Forsetakosningar 2016

forsetakosningar-logoFimmta kjörtímabil Ólafs Ragnars Grímssonar rann út 31.7.2016 og voru forsetakosningar haldnar 25. júní 2016. Framboðsfestur rann út 20.maí. Frambjóðendur voru níu. Þeir voru: Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir og Sturla Jónsson.

Úrslit – landið allt og eftir kjördæmum

Fyrirvari: Tölur eru ýmist fengnar úr fjölmiðlum frá því á kosninganótt og frá yfirkjörstjórnum. Ekki er um endanlega staðfestar tölur að ræða og á það sérstaklega við um fjölda á kjörskrá og auða og ógilda seðla. 

Guðni Th. Jóhannesson var kjörin forseti með 39,08% atkvæða. Næst honum kom Halla Tómasdóttir með 27,93%, þriðji var Andri Snær Magnason með 14,26% og fjórði Davíð Oddsson með 13,75%. Þá komu þau Sturla Jónsson með 3,53%, Elísabet Jökulsdóttir með 0,70%, Ástþór Magnússon 0,34%, Guðrún Margrét Pálsdóttir með 0,26% og Hildur Þórðardóttir með 0,16%. Þau fjögur síðasttöldu hlutu færri atkvæði en meðmælendur með framboði sínu.

Ástþór Magnússon er eini frambjóðandinn sem hefur verið áður í kjöri. Í kosningunum 1996 hlaut hann 2,68% og í kosningunum 2004 hlaut hann 1,89% en 0,34% nú.
landið

Allt landið Atkvæði Hlutfall
Andri Snær Magnason 26.037 14,26%
Ástþór Magnússon 615 0,34%
Davíð Oddsson 25.108 13,75%
Elísabet Jökulsdóttir 1.280 0,70%
Guðni Th. Jóhannesson 71.356 39,08%
Guðrún Margrét Pálsdóttir 477 0,26%
Halla Tómasdóttir 50.995 27,93%
Hildur Þórðardóttir 294 0,16%
Sturla Jónsson 6.446 3,53%
Samtals gild atkvæði 182.608 100,00%
Auðir seðlar 2.160 1,17%
Ógildir seðlar 622 0,34%
Samtals greidd atkvæði 185.390 75,68%
Á kjörskrá 244.954

R-N

Reykjavíkurkjörd. norður Atkvæði Hlutfall
Andri Snær Magnason 7.964 23,77%
Ástþór Magnússon 102 0,30%
Davíð Oddsson 4.311 12,87%
Elísabet Jökulsdóttir 408 1,22%
Guðni Th. Jóhannesson 12.055 35,99%
Guðrún Margrét Pálsdóttir 88 0,26%
Halla Tómasdóttir 7.363 21,98%
Hildur Þórðardóttir 63 0,19%
Sturla Jónsson 1.144 3,42%
Samtals gild atkvæði 33.498 100,00%
Auðir seðlar 364 1,07%
Ógildir seðlar 188 0,55%
Samtals greidd atkvæði 34.050 74,26%
Á kjörskrá 45.850

R-S

Reykjavíkurkjörd. suður  Atkvæði Hlutfall
Andri Snær Magnason 6.432 19,12%
Ástþór Magnússon 111 0,33%
Davíð Oddsson 4.583 13,62%
Elísabet Jökulsdóttir 294 0,87%
Guðni Th. Jóhannesson 12.953 38,51%
Guðrún Margrét Pálsdóttir 91 0,27%
Halla Tómasdóttir 7.890 23,46%
Hildur Þórðardóttir 54 0,16%
Sturla Jónsson 1.229 3,65%
Samtals gild atkvæði 33.637 100,00%
Auðir seðlar 407 1,19%
Ógildir seðlar 126 0,37%
Samtals greidd atkvæði 34.170 75,01%
Á kjörskrá 45.554

SV

Suðvesturkjördæmi Atkvæði Hlutfall
Andri Snær Magnason 6.591 12,90%
Ástþór Magnússon 150 0,29%
Davíð Oddsson 7.087 13,88%
Elísabet Jökulsdóttir 251 0,49%
Guðni Th. Jóhannesson 20.358 39,86%
Guðrún Margrét Pálsdóttir 123 0,24%
Halla Tómasdóttir 14.765 28,91%
Hildur Þórðardóttir 72 0,14%
Sturla Jónsson 1.677 3,28%
Samtals gild atkvæði 51.074 100,00%
Auðir seðlar 492 0,95%
Ógildir seðlar 187 0,36%
Samtals greidd atkvæði 51.753 76,70%
Á kjörskrá 67.478

NV

Norðvesturkjördæmi Atkvæði Hlutfall
Andri Snær Magnason 1.184 7,16%
Ástþór Magnússon 78 0,47%
Davíð Oddsson 2.338 14,14%
Elísabet Jökulsdóttir 83 0,50%
Guðni Th. Jóhannesson 6.953 42,06%
Guðrún Margrét Pálsdóttir 43 0,26%
Halla Tómasdóttir 5.292 32,01%
Hildur Þórðardóttir 28 0,17%
Sturla Jónsson 531 3,21%
Samtals gild atkvæði 16.530 100,00%
Auðir seðlar 217 1,29%
Ógildir seðlar 51 0,30%
Samtals greidd atkvæði 16.798 78,41%
Á kjörskrá 21.424

NA

Norðausturkjördæmi Atkvæði Hlutfall
Andri Snær Magnason 1.981 8,94%
Ástþór Magnússon 73 0,33%
Davíð Oddsson 2.488 11,23%
Elísabet Jökulsdóttir 99 0,45%
Guðni Th. Jóhannesson 9.996 45,10%
Guðrún Margrét Pálsdóttir 52 0,23%
Halla Tómasdóttir 6.884 31,06%
Hildur Þórðardóttir 31 0,14%
Sturla Jónsson 560 2,53%
Samtals gild atkvæði 22.164 100,00%
Auðir seðlar 253 1,13%
Ógildir seðlar 70 0,31%
Samtals greidd atkvæði 22.487 76,15%
Á kjörskrá 29.531

SU

Suðurkjördæmi Atkvæði Hlutfall
Andri Snær Magnason 1.885 7,33%
Ástþór Magnússon 101 0,39%
Davíð Oddsson 4.301 16,73%
Elísabet Jökulsdóttir 145 0,56%
Guðni Th. Jóhannesson 9.041 35,17%
Guðrún Margrét Pálsdóttir 80 0,31%
Halla Tómasdóttir 8.801 34,24%
Hildur Þórðardóttir 46 0,18%
Sturla Jónsson 1.305 5,08%
Samtals gild atkvæði 25.705 100,00%
Auðir seðlar 427 1,63%
Ógildir seðlar 0,00%
Samtals greidd atkvæði 26.132 74,41%
Á kjörskrá 35.117

Úrslit eftir frambjóðendum og kjördæmum 

Hér eru myndir sem sýna hlutfallslegt fylgi frambjóðenda eftir kjördæmum.

Hildur

Fréttayfirlit

24.6.2016 Könnun frá Gallup – kosið á morgun

RÚV sagði í dag frá könnun Gallup á fylgi forsetaframbjóðendanna sem gerð var 20.-24. júní sl. Guðni Th. Jóhannesson er með 44,6% sem er minna en í undanförnum könnunum sem samt með mikla yfirburði og fátt getur því komið í veg fyrir að hann verði næsti forseti lýðveldisins. Halla Tómasdóttir er önnur með 18,6% og þeir Davíð Oddson og Andri Snær Magnason með um 16% hvor. Þar á eftir koma Sturla Jónsson með 2,5%, Elísabet Jökulsdóttir 1,1%, Ástþór Magnússon 0,7%, Guðrún Margrét Pálsdóttir 0,5% og Hildur Þórðardóttir mældist ekki með neitt fylgi þriðju könnunina í röð.

