Forsetakosningar 2020

28.6.2020 Skoðanakannanir með mikla nákvæmni. Skoðanakannir fyrir forsetakosningarnar í gær voru mjög nákvæmar. Þær sýndu Guðna Th. Jóhannesson með fylgi upp á 90,4% – 95% fylgi en niðurstaðan var 92,2%.

28.6.2020 Guðni Th. Jóhannesson forseti Ísland næstu fjögur árin. Úrslit kosninganna voru að Guðni Th. Jóhannesson sigraði og fékk yfir 150 þúsund atkvæði á móti tæplega 13.000 atkvæðum Guðmundur Franklíns Jónssonar. Það þýðir að Guðni Th. hlaut 92,18% atkvæða og Guðmundur Franklín 7,82% af gildum atkvæðum. Auðir seðlar voru 2,39% og ógildir 0,63% af greiddum atkvæðum. Kjörsókn yfir allt landið var 66,93%. Mest var kjörsóknin í Norðvesturkjördæmi eða 69,21% en minnst í Suðurkjördæmi 64,69%.

Úrslitin voru sem hér segir:

Atkvæði Guðni Th. Jóhannesson Guðmundur Franklín Jónsson Samtals gild atkvæði Auðir seðlar Ógildir seðlar Samtals greidd atkvæði Samtals á kjörskrá
Reykjavíkurkjördæmi norður 26,800 2,259 29,059 678 213 29,950 46,047
Reykjavíkurkjördæmi suður 26,549 2,334 28,883 695 210 29,788 44,812
Suðvesturkjördæmi 44,630 3,461 48,091 1,083 286 49,460 72,686
Norðvesturkjördæmi 13,301 1,150 14,451 382 55 14,888 21,505
Norðausturkjördæmi 18,535 1,317 19,852 549 113 20,514 29,677
Suðurkjördæmi 21,098 2,276 23,374 656 191 24,221 37,425
Allt landið 150,913 12,797 163,710 4,043 1,068 168,821 252,152
Hlutfall Guðni Th. Jóhannesson Guðmundur Franklín Jónsson Samtals gild atkvæði Auðir seðlar Ógildir seðlar Kjörsókn
RN 92.23% 7.77% 100% 2.26% 0.71% 65.04%
RS 91.92% 8.08% 100% 2.33% 0.70% 66.47%
SV 92.80% 7.20% 100% 2.19% 0.58% 68.05%
NV 92.04% 7.96% 100% 2.57% 0.37% 69.23%
NA 93.37% 6.63% 100% 2.68% 0.55% 69.12%
SU 90.26% 9.74% 100% 2.71% 0.79% 64.72%
Allt landið 92.18% 7.82% 100% 2.39% 0.63% 66.95%

25.6.2020 252 þúsund kjósendur á kjörskrá. Í forsetakosningunum á laugardeginum eru samkvæmt Þjóðskrá Íslands 252.217 einstaklingar á kjörskrá. Það eru 125.667 karlar og 125.550 konur. Við forsetakosningarnar 2016 voru 244.954 á kjörskrá þannig að kjósendum á kjörskrá hefur fjölgað um 7.263 eða um rétt tæp 3%. Þeir skiptast þannig á milli kjördæma:

Kjördæmi Alls Karl Kona
Reykjavíkurkjördæmi suður      44.818      21.858      22.960
Reykjavíkurkjördæmi norður      46.059      22.882      23.177
Suðvesturkjördæmi      72.695      35.733      36.962
Norðvesturkjördæmi      21.511      11.045      10.466
Norðausturkjördæmi      29.695      15.033      14.662
Suðurkjördæmi      37.439      19.116      18.323
Landið Allt    252.217    125.667    126.550

25.6.2020 Yfir 42 þúsund greitt atkvæði. Síðdegis í dag höfðu 42.233 greitt atkvæði utan kjörfundar vegna forsetakosninganna á laugardaginn eða 16,7% þeirra sem eru á kjörskrá.  Í forsetakosningunum 2016 greiddu 42.671 atkvæði utan kjörfundar og 38.140 í forsetakosningunum 2012.

24.6.2020 Meira en 33.000 greitt atkvæði utan kjörfundar. Í gærkvöldi höfðu 33.646 greitt atkvæði utan kjörfundar. Það eru um 9% þeirra sem eru á kjörskrá. Í forsetakosningunum 2016 greiddu 42.671 atkvæði utan kjörfundar og 38.140 í forsetakosningunum 2012.

