Húnabyggð, Skagafjörður og Þingeyjarsveit

Sveitarstjórnir þriggja af fimm nýsameinuðum sveitarfélögum hafa samþykkt nafn á nýju sveitarfélögin. Húnabyggð heitir sameinað sveitarfélag Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps, Skagafjörður heitir sameinað sveitarfélag Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Þingeyjarsveit heitir sameinað sveitarfélag Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar.

Nöfn hafa ekki verið ákveðin á sameinuð sveitarfélög Helgafellssveitar og Stykkishólms annars vegar og Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps hins vegar.

Kæru Miðflokksins í Garðabæ hafnað

Ástæða kærunnar var að „(kjör)seðillinn hefði tvíbrotinn saman en ekki brotinn til helminga. Endi seðilsins með lista Miðflokksins hefði verið brotinn sér þannig að hann sæist ekki nema maður opnaði seðilinn alveg.“ Miðflokkurinn hlaut 3,7% atkvæða í Garðabæ en hefði þurft í kringum 7% til að ná manni inn í bæjarstjórn.

Úrskurðarnefnd kosningarmála hefur hafnað kröfu Miðflokksins í Garðabæ um ógildingu bæjarstjórnarkosninganna í bænum. M.a. með þeim rökum að: „Yfir­kjör­stjórn fellst ekki á með kær­anda að um­brot seðils­ins hafi valdið sér­stök­um vand­kvæðum við fram­kvæmd kosn­ing­anna eða um hafi verið að ræða ágalla sem áhrif hafi haft á úr­slit þeirra. Ein­föld skoðun kjós­anda á kjör­seðli hafi af­drátt­ar­laust leitt í ljós að kjör­seðill­inn var sam­an­brot­inn og að opna þyrfti seðil­inn á tvo vegu um fyr­ir fram gef­in brot á seðlin­um við fram­kvæmd kosn­ing­anna,“

Að breyta atkvæðum í kjörna fulltrúa 5.hluti

Í tveimur síðustu færslum hefur verið skoðað hverju það hefði breytt ef sveitarfélög hefðu verið með hámarksfjölda fulltrúa í sveitarstjórn. Ef við skoðum hvernig meðalfrávik á hlutfalli kjörinna fulltrúa og hlutfalli atkvæða breyttist við þetta kemur í ljós að almenna reglan er að meðalfrávikið lækkaði (13 af 21 tilviki) með kjörnum fulltrúum þó það sé ekki algilt.

Meðalfrávik lækkaði mikið (8): Seltjarnarnes, Garðabær, Mosfellsbær, Grindavík, Suðurnesjabær, Akranes, Ísafjarðarbær og Árborg.

Meðalfrávik lækkaði nokkuð (2): Hafnarfjörður og Akureyri.

Meðalfrávik lækkaði lítið (3): Reykjanesbær, Vestmannaeyjar og Hveragerði.

Meðalfrávik hækkaði lítið (4): Reykjavík, Kópavogur, Borgarbyggð og Hornafjörður.

Meðalfrávik hækkaði nokkuð (4): Skagafjörður, Norðurþing, Fjarðabyggð og Ölfus.

Að breyta atkvæðum í kjörna fulltrúa 4.hluti

Í gær var farið yfir hvaða breytingar hefðu orðið í stærstu sveitarfélögunum ef borgarfulltrúar í Reykjavík væru 31 og ef bæjarfulltrúar í stærstu sveitarfélögunum væru 15. Í næsta flokki þar fyrir neðan eru þau sveitarfélög sem eru með á bilinu 2.000 til 9.999 íbúa. Í þeim flokki er heimilt að vera með 7 til 11 fulltrúa. Hvað hefði gerst í þeim ef fulltrúar hefðu verið 11 í þeim, sömu framboð komið fram og framboðin fengið jafn mörg atkvæði?

Á Akranesi hefðu Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur fengið 4 bæjarfulltrúa í stað 3 og Samfylkingin 3. Það hefði engu breytt um valdahlutföll í bæjarstjórn.