23.6.2016 Tvær kannanir – tveir dagar til kosninga

Í morgun birti Fréttablaðið könnun um fylgiforsetaframbjóðenda sem gerð var 21.júní og Morgunblaið birti könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem gerð var 19.-22.júní. Helstu niðurstöður eru þær að Guðni Th. Jóhannesson er með langmest fylgi eins og í fyrri könnunum, mælist nú með 46% og 49% fylgi. Halla Tómasdóttir heldur áfram að bæta við sig fylgi og er nú í öðru sæti með 13% og tæplega 20% fylgi. Næstir koma þeir Davíð Oddsson og Andri Snær Magnason. Davíð með 16% og 12,4% og Andri með tæplega 16% og 13% fylgi. Aðrir mælast með 6,2% og 6,1% fylgi sem skiptist þannig: Sturla Jónsson 3,7% og 2,5%, Ástþór Magnússon 1,4% og 1,7%, Elísabet Jökulsdóttir 0,6% og 1,5%, Guðrún Margrét Pálsdóttir 0,3% og 0,0%. Hildur Þórðardóttir mældist ekki með neitt fylgi í hvorugri könnuninni.

22.6.2016 Kjörsókn í forsetakosningum

Sjö sinnum hefur almenningur á Íslandi gengið til forsetakosninga. Kjörsókn í þessum kosningum hefur verið afar mismunandi. Mest var hún í kosningunum 1968 þegar Kristján Eldjárn var kjörinn forseti eða 92,2%. Þar á eftir var það í kosningunum 1980 þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörin eða 90,5%. Þá var 85,9% kjörsókn 1996 og 82% kjörsókn 1952. Það hefur því verið góð kjörsókn þegar að íslendingar hafa valið sér nýjan forseta.

Lélegasta kjörsóknin fram að þessu var í forsetakosningunum 2004 þegar aðeins 62,9% ómökuðu sig á kjörstað. Ólafur Ragnar Grímsson var endurkjörinn í þessum kosningum en mótframbjóðendur hans voru þeir Baldur Ágústsson og Ástþór Magnússon. Óvenjumikið var um auða seðla en sigur Ólafs Ragnars aldrei í hættu. Næst minnsta þátttakan var í kosningum 2012 þegar Ólafur Ragnar var endurkjörinn með ríflega helming atkvæða en Þóra Arnórsdóttir leiddi í skoðanakönnunum framan af. Þriðja minnsta kjörsóknin var 1988 þegar Vigdís Finnbogadóttir fékk mótframboð frá Sigrúnu Þorsteinsdóttur eða 72,8%. Vigdís hlaut 94,6% atkvæða og því engin spenna varðandi þær kosningar.

En hvernig verður þetta í ár? Samkvæmt skoðanakönnunum er einn frambjóðandi með yfirgnæfandi fylgi og til þess að það breytist þyrfti eitthvað stórkostlegt að gerast á síðustu dögunum. Ofan á þetta er síðan fjöldi manns að fylgjast með EM í fótbolta í Frakklandi en óvenjumargir kosið utan kjörfundar hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Að auki er um að ræða upphaf hefðbundins sumarfrístíma hjá almenningi. Tímasetning kosninganna auk lítillar spennu leiðir gæti því leitti til þess að að kjörsóknin á laugardaginn geti farið allt niður í 60% sem yrði lélegasta kjörsókn frá upphafi. Fari svo er réttast að færa kjördag fram um mánuð þannig að hann verði síðusta laugardag í maí líkt og í sveitarstjórnarkosningum.

22.6.2016 Engin skoðanakönnun í viku – 3 dagar til kosninga

Nú er vika síðan að síðasta skoðanakönnun um fylgi við forsetaframbjóðendur birtist. Í henni hafði Guðni Th. Jóhannesson 51% fylgi eða þrisvar sinnum meira fylgi en Davíð Oddsson sem kom næstur. Næst þeim komu síðan þau Andri Snær Magnason og Halla Tómasdóttir. Ólíklegt er að staða Guðna hafi breyst það mikið að það komi í veg fyrir sigur hans í kosningunum og kannski snýst spennan um að hvernig þau þrjú næstu raðist upp. Líklegt er að kannanafyrirtækjum og fjölmiðlum þyki ekki gáfulegt að eyða fjármagni í að gera margar kannanir þegar að munurinn er svo mikill. Líklegt verður þó að telja að einhverjar skoðanakannanir birtist á þeim þremur dögum sem eftir eru að kosningabaráttunni.

21.6.2016 245 þúsund á kjörskrárstofni fyrir forsetakosningarnar

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá eru 245.004 á kjörskrárstofni fyrir forsetakosningarnar á laugardaginn. Til samanburðar voru 235.743 á kjörskrá í kosningunum 2012 og 194.705 í kosningunum 1996 þegar að Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn forseti í fyrsta skipti.

Flestir eru á kjörskrá í Reykjavíkurkjördæmunum, samtals 91.435, í Suðvesturkjördæmi eru 67.478, Suðurkjördæmi 35.136, Norðausturkjördæmi 29.531 og í Norðvesturkjördæmi 21.424.  Fæstir eru á kjörskrá í Helgafellssveit 41, Skorradalshreppi 48, Árneshreppi 48 og Tjörneshreppi 58.

Nýjir kjósendur, þ.e. þeir sem ekki gátu kosið í forsetakosningunum 2012 eru 17.822 eða 7,3%. Kjósendur með lögheimili erlendis eru 13.077 eða 5,3%.

15.6.2016 Könnun frá Gallup – 10 dagar til kosninga

RÚV birti í dag skoðanankönnun um fylgi forsetaframbjóðendanna en í dag eru tíu dagar til kosninga. Guðni Th. Jóhannesson mælist nú með 51% fylgi sem er 4-5% minna fylgi en í tveimur síðustu könnunum sem voru frá Félagsvísindastofnun og Fréttablaðinu. Davíð Oddsson er með 16,4% sem er svipað og í síðustu könnunum. Andri Snær Magnason er með 15,5% sem er nokkur aukning frá síðustu könnunum. Munurinn á Davíð og Andra Snæ er innan skekkjumarka. Halla Tómasdóttir er með 12,5% sem nokkurn veginn það sama og í könnun Félagsvísindastofnunar en heldur meira en í könnun Fréttablaðsins. Þá er Sturla Jónsson með 2,7%, Elísabet Jökulsdóttir 1,1%, Ástþór Magnússon 0,5%, Guðrún Margrét Pálsdóttir 0,3% og Hildur Þórðardóttir 0,2%.

14.6.2016 Könnun í Fréttablaðinu – 11 dagar til kosninga

Fréttablaðið birtir skoðanakönnun í morgun. Könnunin er að mestu leiti í takti við könnun Félagsvísindastofnun sem birtist í Morgunblaðinu í gær. Guðni Th. Jóhannesson mælist með 56,0% fylgi og Davíð Oddsson með 16,1%. Andri Snær Magnason mælist með 13,1% sem er heldur meira en undanfarið og Halla Tómasdóttir með 9,6% sem er meira en í síðustu könnun Fréttablaðsins en heldur minna en í könnun Félagsvísindastofnunar. Aðrir mælast með 5,2% fylgi en það er ekki sundurgreint í Fréttablaðinu í dag.

13.6.2016 Könnun frá Félagsvísindastofnun

Morgunblaðið birtir í morgun könnun sem gerð var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands dagana 8.-12. júní. Í könnuninni er Guðni Th. Jóhannesson langefstur sem fyrr og mælist nú með 55% fylgi. Það er svipað í síðustu könnun Félagsvísindastofnunar sem gerð var 1.-2. júní. Davíð Oddsson kemur næstur með 15,9% sem er heldur minna en í undanförnum könnunum. Halla Tómasdóttir er komin í þriðja sætið með 12,3% og hefur bætt jafnt og þétt við sig undanfarnar vikur. Andri Snær Magnason mælist með 11% sem er sama fylgi og í undanförnum könnunum. Aðrir frambjóðendur mælast með 5,7% og skiptist það þannig að Sturla Jónsson er með 2,2%, Ástþór Magnússon 1,7%, Elísabet Jökulsdóttir 1,1%, Guðrún Margrét Pálsdóttir 0,5% og Hildur Þórðardóttir 0,2%.