23.6.2020 Guðni Th. með 93,5% fylgi. Í skoðanakönnun Gallup sem RUV.is birti í kvöld mælist Guðni Th. Jóhannesson með 93,5% fylgi en Guðmundur Franklín Jónsson með 6,5% fylgi. Það er mesta fylgi sem Guðni hefur mælst með en í þeim fjórum könnunum sem birst hafa eftir að framboðsfrestur rann út hefur hann mælst með 90,4-92,4% fylgi.

22.6.2020 Rúmlega 24.000 búin að kjósa. Á landsvísu hafa 24.448 atkvæði verið greidd utankjörfundar vegna forsetakosninganna n.k. laugardag. Þar af höfðu 19.000 greitt atkvæði á höfuðborgarsvæðinu en til samanburðar höfðu 11.000 greitt atkvæði á sama tíma fyrir forsetakosningarnar 2016.

20.6.2020 Guðni Th. með 92,1% fylgi. Fréttablaðið greinir frá því að samkvæmt skoðanakönnun frá Zenter mælist Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands með 92,1% fylgi og Guðmundur Franklín Jónsson með 7,9%. Í könnuninni kemur einnig fram að 72% ætli örugglega á kjörstað, 14% telja mjög líklegt að þau fari og 5,5% frekar líklegt að þeir mæti á kjörstað. Það eru tæplega 92% kjósenda.

19.6.2020 20.000 búnir að kjósa. Samkvæmt frétt Mbl.is hafa yfir 20.000 greitt atkvæði utan kjörfundar á landinu öllu. Á höfuðborgarsvæðinu höfðu 15.300 greitt atkvæði samanborið við 9.000 manns fyrir fjórum árum.

19.6.2020 Kæru Axels Péturs vísað frá. Hæstirétt­ur vísaði kæru Ax­els Pét­urs Ax­els­son­ar, sem stefndi á fram­boð til for­seta Íslands, frá í vik­unni. Axel hafði leit­ast eft­ir því að kæra aðdrag­anda og fram­kvæmd kosn­inga sem og Rík­is­út­varpið.  Mbl.is greindi frá.

15.6.2020 Tæplega 14.000 hafa kosið utankjörfundar. Alls hafa 13.850 manns kosið utan kjörfundar. Þar af 10.800 á höfuðborgarsvæðinu en á sama tíma fyrir fjórum árum höfðu 5.258 greitt atkvæði á höfuðborgarsvæðinu.

11.6.2020 Guðni Th. með 92,4% fylgi. Samkvæmt skoðanakönnun Maskínu og Stöð 2 myndi Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands fá 92,4% fylgi og Guðmundur Franklín Jónsson 7,6%.  Tæplega 40% kjósenda Miðflokksins segjast styðja Guðmund Franklín og 27% kjósenda Flokks fólksins. Guðni Th. nýtur 97,4% fylgist meðal kvenna og 87,5% fylgist meðal karla.

11.6.2020 Átta þúsund búnir að greiða atkvæði. Vísir.is greindi frá því í gær að ríflega 8.000 manns hefðu þegar mætt á kjörstaði um land allt og það sem mun hærra hlutfall en fyrir fjórum árum. Á höfuðborgarsvæðinu hafa 6.500 greitt atkvæði á tæplega 2.200 á sama tíma fyrir síðustu forsetakosningar.

Í forsetakosningunum 2016 greiddu ríflega 185 þúsund manns atkvæði.

9.6.2020 Guðni Th. mælist með tæplega 91%. Í skoðanakönnun EMC rannsókna sem framkvæmd var dagana 3.-8. júní sögðust 90,9% ætla að kjósa Guðna Th. Jóhannesson en 9,1% sögðust ætla að kjósa Guðmund Franklín Jónsson.

4.6.2020 Guðni Th. mælist með 90%. Samkvæmt skoðanakönnun sem Gallup framkvæmdi dagana 29. maí til 3. júní nýtur Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands fylgis 90,4% kjósenda en Guðmundur Franklín Jónsson 9,6%

27.5.2020 Framboð Guðna og Guðmundar staðfest. Dómsmálaráðuneytið hefur gefið út auglýsingu um hverjir séu í framboði til kjörs forseta Íslands 27. júní næstkomandi í samræmi við lög um framboð og kjör forseta Íslands. Forsetaframbjóðendur eru þeir Guðni Th. Jóhannesson Forseti Íslands og Guðmundur Franklín Jónsson athafnamaður.