Í Fjarðabyggð hefði Sjálfstæðisflokkurinn fengið 5 bæjarfulltrúa í stað 4, Fjarðlistinn 3 í stað 2, Framsóknarflokkur fengið þrjá og Vinstrihreyfingin grænt framboð ekki náð inn. Þetta hefði engu breytt um valdahlutföll í bæjarstjórn.

Í Vestmannaeyjum hefði Sjálfstæðisflokkurinn fengið 5 bæjarfulltrúa ei stað 4, H-listi Fyrir Heima 4 í stað 3 og Eyjalistinn 2. Þetta hefði engu breytt um valdahlutföll í bæjarstjórn.

Í Skagafirði hefði Framsóknarflokkurinn fengið 4 sveitarstjórnarmenn í stað 3, Byggðalistinn hefði 3 í stað 2, en Sjálfstæðisflokkur og Vinstrihreyfingin grænt framboð fengið 2 hvort framboð. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hefðu því getað myndað meirihluta en meirihlutaviðræður þeirra flokka eru í gangi.

Í Borgarbyggð hefði Framsóknarflokkur haldið meirihlutanum, fengið 6 sveitarstjórnarmenn í stað 5. Sjálfstæðisflokkurinn hefði fengið 3 sveitarstjórnarmenn í stað 2 en Vinstrihreyfingin grænt framboð og sameiginlegt framboð Viðreisnar og Samfylkingar fengið 1 mann hvort framboð.

Í Ísafjarðarbæ hefði Í-listinn ekki fengið hreinan meirihluta þar sem framboðið hefði aðeins fengið 5 bæjarfulltrúa af 11 en Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hefðu fengið viðbótarfulltrúana og þá þrjá fulltrúa hvort framboð.

Í Suðurnesjabæ hefði Bæjarlistinn fengið 3 bæjarfulltrúa í stað 2, Samfylkingin 3 í stað 2, Sjálfstæðisflokkur og óháðir 3 og Framsóknarflokkur 2. Sjálfstæðisflokkur og óháðir og Framsóknarflokkur hefðu því ekki getað myndað meirihluta ef bæjarfulltrúar hefðu verið 11.

Í Norðurþingi hefði Framsóknarflokkur fengið 4 bæjarfulltrúa í stað 3, Sjálfstæðisflokkur 3 í stað 2, Vinstrihreyfingin grænt framboð 2, Samfylkingin 1 og Listi samfélagsins 1. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hefðu því enn rýmri meirihluta en unnið er að meirihlutamyndun þessara flokka.

Á Seltjarnarnesi hefði Sjálfstæðisflokkurinn haldið meirihluta sínum fengið 6 bæjarfulltrúa í stað 4. Samfylkingin og óháðir hefðu fengið 4 í stað 3 og Framtíðarlistinn náð inn einum manni.

Í Grindavík hefði Miðflokkurinn fengið 4 bæjarfulltrúa í stað 3, Sjálfstæðisflokkur 3 í stað 2, Framsóknarflokkur 2 í stað 1, Samfylkingin hefði náð inn manni og Rödd unga fólksins fengið einn mann. Þetta hefði litlu breytt um hlutföll í bæjarstjórn að öðru leyti en því að staða Miðflokksins hefði ekki verið eins sterk.

Í Hveragerði hefði Okkar Hveragerði fengið 4 bæjarfulltrúa í stað 3, Sjálfstæðisflokkur 4 bæjarfulltrúa í stað 2 og Framsóknarflokkur fengið 3 í stað 2. Þetta hefði engu breytt um valdahlutföll í bæjarstjórn.

Í Sveitarfélaginu Ölfus hefði Sjálfstæðisflokkur haldið meirihlutanum fengið 7 bæjarfulltrúa í stað 4. Framfarasinnar hefðu fengið 3 í stað 2 og Íbúalistinn 1.