7.6.2016 Könnun í Fréttablaðinu

Fréttablaðið birtir könnun í dag um fylgi forsetaframbjóðendanna. Könnunin var gerð 6. júní. Guðni Th. Jóhannesson mældist með 60,4% sem er sama fylgi og í síðustu könnun blaðsins fyrir um viku og heldur meira en í síðustu könnunum. Næstur kemur Davíð Oddsson með 17,7% sem er heldur minna en í könnunum undanfarið. Andri Snær Magnason mælist með 10,9% og Halla Tómasdóttir með 7,3%. Aðrir mælast samtals með 3,5%.

3.6.2016 Könnun frá Gallup

Gallup birti í dag skoðanakönnun um fylgi forsetaframbjóðenda. Könnunin er í takti við kannanir Félagsvísindastofnunar og MMR birtust í gær og í dag. Guðni Th. Jóhannesson er með langmest fylgi eða 56,7%. Næstur kemur Davíð Oddsson með 20,3%, þá Andri Snær Magnason með 10,6% og Halla Tómasdóttir 7,5%. Aðrir frambjóðendur hlutu mun minna fylgi. Sturla Jónsson hlaut 3,0%, Ástþór Magnússon 0,8%, Guðrún Margrét Pálsdóttir 0,6%, Elísabet Jökulsdóttir 0,4% og Hildur Þórðardóttir 0,2%.

3.6.2016 Könnun frá Félagsvísindastofnun HÍ

Morgunblaðið birtir í dag könnun sem gerð var af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands 1.-2. júní sl. um fylgi við forsetaframbjóðendur. Helstu breytingar frá síðustu könnunum er að Guðni Th. Jóhannesson mælist með minna fylgi en áður en er samt sem áður með örugga forystu og 54,8% fylgi og að fylgi við Höllu Tómasdóttur hefur farið úr 3,4% í 9,5% á u.þ.b. einni viku. Fylgi Davíðs Oddssonar og Andra Snæs Magnasonar er svipað og áður, Davíð með 19,7% og Andri 12,3%. Aðrir frambjóðendur eru með innan við 2%. Sturla Jónsson mælist með 1,6%, Ástþór Magnússon 1,0%, Elísabet Jökulsdóttir 0,8%, Guðrún Margrét Pálsdóttir 0,2% og Hildur Þórðardóttir 0,1%.

2.6.2016 Könnun frá MMR

MMR birti könnun í dag um fylgi forsetaframbjóðendanna. Nokkrar breytingar eru frá síðustu könnunum. Þær eru helstar að fylgi við Guðna Th. Jóhannesson hefur heldur lækkað á meðan að fylgi Davíðs Oddssonar og Höllu Tómasdóttur hefur þokast upp á við. Guðni mælist samt með langmest fylgi eða 56,6%. Davíð mælist með 20,1%, Andri Snær Magnason með 10,9%, Halla Tómasdóttir með 6,9%, Sturla Jónsson með 2,2% og aðrir frambjóðendur mælast samtals með 3,3%. Það eru þau Ástþór Magnússon, Elísabet Jökulsdóttir, Guðrún Margrét Pálsdóttir og Hildur Þórðardóttir.

31.5.2016 Könnun í Fréttablaðinu

Fréttablaðið birtir könnun um fylgi forsetaframbjóðendanna í morgun. Hún er í samræmi við síðustu kannanir nema að Halla Tómasdóttir mælist með ívið meira fylgi og Andri Snær Magnason með heldur minna. Annars eru niðurstöðurnar þær að Guðni Th. Jóhannesson er með 60,4%, Davíð Oddsson 18,5%, Andri Snær Magnason 11,3%, Halla Tómasdóttir 5,9%, Sturla Jónsson um 2% og aðrir um 1,9%.

28.5.2016 Könnun frá Maskínu

Maskina gerði skoðanakönnun um fylgi forsetaframbjóðendanna 20.-27. maí sl. Í könnuninn fékk Guðni Th. Jóhannesson langmest fylgi eða 59,1% sem er heldur minna fylgi en í síðustu könnunum. Næstur kom Davíð Oddsson með 19% sem er heldur meira en undanfarið. Andri Snær Magnson er þriðji með 15,3% og hefur bætt sig nokkuð frá síðustu könnunum. Halla Tómasdóttir var með 3,4%. Aðrir frambjóðendur mældust með 3,2%. Það fylgi skiptist þannig að Sturla Jónsson hlaut 1,0%, Guðrún Margrét Pálsdóttir 0,9%, Elísabet Jökulsdóttir 0,5%, Ástþór Magnússon 0,2%, Magnús Ingberg Jónsson 0,2%, Baldur Ágústsson 0,1% og Hildur Þórðardóttir 0,1%.

25.5.2016 Könnun frá MMR

MMR gerði könnun á fylgi forsetaframbjóðendanna daga 12.-20. maí. sl. Samkvæmt könnuninni nýtur Guðni Th. Jóhannesson 65,6% fylgis sem er svipað og í næstu könnunum þar á undan. Davíð Oddsson mælist með 18,1%, Andri Snær Magnason 11%, Halla Tómasdóttir 2,2% en aðrir mælast samtals með 3,1%.

24. 5.2016 Magnús Ingberg Jónsson ekki í forsetaframboð

Magnús Ingberg Jónsson fékk bréf þess efnis í dag að of fáar undirskriftir hefðu borist vegna forsetaframboðs hans. Hann vantaði um 300 undirskriftir og er ósáttur við framkvæmd og upplýsingagjöf vegna forsetakosninganna og hyggst skoða að leita réttar síns.

Í framboði verða því þau Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðni Th Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir og Sturla Jónsson.

20.5.2016 Líklega níu frambjóðendur til forseta

Staðfest er að níu frambjóðendur skiluðu inn framboðum til embættis forseta Íslands áður en framboðsfrestur rann út á miðnætti í gærkvöldi. Það voru þau Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðni Th Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir og Sturla Jónsson.  Magnús Ingberg Jónsson skilaði inn framboði með of fáum meðmælendum og hyggst kæra framkvæmd kosninganna.

20.5.2016 Baldur Ágústsson dregur framboð sitt til baka

Baldur Ágústsson sem lýst hafði yfir framboði til embættis forseta Íslands hefur dregið framboð sitt til baka þar sem hann náði ekki að safna tilskyldum fjölda meðmælenda með framboði sínu.

Yfirlýstir frambjóðendur til forseta eru tíu. Þeir eru: Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir,  Hildur Þórðardóttir, Hrannar Pétursson, Magnúr Ingberg Jónsson og Sturla Jónsson.

20.5.2016 Tíu fengu vottorð í Norðausturkjördæmi

Tíu forsetaframbjóðendur fengu vottorð frá yfirkjörstjórn Norðausturkjördæmis í dag. Þau voru: Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir, Magnús Ingberg Jónsson og Sturla Jónsson. Það var því aðeins Baldur Ágústsson sem ekki fékk útgefið vottorð af þeim sem eru í framboði.

20.5.2016 Framboðsfrestur rennur út á miðnætti

Framboðsfrestur fyrir komandi forsetakosningar rennur út á miðnætti. Ellefu hafa boðað framboð en miðað við fréttir er ólíklegt að þeir Baldur Ágústsson og Magnús Ingberg Jónsson nái að skila inn nægilegum fjölda meðmælenda til að komast í framboð. Þá virðist Elísabet Jökulsdóttir vera rétt yfir mörkunum ef marka má facebook-síðu hennar. Þessi þrjú fengu ekki vottorð frá yfirkjörstjórnum Suðurkjördæmis og Suðvesturkjördæmis í gær.

Gangi þetta eftir má búast við að forsetaframbjóðendur verði eftirtaldir níu einstaklingar: Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Elísabet Kristín Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannsson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir og Sturla Jónsson.

20.5.2016 Benedikt Kristján Mewes ekki í framboð

Benedikt Kristján Mewes sem boðað hafði forsetaframboð náði ekki að safna nægilega mörgum meðmælendum og nafn hans mun því ekki verða á kjörseðlinum.

Yfirlýstir frambjóðendur til forseta eru ellefu. Þeir eru: Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Baldur Ágústsson, Davíð Oddsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir,  Hildur Þórðardóttir, Hrannar Pétursson, Magnúr Ingberg Jónsson og Sturla Jónsson.