23.5.2020 Framboðsfrestur runninn út – tveir í kjöri. Framboðsfrestur rann út á miðnætti. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Guðmundur Franklín Jónsson athafnamaður skiluðu inn framboðum til dómsmálaráðuneytisins. Gera má ráð fyrir að dómsmálaráðuneytið auglýsi hverjir verði í kjöri fljótlega eftir helgi og ekki seinna en föstudaginn 29. maí.

20.5.2020 Tveir hafa skilað meðmælalistum í öllum kjördæmum. Þeir Guðni Th. Jóhannesson og Guðmundur Franklín Jónsson hafa einir skilað meðmælalistum í öllum kjördæmum. RUV.is greinir frá.

Þeir hafa jafnframt fengið vottorð frá yfirkjörstjórnum allra kjördæma. Vottorðunum þurfa þeir að skila til dómsmálaráðuneytisins á föstudag. Ekki er útlit fyrir að aðrir verði í kjöri þann 27. júní n.k.

20.5.2020 Axel Pétur Axelsson kærir framkvæmd forsetakosninga. Axel Pétur Axelsson, sem undanfarið hefur safnað meðmælendum fyrir forsetaframboð sitt, birtir á facebook-síðu sinni kæru til Hæstarétts Íslands þar sem hann telur að aðdragandi og framkvæmd forsetakosninganna 2020 ekki nógu góða.

Í fyrsta lagi telur hann að Ríkisútvarpið hafi ekki sitt lýðræðislegum skyldum sínum með tómlæti og fullkominni bannfæringu um skoðanir sínar, stefnur, upplýsingar og ályktanir sem hann segir að sé grunnurinn að forsetaframboði sínu. Í öðru lagi sakar hann einkarekna fjölmiðla um áróður sem stórskaði lýðræðislega framkvæmd forsetakosninga 2020 og framboð sitt. Í þriðja lagi gerir hann athugasemdir við rafræna söfnun meðmælenda en segist hafa verið með áætlun um að safna þeim með hefðbundnum hætti en það hafi ekki verið hægt sökum neyðarástand vegna Covid-19.

Helsta krafa Axels Péturs er að fyrsta stig kosninganna, sem er söfnun meðmælenda, verði dæmd ógild.

20.5.2020 Framboðsfrestur til miðnættir á föstudag.  Framboðsfrestur vegna forsetakosninganna 27. júní n.k. rennur út á miðnætti n.k. föstudag. Á vefnum kosning.is segir:“Samkvæmt 4. gr. laga um framboð og kjör forseta Íslands, nr. 36/1945, skal skila framboðum til forsetakjörs sem fram á að fara 27. júní 2020 í hendur dómsmálaráðuneytinu eigi síðar en kl. 24.00 föstudaginn 22. maí 2020. Framboði skal fylgja samþykki forsetaefnis, nægileg tala meðmælenda, sbr. auglýsingu forsætisráðuneytisins frá 20. mars 2020, svo og vottorð yfirkjörstjórna um að meðmælendur séu kosningarbærir.“

Þeir Guðni Th. Jóhannesson og Guðmundur Franklín Jónsson eru samkvæmt heimildum komnir með nægilega marga meðmælendur með framboðum sínum. Axel Pétur Axelsson sagðist í gær enn vanta nokkuð upp á. Ekki er vitað hvernig Arngrími Pálmasyni gengur að safna undirskriftum en hann sagðist í gær ekki ætla að hætta við framboð.