Í Sveitarfélaginu Hornafirði hefði Sjálfstæðiflokkur fengið 4 bæjarfulltrúa í stað 3, Framsóknarflokkurinn o.fl. fengið 4 í stað 2 og Kex framboð 3 í stað 2. Þetta hefði engu breytt um valdahlutföll í bæjarstjórn.

Að breyta atkvæðum í kjörna fulltrúa 3.hluti

Eins og fram kom í færslu í gær að þá eru öll stærstu sveitarfélög landsins með lágmarksfjölda bæjar- og borgarfulltrúa. Reykjavík er með 23 borgarfulltrúa en má mest vera með 31. Þá eru Kópavogur, Hafnarfjörður, Reykjanesbær, Akureyri, Garðabær, Mosfellsbær og Sveitarfélagið Árborg öll með 11 bæjarfulltrúa en mættu mest vera með 15. En hverju hefði það breytt ef öll þessi sveitarfélög hefðu með hámarksfjölda sveitarstjórnarmanna, miðað við óbreytta atkvæðatölu og að sömu framboð hefðu komið fram?

Í Reykjavík hefði Sjálfstæðisflokkurinn fengið 9 borgarfulltrúa í stað 6, Samfylkingin 7 í stað 5, Framsóknarflokkurinn 6 í stað 4 og Píratar 4 í stað 3. Sósíalistaflokkur Íslands hefðu fengið 2, Viðreisn 1, Flokkur fólksins 1 og Vinstrihreyfingin grænt framboð 1 eins og áður. Það hefði t.d. þýtt að bandalag Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar hefði haft slakari samningsstöðu þar sem að Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkurinn og Flokkur fólksins hefðu getað myndað meirihluta.

Í Kópavogi hefði Sjálfstæðisflokkurinn fengið 6 bæjarfulltrúa í stað 4, Framsóknarflokkur og Vinir Kópavogs hefðu fengið 2 hvor eins og áður, Viðreisn hefði fengið 2 í stað 1, Píratar og Samfylking hefði fengið 1 eins og áður en Vinstrihreyfingin grænt framboð hefði náð kjörnum bæjarfulltrúa. Þetta hefði engu breytt um meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins.

Í Hafnarfirði hefði Sjálfstæðisflokkur fengið 6 bæjarfulltrúa í stað 4, Samfylkingin 5 í stað 4, Framsóknarflokkurinn hefði fengið 2 áfram, Viðreisn 1 áfram og Píratar hefðu náð manni inn. Þetta hefði engu breytt um meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins.

Í Reykjanesbæ hefði Sjálfstæðisflokkur fengið 5 bæjarfulltrúa í stað 3, Framsóknarflokkurinn fengið 4 í stað 3, Samfylkingin 3 áfram, Bein leið 2 í stað 1 og U-listi Umbóta 1 eins og áður. Meirihlutaviðræður eru í gangi á milli Framsóknarflokks, Samfylkingar og Beinnar leiðar en Framsóknarflokkur og Samfylking geta myndað meirihluta án Beinnar leiðar. En hefðu bæjarfulltrúarnir verið 15 væru Framsóknarflokkur og Samfylking ekki með hreinan meirihluta heldur þyrftu á Beinni leið að halda til að mynda meirihluta.

Á Akureyri hefði L-listi fengið 3 bæjarfulltrúa áfram, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hefðu fengið 3 fulltrúa í stað 2, Samfylkingin og Flokkur fólksins 2 í stað 1. Miðflokkurinn og Vinstrihreyfingin grænt framboð hefðu haft 1 áfram. Þetta hefði þýtt að nýmyndaður meirihluti hefði ekki orðið til þar sem að L-listi, Sjálfstæðisflokkur og Miðflokkur hefðu aðeins verið með 7 af 15 bæjarfulltrúum.

Í Garðabæ hefði Sjálfstæðisflokkurinn haldið meirihlutanum með 8 fulltrúa í stað 7. Garðabæjarlistinn hefði fengið 3 bæjarfulltrúa í stað 2, Framsóknarflokkur og Viðreisn 2 í stað 1.