19.5.2016 Átta frambjóðendur fengu vottorð

Átta forsetaframbjóðendur fengu vottorð frá yfirkjörstjórnum Suðurkjördæmis og Suðvesturkjördæmis í dag. Þeir frambjóðendur sem fengu vottorð voru:  Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir og Sturla Jónsson.

Það þýðir einnig að ekki voru gefin út vottorð fyrir eftirtalda frambjóðendur: Baldur Ágústsson, Benedikt Kristján Mewes, Elísabet Jökulsdóttir og Magnús Ingberg Jónsson. Framboðsfrestur rennur út á miðnætti annað kvöld.

18.5.2016 Framboðsfrestur rennur út föstudaginn 20. maí

Innanríkisráðuneytið birti þessa auglýsingu í dag á vefnum kosning.is.

Framboðum til forsetakjörs skal skila til innanríkisráðuneytisins föstudaginn 20. maí 2016, eigi síðar en fyrir miðnætti. Framboðum skal fylgi samþykki forsetaefnis, nægilegur fjöldi meðmælenda og vottorð viðkomandi yfirkjörstjórna um að meðmælendur séu kosningabærir.

17.5.2016 Magnús Ingi Magnússon hættir við forsetaframboð

Magnús Ingi Magnússon veitingamaður, oft kenndur við Texasborgara, er hættur við framboð sitt til embættis forseta Íslands. Ástæðuna segir hann vera að hann náði ekki nógu mörgum meðmælendum, sérstaklega á Norður- og Austurlandi.

Frambjóðendur til forseta eru tólf. Þeir eru: Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Baldur Ágústsson, Benedikt Kristján Mewes, Davíð Oddsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir,  Hildur Þórðardóttir, Hrannar Pétursson, Magnúr Ingberg Jónsson og Sturla Jónsson.

17.5.2016 Tíu skiluðu inn meðmælalistum í Norðausturkjördæmi

Kjörstjórn Norðausturkjördæmis tók á móti meðmælalistum í dag. Tíu forsetaframbjóðendur skiluðu inn listum. Það voru þau Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Davíð Oddsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Hildur Þórðardóttir, Magnús Ingberg Jónsson og Sturla Jónsson.

Baldur Ágústsson, Benedikt Kristján Mewes og Magnús Ingi Magnússon höfðu ekki skilað inn meðmælalistum þegar að kjörstjórn fundaði kl.14 í dag.

16.5.2016 Elísabetu Jökulsdóttur vantar 150 meðmælendur

Á facebook-síðu sinni greinir Elísabet Jökulsdóttir frá því að framboð hennar til embættis forseta Íslands hangi á bláum þræði þar sem hana vantar enn 150 meðmælendur. Þeir skiptast þannig að hana vantar 80 undirskriftir í Norðlendingafjórðungi, 50 í Austfirðingafjórðungi og 20 í Vestlendingafjórðungi.

14.5.2016 Könnun frá Félagsvísindastofnun

Morgunblaðið birtir í dag könnun frá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sem gerð var 12. og 13. maí. Samkvæmt könnuninni nýtur Guðni Th. Jóhannesson 67,1% fylgis, Davíð Oddsson 17,4%, Andri Snær Magnason 7,8%, Sturla Jónsson 1,8% og Halla Tómasdóttir 1,5%. Aðrir hlutu minna en 1%.

Þeir sem hlutu minna en 1% voru: Ástþór Magnússon 0,7%, Magnús Ingi Magnússon 0,2%, Elísabet Jökulsdóttir 0,1%, Benedikt Kristján Mewses 0,1%, Guðrún Margrét Pálsdóttir 0,1% og Ari Jósepsson 0,1%. Þau Baldur Ágústsson, Hildur Þórðardóttir og Magnús Ingberg Jónsson mældust ekki. Þá nefndu 3,1% einhvern annan en þá sem lýst hafa yfir framboði.

13.5.2016 Frambjóðendur skila inn meðmælendalistum

Kjörstjórnir í Reykjavíkurkjördæmunum, í Norðvesturkjördæmi, í Suðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi tóku við meðmælendalistum í dag. Kjörstjórn Norðausturkjördæmis kemur saman í næstu viku. Framboðsfrestur rennur út 20.maí.

Í Reykjavíkurkjördæmunum skiluðu þau Andri Snær Magna­son, Ástþór Magnús­son,Davíð Odds­son, Elísa­bet Jök­ul­dótt­ir, Guðni Th. Jó­hann­es­son, Guðrún Mar­grét Páls­dótt­ir, Halla Tóm­as­dótt­ir, Hild­ur Þórðardótt­ir og Sturla Jóns­son inn listum. Sömu aðilar skiluðu inn listum í Suðurkjördæmi og Norðvesturkjördæmi en að auki skilaði Magnús Ingberg Jónsson inn meðmælalistum í þeim kjördæmum. Ekki er vitað hverjir skiluðu inn meðmælalistum í Suðvesturkjördæmi.

Þeir sem ekki skiluðu inn listum voru því Baldur Ágústsson, Benedikt Kristján Mewes og Magnús Ingi Magnússon.

13.5.2016 Skoðanakönnun frá Maskínu

Fyrirtækið Maskína gerði skoðanakönnun um fylgi forsetaframbjóðenda dagana 10.-13.maí. Um er að ræða aðra könnunina eftir að Ólafur Ragnar Grímsson hætti við að sæjast eftir endurkjöri. Samkvæmt könnuninni nýtur Guðni Th. Jóhannesson langmest fylgis en hann mælist með 67,2%. Næstir á eftir honum koma þeir Davíð Oddsson með 14,8% og Andri Snær Magnason með 12,1%. Halla Tómasdóttir 2,9%.

Aðrir sem hlutu minna en 1%: Sturla Jónsson 0,9%, Ástþór Magnússon 0,6%, Hildur Þórðardóttir 0,5%, Elísabet Jökulsdóttir 0,3%, Magnús Ingi Magnússon 0,3%, Benedikt Kristján Mewes 0,3%, Guðrún Margrét Pálsdóttir 0,1% og Magnús Ingberg, Jónsson 0,1%.Ari Jósepsson og Baldur Ágústsson mældust ekki með neitt fylgi.

13.5.2016 Ari Jósepsson hættir við forsetaframboð

Ari Jósepsson er hættur við að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Í viðtali við Mbl.is kvartar hann yfir áhugaleysi fjölmiðla á minna þekktum frambjóðendum.

Frambjóðendur til forseta eru þrettán: Þeir eru Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Baldur Ágústsson, Benedikt Kristján Mewes, Davíð Oddsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir,  Hildur Þórðardóttir, Hrannar Pétursson, Magnúr Ingberg Jónsson, Magnús Ingi Magnússon og Sturla Jónsson.

13.5.2016 Níu frambjóðendur komnir með meðmælendalista

Samkvæmt frétt Kjarnans að þá hafa níu frambjóðendur af fjórtán náð að safna nægilega mörgum undirskriftum til að verða á kjörseðlinum í forsetakosninunum í lok júní. Þeir eru Andri Snær Magna­son, Ari Jós­eps­son, Ást­þór Magn­ús­son, Davíð Odds­son, Guðni Th. Jóhann­es­son, Guð­rún Mar­grét Páls­dótt­ir, Halla Tóm­as­dóttir, Hildur Þórðardóttir og Sturla Jóns­son.

Þeir sem ekki hafa náð tilskyldum fjölda eru þau Baldur Ágústs­son, Bene­dikt Krist­ján Mewes, Elísa­bet Jök­uls­dóttir, Magnús Ing­berg Jóns­son og Magnús Ingi Magn­ús­son. Framboðsfrestur rennur úr 20. júní n.k.

11.5.2016 Skoðanakönnun Fréttablaðsins

Fréttablaðið birtir skoðanakönnun um fylgi forsetaframbjóðenda í dag. Guðni Th. Jóhannesson er með afgerandi forystu og mælist með 69% fylgi. Davíð Oddsson sem fær sína fyrstu alvöru mælingu mælist með 13,7% og Andri Snær Magnason með 10,7%. Aðrir mælast með minna. Ólafur Ragnar Grímsson sem dregið hefur framboð sitt til baka mælist þrátt fyrir það 3,2%, Halla Tómasdóttir með 1,0%, Elísabet Jökulsdóttir með 0,5%, Sturla Jónsson með 0,5%, Magnús Ingi Magnússon 0,4% og Benedikt Kristján Mewes 0,2%. Aðrir mældust samtals með 0,8%.

