Vísi.is.

Færðu inn athugasemd

Flokkur fólksins boðar framboð í borgarstjórnarkosningunum

FlokkurfolksInga Sæland formaður Flokks fólksins boðar framboð flokksins í til borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík næsta vor. Þá verði skoðað hvort bjóða eigi fram undir merkjum flokksins í fleiri sveitarfélögum. Þetta kom fram í viðtali við Ingu á Rás 1 í gærmorgun. Flokkur fólksins hlaut 3,5% fylgi á landsvísu í alþingiskosningunum í haust. Í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur hlaut flokkurinn samtals 2.935 atkvæði sem gæti nægt til að ná inn einum manni þar sem að 15. borgarfulltrúinn var með 2.933 atkvæði á bak við sig í síðustu borgarstjórnarkosningum.

Færðu inn athugasemd

Sósíalistaflokkur Íslands verður stofnaður 1.maí

SosialistaflokkurSósíalistaflokkur Íslands, óstofnað stjórnmálaafl hefur opnað vefsíðu þar sem fram koma helstu stefnumál auk skráningarsíðu, en gert er ráð fyrir að flokkurinn verði formlega stofnaður 1. maí n.k. „Sósíalistaflokkur Íslands er stjórnmálaflokkur almennings á Íslandi. Markmið hans er samfélag frelsis, jöfnuðar, mannhelgi og samkenndar. Þessi markmið nást eingöngu með því að færa völdin í hendur fólksins í landinu.“ segir á vefsíðunni.

Forsvarsmenn Sósíalistaflokks Íslands eru Gunnar Smári Egilsson fv.ritstjóri Fréttatímans og Pressunnar og einn af stofnendum Fréttablaðsins, Eintaks, Morgunpóstsins og Nyhedsavisen í Danmörku, Ragnar Öndunarson fv. forstjóri MasterCard og Mikael Torfason rithöfundur og fv.ritstjóri.

Færðu inn athugasemd

Boða framboð til borgarstjórnarkosninga

islenskathjodÞrátt fyrir að ríflega ár sé til næstu sveitarstjórnarkosninga sem haldnar verða 26. maí 2018 hefur Íslenska þjóðfylkingin lýst því yfir að flokkurinn muni bjóða fram í Reykjavík. Í ályktun sem samþykkt var á landsfundi flokksins segir: „Íslenska þjóðfylkingin lýsir yfir að hún mun bjóða fram í komandi borgar­stjórnar­kosningu. Það verður lögð áhersla á að aftur­kalla lóð undir mosku­byggingu; viðhaldi gatna verði komið í viðun­andi horf; stuðlað verði að upp­byggingu á félags­legu húsnæði með því að lóða­kostnaður verði einungis samkvæmt útlögðum kostnaði.“

Færðu inn athugasemd

Ný ríkisstjórn tekur við á morgun

Ný ríkistjórn, ráðuneyti Bjarna Benediktssonar, tekur að öllum líkindum við á morgun. Hún verður þannig skipuð:

Sjálfstæðisflokkur: Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra, Jón Gunnarsson samgöngu-, sveitarstjórnar- og byggðamálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. Að auki verður Unnur Brá Konráðsdóttir forseti þingsins.

Viðreisn: Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttisráðherra.

Björt framtíð: Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra og Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra.

Færðu inn athugasemd

100 ár frá stofnun fyrsta ráðuneytisins

4. janúar 1917 tók ráðuneyti Jóns Magnússonar við völdum og varð hann þar með fyrsti forsætisráðherrann en hann fór einnig með dómsmál. Auk hans settust í stjórnina Björn Kristjánsson fjármálaráðherra og Sigurður Jónsson frá Ystafelli sem var atvinnumálaráðherra. Jón var í Heimastjórnarflokknum, Björn í Sjálfstæðisflokknum og Sigurður í Framsóknarflokknum. Björn lét af embætti 28. ágúst 1917 og þá tók við Sigurður Eggerz við embætti fjármálaráðherra.

Færðu inn athugasemd