19.5.2020 Axel Pétur vantar slatta af meðmælendum. Axel Pétur Axelsson segir á facebook-síðu sinni að hann vanti slatta upp á fjölda meðmælenda og hvetur þá sem vilja sjá þrjá í framboði að skrifa undir meðmælalista sinn. Jafnframt segir hann: „það liggur fyrir að ég mun kæra framkvæmd valdstjórnarinnar á rafrænum meðmælalistum þar sem m.a. það liggur ljóst fyrr að íslendingar erlendis hafa ekki getað skrifað undir . . .“

18.5.2020 Mikilvægar dagsetningar vegna forsetakosninga.  Mikilvægar dagsetningar vegna forsetakosninga er að finna á kosning.is. Þessar eru helstar:

22. maí – Framboðsfrestur rennur út

25. maí – Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst

27. júní – Kjördagur

18.5.2020 Kristján Örn Elíasson hættir við framboð.  Kristján Örn Elíasson sem hafði boðað framboð til forseta Íslands hefur ákveðið að hætta við framboðið. Yfirlýsing hans er eftirfarandi: „Ég hef ákveðið að hætta við framboð til embættis forseta Íslands og styð jafnframt framboð Guðmundar Franklíns Jónssonar. Ég vil þakka öllum þeim sem hafa stutt mig í þessari vegferð og segi við þá að spillingin hjá æðstu handhöfum framkvæmdarvaldsins og löggæslu á Íslandi verður tekin hálstaki og snúin niður á öðrum vettvangi.“

Kristján Örn Elíasson er annar frambjóðandinn sem dregur sig í hlé en áður hafði Magnús Ingberg Jónsson dregið sig til baka þar sem honum hafði ekki tekist að safna nægilegum fjölda meðmælenda.

Þeir fjórir sem sækjast eftir að komast á kjörseðilinn fyrir forsetakosningarnar þann 27. júní n.k. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Guðmundur Franklín Jónsson, Axel Pétur Axelsson og Arngrímur Friðrik Pálmason.

18.5.2020 Axel Pétur Axelsson skilar meðmælalistum. RUV.is greinir frá því að Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Guðmundur Franklín Jónsson hafi skilað inn meðmælalista í Reykjavíkurkjördæmunum, Suðurkjördæmi og Suðvesturkjördæmi. Þá var greint frá því að Axel Pétur Axelsson hafi haft samband og vísað á meðmælendalista sína á netinu a.m.k. í Suðurkjördæmi.

Ekki eru fréttir af því að Arngrímur Friðrik Pálmason og Kristján Örn Elíasson hafi skilað inn meðmælendalistum í neinum kjördæmum.

16.5.2020 Guðmundur Franklín kominn með næga meðmælendur. Á facebook-síðu Guðmundar Franklíns Jónssonar segir hann aðspurður um hvernig að gangi að safna meðmælum að það sé „lukkulega langt yfir allsstaðar“. Þetta verður ekki skilið öðruvísi en að Guðmundur Franklín sé kominn með nægilega marga meðmælendur í öllum landsfjórðungum.

Eins og áður hefur komið fram hefur Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands einnig náð nægilega mörgum meðmælendum með framboði sínu. Ekki vitað hvernig hinum þremur frambjóendunum gengur að safna undirskriftum en þeir eru Argrímur Friðrik Pálmason, Axel Pétur Axelsson og Kristján Örn Elíasson. Eins áður hefur komið fram hefur Magnús Ingberg Jónsson hætt við framboð sitt þar sem hann sá ekki fram á að ná tilskyldum fjölda meðmælenda.

16.5.2020 Magnús Ingberg Jónsson hættir við forsetaframboð. Magnús Ingberg Jónsson sem hóf söfnun meðmæla með forsetaframboði sínu hefur ákveðið að hætta við framboð þar sem að söfnunin gekk ekki nógu vel. Þetta kemur fram í myndbandi sem hann birtir á facebook-síðu sinni.

13.5.2020 Kristján Örn Elíasson safnar meðmælum fyrir forsetaframboð. Kristján Örn Elíasson hóf í dag söfnun á meðmælum á Ísland.is vegna forsetaframboðs.  Í viðtali við frettabladid.is segir hann að ástæða framboðsins sé „… eigin­lega aðal­lega ó­á­nægja með stjórn­sýsluna og fram­kvæmdar­valdið. Mér finnst bara svo mikil spilling og ég vil leggja á­herslu á það.“

Kristján Örn er sjötti einstaklingurinn sem hefur hafið söfnun meðmælenda vegna forsetakosninganna í júnílok. Hinir eru Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, sem hefur náð tilsettum meðmælendafjölda,  Arngrímur Friðrik Pálmason, Axel Pétur Axelsson,  Guðmundur Franklín Jónsson og Magnús Ingberg Jónsson.