10.5.2016 Magnús Inberg Jónsson boðar forsetaframboð

Magnús Ingberg Jónsson hefur boðað forsetaframboð. Magnús Ing­berg er 46 ára og fisk­vinnslu­fræðing­ur að mennt, en starfar í dag sem verktaki og býr á Selfossi.

Frambjóðendur til forseta eru fjórtán: Þeir eru Andri Snær Magnason, Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Baldur Ágústsson, Benedikt Kristján Mewes, Davíð Oddsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir,  Hildur Þórðardóttir, Hrannar Pétursson, Magnúr Ingberg Jónsson, Magnús Ingi Magnússon og Sturla Jónsson.

9.5.2016 Guðni Th. mælist með langmest fylgi

MMR framkvæmdi skoðanakönnun á fylgi forsetaframbjóðenda dagana 6.-9. maí. sl. Í könnunin mældist Guðni Th. Jóhannesson með 59,2% fylgi en Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands með 25,3% og hafði fylgi hans helmingast frá könnun sem gerð var 22.-26.apríl sl. Þá hlaut Andri Snær Magnason 8,8% en hafði 29% í fyrri könnun MMR. Davíð Oddsson lýsti yfir framboði á meðan á könnuninni stóð og fékk hann 3,1%. Halla Tómasdóttir mældist með 1,7% og aðrir hlutu 1.9%.

9.5.2016 Ólafur Ragnar Grímsson hættur við að sækjast eftir endurkjöri

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands greindi frá því í dag í yfirlýsingu að hann væri hættur við að sækjast eftir endurkjöri. Segja má því að hann sé hættur við að hætta við að hætta.

Frambjóðendur til forseta eru þrettán: Þeir eru Andri Snær Magnason, Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Baldur Ágústsson, Benedikt Kristján Mewes, Davíð Oddsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir,  Hildur Þórðardóttir, Hrannar Pétursson, Magnús Ingi Magnússon og Sturla Jónsson.

8.5.2016 Davíð Oddsson í forsetaframboð

Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins, fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík og forsætisráðherra lýsti því yfir í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun að hann byði sig fram til embættis forseta Íslands.

Frambjóðendur til forseta eru fjórtán: Þeir eru Andri Snær Magnason, Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Baldur Ágústsson, Benedikt Kristján Mewes, Davíð Oddsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir,  Hildur Þórðardóttir, Hrannar Pétursson, Magnús Ingi Magnússon, Ólafur Ragnar Grímsson og Sturla Jónsson.

5.5.2016 Guðni Th. Jóhannesson býður sig fram til forseta

Guðni Th. Jóhannesson lýsti því yfir á fundi í Kópavogi í dag að hann biði sig fram til embættis forseta Íslands.

Frambjóðendur til forseta eru þrettán. Þeir eru Andri Snær Magnason, Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Baldur Ágústsson, Benedikt Kristján Mewes, Elísabet Jökulsdóttir, Guðni Th. Jóhannesson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir,  Hildur Þórðardóttir, Hrannar Pétursson, Magnús Ingi Magnússon, Ólafur Ragnar Grímsson og Sturla Jónsson.

5.5.2016 Skoðanakönnun í Fréttablaðinu

Fréttablaðið birtir í dag skoðanakönnun um fylgi forsetaframbjóðendanna. Könnunin var gerð 2. og 3. maí og var svarhlutfall um 70%. Samkvæmt könnuninn er Ólafur Ragnar Grímsson með 45% fylgi, Guðni Th. Jóhannesson 38% (sem væntanlega tilkynnir framboð í dag), Andri Snær Magnason 11%, Halla Tómasdóttir 3%, Ástþór Magnússon, Elísabet Jökulsdóttir og Magnús Ingi Magnússon með 1%. Ari Jósepsson, Baldur Ágústsson (sem tilkynnti framboð þann 2.maí), Benedikt Mewes, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Hildur Þórðardóttir og Sturla Jónsson komust ekki á blað.

2.5.2016 Guðni Th. Jóhannesson líklega í forsetaframboð

Telja verður líklegt að Guðni Th. Jóhannesson tilkynni forsetaframboð n.k. fimmtudag, uppstigningardag, en þá hefur hann boðað til fundar til að tilkynna um svar við spurningunni hvort hann fara í framboð. Stofnað hefur verið félag með nafninu „Félag um forsetaframboð Guðna Th. Jóhannessonar“

2.5.2016 Ný könnun frá Frjálsri verslun

Frjáls verslun birtir í dag skoðanakönnun um hvern fólk vill sjá sem forseta Íslands. Spurt var opið þannig að svarendur gátu valið hvern sem er. Af þeim sem afstöðu tóku nefndu 32% Ólaf Ragnar Grímsson, 27% Guðna Th. Jóhannesson, 8% Katrínu Jakobsdóttur og 6% Andra Snæ Magnason. 27% nefndu einhverja aðra en þeir eiga það sameiginlegt að vera allir undir 2%.

Einnig var spurt um hvað fólk myndi kjósa ef aðeins Guðni Th. Jóhannesson og Ólafur Ragnar Grímsson væru í kjöri. Þá mældist Guðni með 44,5%, Ólafur Ragnar með 42,5% en 13% voru óákveðnir eða vildu hvorugan kjósa.

Þá var spurt um hvern fólk myndi kjósa ef að Andri Snær, Ólafur Ragnar og Guðni Th. yrðu einir í framboði. Þá var niðurstaðan sú að Ólafur Ragnar hlaut 41,3%, Guðni Th. 33,9% og  Andri Snær 11,6%. 13,2% voru óákveðin eða vildu ekki kjósa neinn þeirra þriggja.

2.5.2016 Baldur Ágústsson býður sig fram aftur.

Baldur Ágústsson, sem bauð sem fram til embættis forseta Íslands árið 2004, hefur ákveðið að bjóða sig fram að nýju. Í forsetakosningunum 2004 hlaut hann 12,5% atkvæða. En auk hans voru í kjöri 2004 þeir Ólafur Ragnar Grímsson sem sigraði með yfirburðum og Ástþór Magnússon. Um fimmtungur kjósenda skilaði auðu.

Frambjóðendur til forseta eru tólf. Þeir eru Andri Snær Magnason, Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Baldur Ágústsson, Benedikt Kristján Mewes, Elísabet Jökulsdóttir, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir,  Hildur Þórðardóttir, Hrannar Pétursson, Magnús Ingi Magnússon, Ólafur Ragnar Grímsson og Sturla Jónsson.

29.4.2016 Ný könnun um forsetaframboð

Samkvæmt skoðanakönun Maskínu sem gerð var dagana 18.-29. apríl sögðust 46% myndu kjósa Ólaf Ragnar Grímsson, 24,6% Guðna Th. Jóhannesson og 15% Andra Snæ Magnason.  Frá þessu segir á mbl.is. Guðni Th. hefur ekki gefið út hvort hann gefi kost á sér. Aðrir frambjóðendur skiptu með sér um 14% en enginn þeirra hlaut meira en 2%. Athygli vekur að Halla Tómasdóttir sem mælst hefur með 8-9% náði ekki 2%. Spurt var opið um hvaða frambjóðanda fólk myndi kjósa og var svarhlutfall tæplega 70%.

28.4.2016 Skoðanakönnun um fylgi forsetaframbjóðenda

Fyrirtækið Zenter kannaði afstöðu fólks til forsetaframbjóðenda dagana 20.-28. apríl sl. Um 70% tóku afstöðu. Flestir nefndu Ólaf Ragnar Grímsson eða 57,6% þeirra sem afstöðu tóku. Næstur á eftir honum kom Andri Snær Magnason með 25,8% og þá Halla Tómasdóttir með 8,7%. Aðrir frambjóðendur mældust með innan við 3%. Hrannar Pétursson var með 2,1% og Bæring Ólafsson 1,5% en þeir hafa báðir dregið framboð sín til baka. Ástþór Magnússon mældist með 1,4%, Sturla Jónsson 0,9%, Magnús Inga Magnússon 0,8%, Guðrún Margrét Pálsdóttir 0,6%, Hildur Þórðardóttir 0,5% og Ari Jósepsson 0,2%. Enginn nefndi Elísabetu Jökulsdóttur og Benedikt Mewes.

