ritstjóri

This user hasn't shared any biographical information

Homepage: https://kosningasaga.wordpress.com

Ný ríkisstjórn tekur við á morgun

Ný ríkistjórn, ráðuneyti Bjarna Benediktssonar, tekur að öllum líkindum við á morgun. Hún verður þannig skipuð:

Sjálfstæðisflokkur: Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra, Jón Gunnarsson samgöngu-, sveitarstjórnar- og byggðamálaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. Að auki verður Unnur Brá Konráðsdóttir forseti þingsins.

Viðreisn: Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Þorsteinn Víglundsson félags- og jafnréttisráðherra.

Björt framtíð: Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra og Björt Ólafsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra.

Færðu inn athugasemd

100 ár frá stofnun fyrsta ráðuneytisins

4. janúar 1917 tók ráðuneyti Jóns Magnússonar við völdum og varð hann þar með fyrsti forsætisráðherrann en hann fór einnig með dómsmál. Auk hans settust í stjórnina Björn Kristjánsson fjármálaráðherra og Sigurður Jónsson frá Ystafelli sem var atvinnumálaráðherra. Jón var í Heimastjórnarflokknum, Björn í Sjálfstæðisflokknum og Sigurður í Framsóknarflokknum. Björn lét af embætti 28. ágúst 1917 og þá tók við Sigurður Eggerz við embætti fjármálaráðherra.

Færðu inn athugasemd

Árið 2016

Viðburðaríku ári í kosningasögu landsins er senn að ljúka. Kosinn var nýr forseti og nýtt þing eftir afsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra.

Í nýársávarpi sínu tilkynnti Ólafur Ragnar Grímsson forseti að hann sækist ekki eftir endurkjöri. Í beinu framhaldi af því fóru fréttir um framboð að berast auk þess sem margir veltu fyrir sér framboðum. Á þriðja tug einstaklinga lýstu yfir framboði á einhverjum tímapunkti en meira en helmingur dró framboð sitt til baka eða náði ekki tilskildum fjölda meðmælenda. Meðal þeirra sem lýstu yfir framboði og hættu við var Ólafur Ragnar Grímsson. Á kjörseðlinum voru að lokum 9 nöfn en Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur sigraði með ríflega 39% atkvæði. Næstur honum kom Halla Tómasdóttir fjárfestir með tæp 28%. Sjá nánar.

Í apríl var sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra af sér og við tók ráðuneyti Sigurðar Inga Jóhannssonar. Jafnframt var ákveðið að kosningar færu fram í október. Tólf framboð buðu fram þar af þrjú ný. Það voru Viðreisn, Flokkur fólksins og Íslenska þjóðfylkingin. Úrslit urðu þau að Sjálfstæðisflokkur hlaut 21 þingsæti, Vinstrihreyfingin grænt framboð 10, Píratar 10, Framsóknarflokkur 8, Viðreisn 7, Björt framtíð 4 og Samfylking 3. Sjá nánar.

Af þeim sem kjörnir voru á þing voru 31 endurkjörinn, 3 komu inn á þing að nýju en 29 höfðu ekki setið áður á þingi. Af þeim sem sátu áður á þingi gáfu 18 ekki kost á sér til endurkjörs, 5 fengu ekki þann framgang í prófkjörum eða uppstillingu sem þeir væntu og 9 féllu í kosningunum sjálfum.

Færðu inn athugasemd

Fækkun sveitarfélaga framundan?

sambandÍ maí 2018 verður kosið til sveitarstjórna. Samkvæmt frétt á vef RÚV eru nokkrar hugmyndir, mislangt komnar, um sameiningu sveitarfélaga í gangi. Gangi þessar hugmyndir eftir sem kannski er ekki mjög líklega gæti sveitarfélögum fækkað um 17. Þessar hugmyndir eru:

  • Sveitarfélagið Garður og Sandgerðisbær – myndi fækka um eitt
  • Öll sveitarfélög í Árnessýslu utan Bláskógarbyggðar – myndi fækka um sex
  • Stykkishólmur, Grundarfjörður og Helgafellssveit – myndi fækka um tvö
  • Djúpavogshreppur, Sveitarfélagið Hornafjörður og Skaftárhreppur – myndi fækka um tvö
  • Eyjafjörður – Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Hörgársveit, Akureyri, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandahreppu og Grýtubakkahreppur – myndi fækka um sex

Færðu inn athugasemd

Framsóknarflokkurinn 100 ára

framsoknÍ dag 16. desember á Framsóknarflokkurinn 100 ára afmæli og því elsti starfandi stjórnmálaflokkur landsins. Flokkurinn var stofnaður 16. desember 1916 af þingmönnum úr Bændaflokknum og Óháðum bændum og var Ólafur Briem fyrsti formaður flokksins. Jón Sigurðsson fv.formaður flokksins skrifar grein um forystu Framsóknarflokksins á framsokn.is.

Alþýðuflokkurinn var einnig stofnaður 1916. Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður 1929 og Kommúnistaflokkur Íslands 1930 sem var undanfari Sósíalistaflokksins – sameiningarflokks Alþýðu og Alþýðubandalagsins. Vinstrihreyfingin grænt framboð og Samfylkingin voru stofnuð 1999 eftir uppstokkun á vinstri væng stjórnmálanna. Björt framtíð og Píratar voru stofnuð 2012 og Viðreisn var formlega stofnuð í maí sl.

Meira um íslenska stjórnmálaflokka er hægt að lesa á síðunni Íslenskir stjórnmálaflokkar í 100 ár. 

Færðu inn athugasemd

Með fleiri en 100 útstrikanir

Eftirtaldir 16 einstaklingar hlutu meira en 100 útstrikanir í kosningunum á laugardaginn.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson Framsóknarfl. NA 817 17,99%
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir Viðreisn SV 563 8,21%
Gunnar Bragi Sveinsson Framsóknarfl. NV 371 10,65%
Bjarni Benediktsson Sjálfstæðisfl. SV 274 1,52%
Vilhjálmur Bjarnason Sjálfstæðisfl. SV 205 1,14%
Birgitta Jónsdóttir Píratar RN 198 2,98%
Eygló Þóra Harðardóttir Framsóknarfl. SV 172 4,23%
Jón Gunnarsson Sjálfstæðisfl. SV 172 0,95%
Ásmundur Friðriksson Sjálfstæðisfl. SU 168 1,97%
Guðlaugur Þór Þórðarson Sjálfstæðisfl. RN 161 1,89%
Steingrímur J. Sigfússon Vinstri grænir NA 155 3,41%
Bryndís Haraldsdóttir Sjálfstæðisfl. SV 141 0,78%
Björn Valur Gíslason Vinstri grænir NA 127 2,80%
Óli Björn Kárason Sjálfstæðisfl. SV 125 0,69%
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Sjálfstæðisfl. RN 123 1,44%
Ólöf Nordal Sjálfstæðisfl. RS 111 1,24%

Færðu inn athugasemd

Sigmundur Davíð var strikaður út á 18% atkvæðaseðla

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson efsti maður á lista Framsóknarflokksins var strikaður út á 817 atkvæðaseðlum Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi. Það mun þó ekki hafa áhrif á röðun listans. Þá hlutu Steingrímur J. Sigfússon og Björn Valur Gíslason Vinstrihreyfingunni grænu framboði 155 og 127 útstrikanir hvor. Heildarlisti yfir útstrikanir er að finna á síðu fyrir kosningarnar í Norðausturkjördæmi 2016.

Færðu inn athugasemd