11.5.2020 Magnús Ingberg Jónsson safnar meðmælum fyrir forsetaframboð. Magnús Ingberg Jónsson hefur hafið söfnun á meðmælum á Ísland.is vegna forsetaframboðs. Magnús boðaði einnig framboð í forsetakosningunum 2016 en hann náði ekki tilskyldum fjölda meðmælenda með framboði sínu.

Magnús er fimmti aðilinn sem safnar undirskriftum fyrir forsetaframboð á Ísland.is. Hinir eru Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, sem hefur náð tilsettum meðmælendafjölda,  Arngrímur Friðrik Pálmason, Axel Pétur Axelsson og Guðmundur Franklín Jónsson.

8.5.2020 Guðni Th. kominn með hámarksfjölda meðmælenda. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands greindi frá því síðdegis að hann hefði um kl.16 verið kominn með hámarksfjölda meðmælenda fyrir framboð sitt. Aðrir sem eru að safna undirskriftum fyrir framboð sín eru Arngrímur Friðrik Pálmason, Axel Pétur Axelsson og Guðmundur Franklín Jónsson.

7.5.2020 Arngrímur Pálmason safnar meðmælum fyrir forsetaframboð. Arngrímur Friðrik Pálmason hefur nú bæst í hóp þeirra sem safna meðmælum á Ísland.is vegna forsetaframboðs. Arngrímur er öryrki sem telur að hið opinbera hafi brotið á mannréttindum hans undanfarin ár.

Arngrímur er fjórði aðilinn sem safnar undirskriftum fyrir forsetaframboð á Ísland.is. Hinir eru Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands, Guðmundur Franklín Jónsson og Axel Pétur Axelsson.

29.4.2020 Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst líklega 23.maí. Í tilkynningu á vef dómsmálaráðuneytisins kemur eftirfarandi fram: „Í ljósi þess ástands sem nú ríkir í samfélaginu vegna COVID-19 farsóttarinnar, m.a. vegna samkomubanns sem framlengt var til og með 3. maí nk., og í samræmi við ráðleggingar almannavarnadeild ríkislögreglustjóra er miðað að því að kosning utan kjörfundar geti hafist hinn 23. maí 2020.

27.4.2020 Guðmundur Franklín hefur söfnun undirskrifta á Ísland.is. Guðmundur Franklín Jósnson, sem lýsti yfir forsetaframboði í síðustu viku, hefur hafið rafræna söfnun undirskrifta fyrir framboð sitt á Ísland.is. Áður hafði Axel Pétur Axelsson hafið rafræna undirskriftasöfnun.

23.4.2020 Guðmundur Franklín í forsetaframboð. Guðmundur Franklín Jónsson viðskipta- og hagfræðingur og hótelstjóri á Hótel Klippen á Borgundarhólmi í Danmörku lýsti því yfir í ræðu á facebook-síðu sinni í morgun að hann gæfi kost á sér í embætti forseta Íslands. Jafnframt sagðist myndu setja orkupakka 4 og 5 í þjóðaratkvæðagreiðslu og að embætti forseta Íslands ætti ekki að vera til skrauts.

Guðmundur bauð sig einnig fram til forseta árið 2016 en dró framboð sitt til baka. Hann stofnaði árið 2013 stjórnmálaflokkinn Hægri græna og var formaður hans. Flokkurinn hlaut 1,7% í alþingiskosningum það sama ár og var því nokkuð langt frá því að ná kjörnum þingmönnum. Guðmundur Franklín var ekki í framboði þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði um lögheimili.  Flokkurinn var lagður niður árið 2016 er hann gekk inn í Íslensku þjóðfylkinguna. Fyrir alþingiskosningarnar 2016 bauð Guðmundur Franklín sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík en hafði ekki erindi sem erfiði.

Guðmundur er sá þriðji sem lýst hefur yfir framboði. Hinir tveir eru Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Axel Pétur Axelsson.

22.4.2020 Axel Pétur Axelsson hefur söfnun undirskrifta á Ísland.is. Axel Pétur Axelsson, sem boðað hefur forsetaframboð, hefur hafið söfnun undirskrifta fyrir framboð sitt á Ísland.is. Hann er eini frambjóðandinn sem hefur hafið undirskriftir á vefnum.

