ritstjóri

This user hasn't shared any biographical information

Homepage: https://kosningasaga.wordpress.com

Guðmundur Franklín Jónsson lofar að íhugar forsetaframboð

Guðmundur Franklín Jónsson stofnandi og fyrrverandi formaður Hægri grænna lofar að íhugar framboð til embættis forseta Íslands ef að enginn góður gefur sig fram á næstu tveimur mánuðum. Þetta kemur fram á facebook-síðu Guðmundar Franklín. Þar svarar hann áskorun um að fara í forsetaframboð á eftirfarandi hátt: „Takk fyrir áskorunina, ég er að sjálfsögðu að hugsa málið. Það er ekki hægt þjóðfélagslega séð að hafa Guðna önnur fjögur ár í viðbót. Hann er þegar búinn að skaða þjóðfélagið eins og í Orkupakkamálinu. Hann má ekki geta skaðað Ísland oftar, þessu verður að linna, sérstaklega með lifandi aðildarumsókn ESB sem er enn í vinnslu. Ef að enginn góður gefur sig fram á næstu tveimur mánuðum þá kem ég til með að hugsa þetta grafalvarlega. Því skal ég lofa þér.“

Færðu inn athugasemd

Sósíalistar boða framboð til Alþingis

Félagsfundur Sósíalistaflokks Íslands hefur samþykkt að undirbúa framboð flokksins til næstu Alþingiskosninga. Flokkurinn bauð fram í síðustu borgarstjórnarkosningum og hlaut þá einn borgarfulltrúa. Formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands og helsti talsmaður er Gunnar Smári Egilsson fv. útgefandi og ritstjóri. Listabókstafur flokksins er J.

Færðu inn athugasemd

80% ánægð með störf Guðna Th. Jóhannessonar

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að 80% aðspurðra í könnun Zenter rannsókna eru ánægð með störf Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands. Þar af eru 57% mjög ánægð og 23% frekar ánægð. Aðeins 6,5% eru óánægð með störf hans. Samkvæmt könnuninni eru stuðningsmenn Miðflokksins minnst hrifnir af Guðna en 37% þeirra eru óánægð með störf forsetans. Almenn ánægja er hins vegar með störf forsetans meðal stuðningsmanna Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks Íslands.

Guðni Th. Jóhannesson hefur sem kunnugt er gefið kost á sér til áframhaldandi setu í embætti forseta Íslands. Forsetakosningar verða haldnar 27. júní n.k. ef mótframboð kemur fram.

Færðu inn athugasemd

Guðni Th. gefur kost á sér áfram

Kjörtímabil Guðna Th. Jóhannesson rennur út á þessu ári. Í nýársávarpi sínu í dag lýsti Guðni Th. því yfir að hann gæfi kost á sér til áframhaldandi setu.

Færðu inn athugasemd

Árið 2019

Þrátt fyrir að engar kosningar hafi verið á árinu 2019 var það ekki tíðindalaust. Breytingar urðu á ríkisstjórn, þingmenn færðust milli þingflokka og fjögur sveitarfélög á Austurlandi sameinuðust.

Í febrúar gengu Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, sem kjörnir voru á þing fyrir Flokk fólksins en höfðu verið utan þingflokka um skamma hríð, í Miðflokkinn.

Í september tók Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir við embætti dómsmálaráðherra af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur sem gengt hafði embættinu um skamma hríð eftir afsögn Sigríðar Andersen í mars.

Í október samþykktu íbúar fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi sameiningu þeirra í eitt. Það voru Borgarfjarðarhreppur, Djúpavogshreppur, Fljótsdalshérað og Seyðisfjarðarkaupstaður.

Í nóvember sagði Andrés Ingi Jónsson sig úr þingflokki Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og stendur nú utan þingflokka.

Á árinu 2020 rennur út kjörtímabil Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands og verða því forsetakosningar haldnar á árinu.

 

Færðu inn athugasemd

Framboðsmál fyrir austan

Eins og áður hefur komið fram verður kosið í nýju sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar þann 18. apríl n.k. Fimm framboð hafa þegar verið boðuð. Þau eru: Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkurinn, Vinstrihreyfingin grænt framboð og framboð félagshyggjufólks.

Óhlutbundin kosning var í Borgarfjarðarhreppi í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Í Djúpavogshreppi voru listakosningar sem ekki er vitað til að hafi fylgt flokkslínum. Á Fljótsdalshéraði og Seyðifirði voru hins vegar listakosningar sem fylgdu flokkslínum.

Greint hefur verið frá því að framsóknarfélögin í sveitarfélögunum fjórum hafi nú þegar sameinað krafta sína. Framsóknarflokkurinn hefur einn bæjarfulltrúa á Seyðisfirði (Framsóknarflokkur og frjálslyndir) og tvo á Fljótsdalshéraði.

Sama hafa nú sjálfstæðisfélögin gert skv. frétt Austurfréttar en á dögunum sameinuðu þau fulltrúaráð sitt. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þrjá bæjarfulltrúa á Fljótsdalshéraði (Sjálfstæðisflokkur og óháðir) og tvo á Seyðisfirði.

Félagshyggjufólk hyggur einnig á framboð en Austurfrétt hefur greint frá því að að Héraðslistinn á Fljótsdalshéraði og Seyðisfjarðarlistinn auk fólks á Borgarfirði og á Djúpavogi hafi ákveðið að sameina krafta sína í nýju framboði. Seyðisfjarðarlistinn hefur fjóra af sjö bæjarfulltrúum á Seyðisfirði og Héraðslistinn þrjá af níu á Fljótsdalshéraði.

Í síðustu viku ákváðu félagar í Vinstrihreyfingunni grænu framboði að bjóða fram í nýja sveitarfélaginu. Vinstri grænir hafa aldrei boðið fram sérstakan lista á Fljótsdalshéraði en buðu fram árið 2010 á Seyðisfirði og hlutu þá einn bæjarfulltrúa.

Miðflokkurinn hlaut einn bæjarfulltrúa á Fljótsdalshéraði og boðar á facebook-síðu sinni framboð í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Færðu inn athugasemd

Kosið fyrir austan 18.apríl 2020

Kosið verður til sveitarstjórnar í nýju sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar þann 18. apríl 2020, fyrsta laugardag eftir páska. Austurfrett.is greinir frá.

Færðu inn athugasemd