Í Mosfellbæ hefðu Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur fengið 5 bæjarfulltrúa í 4, Vinir Mosfellsbæjar 2 í stað 1 og Vinstrihreyfingin grænt framboð náð inn manni. Viðreisn og Samfylkingin hefðu fengið 1 bæjarfulltrúa hvor flokkur eins og áður. Þetta hefði þýtt að nýmyndaður meirihluti hefði ekki orðið til þar sem að l, Samfylking og Viðreisn hefðu aðeins verið með 7 af 15 bæjarfulltrúum.

Í Sveitarfélaginu Árborg hefði Sjálfstæðisflokkurinn haldið meirihlutanum með 8 fulltrúa í stað 6. Framsóknarflokkur hefði fengið 3 bæjarfulltrúa í stað 2 og Vinstrihreyfingin grænt framboð hefði náð inn bæjarfulltrúa. Samfylkingin hefði fengið 2 áfram og Áfram Árborg áfram 1.

Að breyta atkvæðum í kjörna fulltrúa 2.hluti

Fjöldi sveitarstjórnarfulltrúa fer eftir ákvæðum 11.gr. sveitarstjórnarlaga um fjölda fulltrúa í sveitarstjórn. þar segir að fjöldinn skuli standa á oddatölu og innan eftirtalinna marka:

 • Þar sem íbúar eru undir 2.000: 5–7 aðalmenn. Minnstu sveitarfélögin eru ýmis með 5-7 aðalmenn í sveitarstjórn nema sameinað sveitarfélag Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps og sameinað sveitarfélag Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps eru með 9 aðalmenn. Þau sveitarfélög sem skera sig úr með 5 sveitarstjórnarmenn eru Hrunamannahreppur, Mýrdalshreppur, Hörgársveit og Flóahreppur en þau eru fjölmennari en t.d. Hvalfjarðarsveit, Vopnafjarðarhreppur og Dalabyggð hvar sveitarstjórnarmenn eru 7.
 • Þar sem íbúar eru 2.000–9.999: 7–11 aðalmenn. Múlaþing er með 11 fulltrúa en það sveitarfélag varð til árið 2020. Akranes, Fjarðabyggð, Vestmannaeyjar, Sveitarfélagið Skagafjörður, Borgarbyggð, Ísafjarðarbær, Suðurnesjabær og Norðurþing eru með 9 fulltrúa. Seltjarnarnes, Grindavík, Hveragerði, Sveitarfélagið Ölfus og Sveitarfélagið Hornafjörður eru með sjö fulltrúa. Segja má að Seltjarnarnes skeri sig svolítið úr með 7 fulltrúa þar með færri en t.d. í Vestmannaeyjum og Skagafirði þar sem íbúar eru færri.
 • Þar sem íbúar eru 10.000–49.999: 11–15 aðalmenn. Kópavogur, Hafnarfjöður, Reykjanesbær, Akureyri, Garðabær, Mosfellsbær og Sveitarfélagið Árborg. Öll sveitarfélögin eru með lágmarkstölu fulltrúa.
 • Þar sem íbúar eru 50.000–99.999: 15–23 aðalmenn. Ekkert sveitarfélag er í þessum flokki.
 • Þar sem íbúar eru 100.000 eða fleiri: 23–31 aðalmenn. Reykjavík sem er með lágmarkstölu.

Að breyta atkvæðum í kjörna fulltrúa – 1.hluti

Í sveitarstjórnar- og alþingiskosningum á Íslandi er notuð svokölluð D’honte regla til að breyta atkvæðum í kjörna fulltrúa. Hægt er að mæla hversu vel þetta hefur tekist til með því að mæla hlutfallslegt fylgi og hlutfallslega fjöldag fulltrúa fyrir hvert framboð í hverju sveitarfélagi eða kjördæmi og taka síðan meðaltal mismunarins án tillits hvort hann er neikvæður eða jákvæður. Auðvitað koma inn í þessa útreikninga tilviljanakenndar breytur eins og t.d. í Strandabyggð þar sem að fylgi framboðanna var með þeim hætti að aðeins munaði 0,15% á fylgi og fjölda fulltrúa í sveitarstjórn. Þar sem hins vegar er lítill munur á milli framboða þar sem að fáir fulltrúa eru kjörnir verður þessi viðmiðun há.