11.4.2020 Rafræn meðmæli með forsetaframbjóðendum. Á þriðjudag eftir páska verður tekið til fyrstu umræðu frumvarp stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um breytingar á lögum um framboð og kjör forseta Íslands og kosningar til Alþingis. Annars vegar eru leiðréttingar að ræða vegna sameininga sveitarfélaga en hins vegar er um að ræða bráðabirgðaákvæði um að safna megi meðmælendum með forsetaefni rafrænt. Ákvæði þetta fellur úr gildi við næstu áramót.

Uppfært – frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi þann 14. apríl 2020.

Axel Pétur Axelsson boðar forsetaframboð. Axel Pétur Axelsson, sem titlar sig þjóðfélagsverkfræðing, boðar framboð til forseta Íslands. Framboðssíða hans er Axel Pétur á Bessó 2020. Axel Pétur boðar að fyrsta verk hans verði að reka ríkisstjórnina. Þá segist hann vilja gera Íslendinga sjálfveldunga þ.e. sjálfvalda og að stefna Víkingaflokksins nái fram að ganga.

31.3.2020 Undirskriftum safnað fyrir Guðmund Franklín Jónsson. Samkvæmt frétt á Stundin.is í dag er undirskriftasöfnun fyrir forsetaframboð Guðmundar Franklíns Jónssonar hafin. Í svari við fyrirspurn Stundarinnar segist Guðmundur ekki hafa lýst yfir forsetaframboð og ef hann geri það verði það ekki strax og nefnir að veiran setji strik í reikninginn og að forsetakosningum verði kannski frestað.

20.3.2020 Auglýst eftir forsetaframbjóðendum. Forsætisráðuneytið hefur látið birta auglýsingu um forsetakjör sem fara á fram laugardaginn 27. júní n.k. Framboðum til forsetakjörs skal skila til dómsmálaráðuneytisins, ásamt samþykki forsetaefnis, nægilegri tölu meðmælenda og vottorðum yfirkjörstjórna um að þeir séu kosningarbærir, eigi síðar en fimm vikum fyrir kjördag. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hefur einn lýst yfir framboði.

21.1.2020 Guðmundur Franklín Jónsson lofar að íhuga forsetaframboð. Guðmundur Franklín Jónsson stofnandi og fyrrverandi formaður Hægri grænna lofar að íhugar framboð til embættis forseta Íslands ef að enginn góður gefur sig fram á næstu tveimur mánuðum. Þetta kemur fram á facebook-síðu Guðmundar Franklín. Þar svarar hann áskorun um að fara í forsetaframboð á eftirfarandi hátt: „Takk fyrir áskorunina, ég er að sjálfsögðu að hugsa málið. Það er ekki hægt þjóðfélagslega séð að hafa Guðna önnur fjögur ár í viðbót. Hann er þegar búinn að skaða þjóðfélagið eins og í Orkupakkamálinu. Hann má ekki geta skaðað Ísland oftar, þessu verður að linna, sérstaklega með lifandi aðildarumsókn ESB sem er enn í vinnslu. Ef að enginn góður gefur sig fram á næstu tveimur mánuðum þá kem ég til með að hugsa þetta grafalvarlega. Því skal ég lofa þér.“

17.1.2020 80% ánægð með störf Guðna Th. Jóhannessonar. 

Í Fréttablaðinu í dag kemur fram að 80% aðspurðra í könnun Zenter rannsókna eru ánægð með störf Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands. Þar af eru 57% mjög ánægð og 23% frekar ánægð. Aðeins 6,5% eru óánægð með störf hans. Samkvæmt könnuninni eru stuðningsmenn Miðflokksins minnst hrifnir af Guðna en 37% þeirra eru óánægð með störf forsetans. Almenn ánægja er hins vegar með störf forsetans meðal stuðningsmanna Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar, Pírata, Vinstri grænna og Sósíalistaflokks Íslands.

Guðni Th. Jóhannesson hefur sem kunnugt er gefið kost á sér til áframhaldandi setu í embætti forseta Íslands. Forsetakosningar verða haldnar 27. júní n.k. ef mótframboð kemur fram.

1.1.2020 Guðni Th. gefur kost á sér áfram. Kjörtímabil Guðna Th. Jóhannesson rennur út á þessu ári. Í nýársávarpi sínu í dag lýsti Guðni Th. því yfir að hann gæfi kost á sér til áframhaldandi setu.