24.4.2016 Skoðanakönnun um fylgi forsetaframbjóðenda

MMR kannaði fylgi við þá sem höfðu tilkynnt forsetaframboð dagana 22.-26. apríl sl. Ólafur Ragnar Grímsson mældist með 52,6%, Andri Snær Magnason með 29,4%, Halla Tómasdóttir 8,8%, Bæring Ólafsson* 1,7%, Hrannar Pétursson 1,7%, Elísabet Kristín Jökulsdóttir 1,4%, Sturla Jónsson 1,3%, Magnús Ingi Magnússon 1,1%, Ástþór Magnússon 0,8%, Guðrún Margrét Pétursdóttir 0,7%, Hildur
Þórðardóttir 0,4%, Ari Jósepsson 0,1% og Benedikt Kristján Mewes 0,0%.

24.4.2016 Hrannar Pétursson hættur við forsetaframboð

Hrannar Pétursson sem boðað hafði framboð til embættis forseta Íslands lýsti því yfir í dag að hann drægi framboð sitt til baka. Ástæðuna sagði hann vera þá óvæntu ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar að bjóða sig fram að nýju.

Frambjóðendur til forseta eru ellefu. Þeir eru Andri Snær Magnason, Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Benedikt Kristján Mewes, Elísabet Jökulsdóttir, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir,  Hildur Þórðardóttir, Hrannar Pétursson, Magnús Ingi Magnússon, Ólafur Ragnar Grímsson og Sturla Jónsson.

24.4.2016 Bæring Ólafsson hættur við forsetaframboð

Bæring Ólafsson hefur dregið framboð sitt til forseta Íslands til baka. Hann er fjórði frambjóðandinn sem dregur framboð sitt til baka eftir að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands ákvað að sækjast að nýju eftir endurkjöri.

Frambjóðendur til forseta eru tólf. Þeir eru Andri Snær Magnason, Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Benedikt Kristján Mewes, Elísabet Jökulsdóttir, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir,  Hildur Þórðardóttir, Hrannar Pétursson, Magnús Ingi Magnússon, Ólafur Ragnar Grímsson og Sturla Jónsson.

20.4.2016 Heimir Örn Hólmarsson dregur framboð sitt til baka

Heimir Örn Hólmarsson hefur dregið framboð sitt til forseta Íslands til baka. Hann er þriðji frambjóðandinn sem dregur framboð sitt til baka eftir að Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands ákvað að sækjast að nýju eftir endurkjöri.

Frambjóðendur til forseta eru þrettán. Þeir eru Andri Snær Magnason, Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Benedikt Kristján Mewes, Bæring Ólafsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir,  Hildur Þórðardóttir, Hrannar Pétursson, Magnús Ingi Magnússon, Ólafur Ragnar Grímsson og Sturla Jónsson.

18.4.2016 Vigfús Bjarni Albertsson dregur framboð sitt til baka

Vigfús Bjarni Albersson sjúkrahúsprestur hefur dregið framboð sitt til baka í framhaldi af framboði Ólafs Ragnars Grímssonar sitjandi forseta en Vigfúsi finnast leikreglunar hafa breyst með framboði Ólafs.

Frambjóðendur til forseta eru fjórtán. Þeir eru Andri Snær Magnason, Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Benedikt Kristján Mewes, Bæring Ólafsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Heimir Örn Hólmarsson, Hildur Þórðardóttir, Hrannar Pétursson, Magnús Ingi Magnússon, Ólafur Ragnar Grímsson og Sturla Jónsson.

18.4.2016 Guðmundur Franklín Jónsson dregur framboð sitt til baka

Guðmundur Franklín Jónsson hefur dregið framboð sitt til forseta Íslands til baka. Jafnframt lýsir hann yfir stuðningi við Ólaf Ragnar Grímsson.

Frambjóðendur til forseta eru fimmtán. Þeir eru Andri Snær Magnason, Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Benedikt Kristján Mewes, Bæring Ólafsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Heimir Örn Hólmarsson, Hildur Þórðardóttir, Hrannar Pétursson, Magnús Ingi Magnússon, Ólafur Ragnar Grímsson, Sturla Jónsson og Vigfús Bjarni Albertsson.

18.4.2016 Ólafur Ragnar Grímsson býður sig fram til forseta.

Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti í dag að hann byði sig fram að nýju en hann hafði í nýársávarpi sínu sagt að hann myndi ekki bjóða sig fram í komandi forsetakosningum.

Frambjóðendur til forseta eru sextán. Þeir eru Andri Snær Magnason, Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Benedikt Kristján Mewes, Bæring Ólafsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðmundur Franklín Jónsson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Heimir Örn Hólmarsson, Hildur Þórðardóttir, Hrannar Pétursson, Magnús Ingi Magnússon, Ólafur Ragnar Grímsson, Sturla Jónsson og Vigfús Bjarni Albertsson.

17.4.2016 Magnús Ingi Magnússon boðar forsetaframboð

Magnús Ingi Magnússon veitingamaður hefur ákveðið að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands. Magnús er þekktur sem Maggi á Texasborgurum og fyrir sjónvarpsþættina Eldhús meistaranna á ÍNN. Í yfirlýsingu hans segir m.a. „Í þessu embætti er hægt að vinna að hagsmunum heildarinnar þvert á alla flokka, valdablokkir og hagsmunaöfl. Ég hef vilja og dug til að leiða fólk saman og þykir vænt um land okkar og þjóð.“  Undir lok yfirlýsingar Magnúsar segir „Meðmælalistar liggja frammi á Texasborgurum. Ég býð öllum sem skrifa undir Texas-ostborgara með frönskum fyrir viðvikið.“

Frambjóðendur til forseta eru fimmtán. Þeir eru Andri Snær Magnason, Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Benedikt Kristján Mewes, Bæring Ólafsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðmundur Franklín Jónsson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Heimir Örn Hólmarsson, Hildur Þórðardóttir, Hrannar Pétursson, Magnús Ingi Magnússon, Sturla Jónsson og Vigfús Bjarni Albertsson.

16.4.2016 Bryndís og Davíð Þór ekki í framboð

Bryndís Hlöðversdóttir rikissáttasemjari og Davíð Þór Jónsson prestur sem hafa verið í umræðunni varðandi hugsanlegt forsetaframboð hafa gefið það út að þau ætli ekki fram.

13.4.2016 Ástþór Magnússon hefur safnað 3.000 undirskriftum

Ástþór Magnússon, sem boðað hefur framboð til embættis forseta Íslands, segist hafa safnað 3.000 undirskriftum fyrir framboð sitt og hefur óskað eftir að kjörstjórnir taki við þeim.

13.4.2016 Benedikt Kristján Mewes boðar forsetaframboð

Þann 8.apríl sl. tilkynnti Benedikt Kristján Mewes forsetaframboð sitt. Benedikt er fæddur árið 1977 í Þýskalandi en hann er menntaður mjólkurfræðingur. Hann flutti hingað til lands árið 2001 og fékk ríkisborgararétt árið 2009. Benedikt er kvæntur Manuel Francesco Mewes sem er einnig upprunalega frá Þýskalandi. Í viðtali við Vísi.is sagði Benedikt: „Mig langar að verða fyrsti samkynhneigði maðurinn sem verður forseti. Ég geri mér svo sem ekki alltof miklar vonir um að ná kjöri en það er aldrei að vita. Ég vil sjá hvað ég kemst langt.“

Frambjóðendur til forseta eru fjórtán. Þeir eru Andri Snær Magnason, Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Benedikt Kristján Mewes, Bæring Ólafsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðmundur Franklín Jónsson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Heimir Örn Hólmarsson, Hildur Þórðardóttir, Hrannar Pétursson, Sturla Jónsson og Vigfús Bjarni Albertsson.