Ekki þarf að koma á óvart að almenna reglan er að því færri sem fulltrúarnir eru því hærri er mismunurinn að meðaltali. Þannig er meðaltalsmismunurinn þar sem kosnir voru fimm fulltrúar 5,54%, sjö fulltrúar 4,13%, níu fulltrúar 2,90%, ellefu fulltrúar 3,90% og í Reykjavík þar sem kjörnir voru 23 fulltrúar 1,05%. Há tala þar sem eru ellefu fulltrúar skýrist af fjölda framboða sem ekki náðu kjörnum fulltrúa sem einnig er breyta í þessu samhengi. Sem dæmi má nefna að fjögur framboði í Hafnarfirði náðu ekki fulltrúa, tvö í Kópavogi, Reykjanesbæ, Akureyrarbæ, Mosfellsbæ og Árborg. Þessi breyta hafði hins vegar takmörkuð áhrif í Reykjavík þar sem að tvö af þremur framboðum sem ekki náðu inn fengu mjög lítið fylgi.

Sé vilji til þess að minnka þennan mun er þá væntanlega leiðin að fjölga kjörnum fulltrúum en um það verður fjallað nánar síðar.

Framboðin sem náðu ekki inn

Af öllum þeim framboðum sem buðu fram í sveitarstjórnarkosningunum fyrir viku náðu 23 ekki neinum fulltrúa í sveitarstjórn en á bak við þessi framboð voru 8.739 atkvæði. Miðflokkurinn var með 7 af þessum framboðum, Vinstrihreyfingin grænt framboð 5, Píratar 4, Samfylkingin 1, sameiginlegt framboð Pírata og Viðreisnar 1 og önnur framboð voru 5.

Flest voru þessi framboð í Hafnarfirði – fjögur og í Reykjavík þrjú. Annars er skiptingin þannig á mili sveitarfélaga:

 • Hafnarfjörður – 17,54% atkvæða, Píratar 6,13%, Vinstrihreyfingin grænt framboð 4,31%, Bæjarlistinn 4,27% og Miðflokkurinn 2,84%.
 • Árborg – 10,96% atkvæða, Vinstrihreyfingin grænt framboð 5,97% og Miðflokkur og sjálfstæðir 4,99%.
 • Mosfellsbær – 10,65% atkvæði, Vinstrihreyfingin grænt framboð 5,71% og Miðflokkurinn 4,94%.
 • Grindavík – 9,31% atkvæða, Samfylkingin og óháðir 9,31%.
 • Seltjarnarnes – 9,07% atkvæða, Framtíðarlistinn 9,07%.
 • Kópavogur – 7,89% atkvæða, Vinstrihreyfingin grænt framboð 5,27% og Miðflokkurinn og óháðir 2,62%
 • Akureyri – 7,16% atkvæða, Kattaframboðið 4,09 og Píratar 3,07%.
 • Kjósarhreppur – 6,81% atkvæða, Kjósarlistinn 6,81% (13 atkvæði).
 • Fjarðabyggð – 6,09% atkvæða, Vinstrihreyfingin grænt framboð 6,09%.
 • Reykjanesbær – 5,85% atkvæða, Píratar og óháðir 4,05% og Miðflokkurinn 1,80%.
 • Ísafjarðarbær – 4,64% atkvæða, Píratar 4,64%.
 • Garðabær – 3,67% atkvæða, Miðflokkurinn 3,67%
 • Reykjavík – 3,46% atkvæða, Miðflokkurinn 2,45%, Ábyrg framtíð 0,79% og Reykjavík, besta borgin 0,22%.