13.4.2016 Sturla Jónsson hefur safnað 3.000 undirskriftum

Sturla Jónsson, sem boðað hefur framboð til embættis forseta Íslands, segist hafa safnað 3.000 undirskriftum fyrir framboð sitt og hefur óskað eftir að kjörstjórnir taki við þeim.

10.4.2016 Andri Snær Magnason boðar forsetaframboð

Andri Snær Magnason rithöfundur staðfesti í dag hann ætlar í forsetaframboð. Hann mun kynna framboðið á opnum fundi á morgun.

Frambjóðendur til forseta eru þrettán. Þeir eru Andri Snær Magnason, Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Bæring Ólafsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðmundur Franklín Jónsson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Heimir Örn Hólmarsson, Hildur Þórðardóttir, Hrannar Pétursson, Sturla Jónsson og Vigfús Bjarni Albertsson.

9.4.2016 Þorgrímur Þráinsson hættur við forsetaframboð

Þorgrímur Þráinsson hefur lýst því yfir að hann sé hættur við að fara í forsetaframboð. Þetta kemur fram í aðsendu bréfi í Morgunblaðinu í dag.

Frambjóðendur til forseta eru tólf. Þeir eru Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Bæring Ólafsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðmundur Franklín Jónsson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Heimir Örn Hólmarsson, Hildur Þórðardóttir, Hrannar Pétursson, Sturla Jónsson og Vigfús Bjarni Albertsson.

1.4.2016 Framboð dagsins

Tveir valinkunnir bæjarstjórar hafa boðað forsetaframboð í dag. Sökum dagsetningar verða framboð þeirra ekki tekin alvarlega nema þau verði enn til staðar á morgun.

26.3.2016 Kosningavefur innanríkisráðuneytisins uppfærður.

Vegna komandi forsetakosninga hefur kosningavefur innanríkisráðuneytisins verið uppfærður.

22.3.2016 Guðrún Margrét Pálsdóttir boðar forsetaframboð

Guðrún Margrét Pálsdóttir hjúkrunarfræðingur og einn af stofnendum ABC hjálparstarfs hyggst gefa kost á sér til framboðs forseta Íslands.Áherslumál sín segir hún vera „… að við stönd­um sam­an og hjálp­umst að sem þjóð og för­um ham­ingju­leiðina, þ.e. að við hlú­um að rót­um okk­ar og vöx­um í trú, von og kær­leika.“ og gera það sem í hennar „valdi stend­ur til að stuðla að bætt­um kjör­um þeirra sem búa við skort á þessu landi nái ég kjöri,“ Guðrún Margrét hefur þegar safnað um 1.000 meðmælendum með framboði sínu.

Frambjóðendur til forseta eru þá orðnir þrettán. Þeir eru Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Bæring Ólafsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðmundur Franklín Jónsson, Guðrún Margrét Pálsdóttir, Halla Tómasdóttir, Heimir Örn Hólmarsson, Hildur Þórðardóttir, Hrannar Pétursson, Sturla Jónsson, Vigfús Bjarni Albertsson og Þorgrímur Þráinsson.

20. mars 2016 Hrannar Pétursson boðar forsetaframboð

Hrann­ar Pét­urs­son fé­lags­fræðing­ur boðaði í morgun framboð sitt til embættis forseta Íslands. Hrannar hefur m.a. starfað fyrir Vodafone, Íslenska álfélaginu, sem fjölmiðlamaður og veitt ráðgjöf í upplýsinga- og samskiptamálum. Hrannar segir “ … að for­set­inn eigi að horfa fram á við. Hann á að vera  fram­sýnn og veita öðrum inn­blást­ur til góðra verka. Hann á að beita sér fyr­ir fram­förum, ný­sköp­un í at­vinnu­lífi, menn­ingu og mennt­un. Hann á að vera helsti talsmaður kynja­jafn­rétt­is í land­inu og bar­áttumaður fyr­ir bættri lýðheilsu. “

Forsetaframbjóðendur eru þá orðnir tólf talsins.  Þeir eru  Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Bæring Ólafsson, Elísabet Jökulsdóttir, Guðmundur Franklín Jónsson, Halla Tómasdóttir, Heimir Örn Hólmarsson, Hildur Þórðardóttir, Hrannar Pétursson, Sturla Jónsson, Vigfús Bjarni Albertsson og Þorgrímur Þráinsson.

20. mars 2016 Guðmundur Franklín Jónsson boðar forsetaframboð

Guðmundur Franklín Jónsson stofnaði og var formaður stjórnmálaflokksins Hægri grænna en stýrir nú veitinga- og gistirekstri í Danmörku. Guðmundur ætlaði að leiða lista Hægri grænna í Suðvesturkjördæmi í síðustu alþingiskosningum en í ljós kom að hann var ekki kjörgengur. Í yfirlýsingu hans segir m.a. „… ætla ég að bjóða fram krafta mína og hef ákveðið að gefa kost á mér í embætti til for­seta Íslands með þá ein­lægu von í hjarta, að geta þjónað fólk­inu í land­inu af auðmýkt og heiðarleika.“

18. mars 2016 Bæring Ólafsson boðar forsetaframboð

Bæring Ólafsson fv.forstjóri og framkvæmdastjóri Coca Cola Int. boðaði í dag framboð sitt til forseta Íslands. Í tilkynningu hans segir að hann telji að forseti eigi að vera óháður stjórnmálaöflum og hagsmunasamtökum til að geta tekið sjálfstæðar ákvaðanir er varða hagssmuni þjóðarinnar. Hann segist styðja aukið lýðræði, hvetja ungt fólk til menntunar og nýsköpunar, vill öflugt menningarlíf ásamt því að hann vill styðja og styrkja heilbrigðisstéttina og málefni aldraðra og öryrkja.

Bæring er tíundi einstaklingurinn sem boðar framboð til forseta Íslands. Aðrir eru  Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Elísabet Jökulsdóttir, Halla Tómasdóttir, Heimir Örn Hólmarsson, Hildur Þórðardóttir, Sturla Jónsson, Vigfús Bjarni Albertsson og Þorgrímur Þráinsson.

18. mars 2016 Halla Tómasdóttir boðar forsetaframboð

Halla Tómasdóttir tilkynnti á heimili sínu í dag að hún sæktist eftir embætti forseta Íslands. Halla hefur m.a. komið að uppbyggingu Háskólans í Reykjavík, verkefninu Auður í krafti kvenna, var framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs 2006-2007 og er einn af stofnendum Auðar Capital. Halla sagði í dag að hún vildi búa í samfélagi jafnréttis og jafnra tækifæra. Hún talaði um mikilvægi menntunar og þess að virkja frumkvöðlakraft þjóðarinnar.

Halla er níundi einstaklingurinn sem boðað hefur forsetaframboð. Hinir eru  Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Elísabet Jökulsdóttir, Heimir Örn Hólmarsson, Hildur Þórðardóttir, Sturla Jónsson, Vigfús Bjarni Albertsson og Þorgrímur Þráinsson

17. mars 2016 Auglýsing um forsetakjör

Gefin hefur verið út formleg auglýsing um forsetakjör þann 25. júní n.k. eins og lög gera ráð fyrir. Í auglýsingunni kemur einnig fram að forsetaframbjóðandi þarf að hafa minnst 1.500 meðmælendur en mest 3.000. Þeir eiga að skiptast á eftirfarandi hátt: Sunnlendingafjórðungur (Skaftárhreppur suðurum til að Hvítá í Borgarfirði) 1.215-2.430 meðmælendur, Vestfirðingafjórðungur (frá Hvítá í Borgarfirði um Vestfirði að Hrúafirði) 62-124 meðmælendur, Norðlendingafjórðungur (frá Hrúafirði í vestri að austurmörkum Tjörneshrepps) 163-326 og í Austfirðingafjórðungi (frá austurmörkum Tjörneshrepps til og með sveitarfélaginu Hornafirði) 60-120 meðmælendur.

9. mars 2016 Katrín Jakobsdóttir ætlar ekki í forsetaframboð.

Ein af þeim sem nokkuð hefur verið rætt um sem hugsanlegan forsetaframbjóðanda er Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstrihreyfinginarinnar græns framboðs, alþingismaður og fv. ráðherra. Þá hefur hún einnig mælst með þónokkurn stuðning í skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið.

Katrín hefur nú gefið út yfirlýsingu þess efnis að hún muni ekki gefa kost á sér að þessu sinni eins og hún orðar það á facebooksíðu sinni.

6. mars 2016 Vigfús Bjarni Albertsson boðar forsetaframboð.

Vigfús Bjarni Albertsson sjúkrahúsprestur á Landspítalanum hefur ákveðið að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands eftir að honum voru afhentar 500 áskoranir í dag.

Vigfús sagði embætti forseta eiga að minna á það sem væri sameiginlegt í þjóðarsálinni; þrautseigja og sköpunargáfa. „Án þess þó að boða að við séum betri en annað fólk. Fyrirtæki, hið vinnandi fólk, og menntastofnanir eru stöðugt að búa til verðmæti. Það er eðlilegt að embættið aðstoði við slíka uppbyggingu. Bæði hér heima og erlendis í samráði við fyrrnefnda aðila.“

Átta hafa lýst yfir framboði til forseta Íslands. Það eru þau Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Elísabet Jökulsdóttir, Heimir Örn Hólmarsson, Hildur Þórðardóttir, Sturla Jónsson, Vigfús Bjarni Albertsson og Þorgrímur Þráinsson.

4. mars 2016 Heimir Örn Hólmarsson boðar forsetaframboð

Heimir Örn Hólmarsson rafmagnstæknifræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og er með meistaragráðu í verkefnastjórnun (MPM) frá Háskóla Íslands. Samkvæmt heimasíðu framboðsins Heimis að þá telur hann að forsetinn eigi að vinna sem traustur leiðtogi fyrir þjóðina og leiða hana áfram til sigurs. Sigrana telur hann eiga að vera m.a. réttlæti, jafnrétti, fordómaleysi, viðskiptatækifæri, landkynningar og lýðræði.

Sjö hafa þá lýst yfir framboði. Þau eru auk Heimis, Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Elísabet Jökulsdóttir, Hildur Þórðardóttir, Sturla Jónsson og Þorgrímur Þráinsson.

15. janúar 2016 Jón Gnarr ekki í forsetaframboð

Jón Gnarr dagskrárstjóri hjá 365 og fv.borgarstjóri lýsti því yfir í kvöld að hann ætlaði ekki í forsetaframboð en skorað hafði verið á hann að bjóða sig fram.

Sex hafa lýst yfir framboði. Það eru þau Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Elísabet Jökulsdóttir, Hildur Þórðardóttir, Sturla Jónsson og Þorgrímur Þráinsson.

7. janúar 2016 Sturla Jónsson hefur lýst yfir forsetaframboði.

Sturla Jónsson vörubílstjóri hefur lýst yfir framboði til embættis forseta Íslands. Þetta kom fram á facebook-síðu hans 4. janúar sl.

Sturla leiddi listann Sturla Jónsson K-listi í Reykjavíkurkjördæmi suður í alþingiskosningunum 2013 og uppskar 222 atkvæði eða 0,6% atkvæða. Í kosningunum 2009 var Sturla oddviti Frjálslynda flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður en það framboð hlaut 700 atkvæði og tæplega 2% fylgi.

Sex hafa því lýst yfir framboði. Það eru auk Sturlu, þau Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Elísabet Jökulsdóttir, Hildur Þórðardóttir og Þorgrímur Þráinsson.

5. janúar 2016 Forsetakosningarnar í stuttu máli

– Kjördagur er laugardagurinn 25. júní
– Framboðsfrestur rennur út fimm vikum fyrir kjördag eða föstudaginn 20. maí
– Frambjóðandi þarf a.m.k. 1.500 meðmælendur með framboði sínu sem skiptast hlutfallslega milli landsfjórðunga. Í kosningunum 2012 var lágmark hvers fjórðungs sem hér segir:

 • Sunnlendingafjórðungur 1.206 (svæði frá Skaftárhreppi að austan, suður um norður að Hvítá í Borgarfirði)
 • Vestfirðingafjórðungur 66 (svæði frá Hvítá í Borgarfirði vestur um að Hrútafirði)
 • Norðlendingafjórðungur 166 (svæði frá Hrúafirði í vestri og að Reykjaheiði í Norðurþingi að austan).
 • Austfirðingafjórðungur 62 (svæði frá Norðurþingi austan Reykjaheiðar austur um til Sveitarfélagsins Hornafjarðar).

4.janúar 2016 Árni Björn Guðjónsson dregur framboð sitt til baka.

Árni Björn Guðjónsson, sem tilkynnti um forsetaframboð, hefur dregið framboðið til baka. Hann segir í yfirlýsingu að sérstakar ástæður liggi að baka þessari ákvörðun

Það eru því fimm sem lýst hafa yfir framboði. Þau eru Ari Jósepsson, Ástþór Magnússon, Elísabet Jökulsdóttir, Hildur Þórðardóttir og Þorgrímur Þráinsson.

3.janúar 2016 Hildur Þórðardóttir og Ari Jósefsson í forsetaframboð.

Í dag tilkynntu Hildur Þórðardóttir rifhöfundur og Ari Jósepsson „you-tube-stjarna“ um framboð til embættis forseta Íslands í dag.

Á facebook-síðu sinni segir Hildur „Þá er komið að því. Ég ætla að bjóða mig fram til forseta í sumar. Bókin sem ég er að skrifa, Framtíð Íslands, er til stuðnings framboðinu og vitundarvakning fyrir almenning um hvað við erum að fara í gegnum sem þjóð.“

Samkvæmt mbl.is segir í fréttatilkynningu frá Ara Jósepssyni að hann sé umburðarlyndur, með gott jafnaðargeð og góður í umræðum. Hann segist hafa allt sem þarf til að vera forseti Íslands.“

Yfirlýstir frambjóðendur til embættis forseta Íslands eru þá orðnir sex en áður höfðu Árna Björn Guðjónsson, Ástþór Magnússon, Þorgrímur Þráinsson og Elísabet Jökulsdóttir lýst yfir framboði. Til að komast í framboð þurfa frambjóðendur að safna 1500 undirskriftum hið minnsta.

3. janúar 2016 Árni Björn Guðjónsson í forsetaframboð. 

Árni Björn Guðjónsson hefur með fréttatilkynningu boðað framboð sitt til forseta Íslands. Árni Björn, sem er 76 ára, var oddviti Kristilegrar lýðræðishreyfingar í Reykjavíkurkjördæmi í alþingiskosningunum 1995 sem hlaut 0,3% atkvæða og var einnig oddviti Kristilega lýðræðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi í alþingiskosningunum 1999 en flokkurinn hlaut 0,4% atkvæða. Árni Björn tók þátt í prófkjöri Vinstrihreyfingarinnar græns framboð fyrir alþingiskosningarnar 2009 en var ekki meðal efstu manna og ekki á lista flokksins við alþingiskosningarnar.

Yfirlýstir frambjóðendur til embættis forseta Íslands eru þá orðnir fjórir en fyrir utan Árna Björn hafa Ástþór Magnússon, Þorgrímur Þráinsson og Elísabet Jökulsdóttir lýst yfir framboði.

2. janúar 2016 Ástþór Magnússon í forsetaframboð. 

Ástþór Magnússon oft kenndur við Frið 2000 boðaði forsetaframboð sitt í dag. Þetta er í fjórða skipti sem Ástþór reynir fyrir sér í forsetaframboði. Hann hlaut 2,7% í kosningunum 1996 og 1,9% í kosningunum 2004. Í forsetakosningunum 2012 var framboð hans hins vegar úrskurðað ógilt vegna skorts á meðmælendum.

Yfirlýstir frambjóðendur til embættis forseta Íslands eru þá orðnir þrír en í gær lýstu rithöfundarnir Þorgrímur Þráinsson og Elísabet Jökulsdóttir yfir framboði.

Stefán Jón Hafstein umdæmisstjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun í Úganda segist í fréttum í dag muni tilkynna á næstum vikum hvort hann fari í framboð. Þá hafa Hrannar Pétursson ráðgjafi, Halla Tómasdóttir fjárfestir, Sturla Jónsson vörubílstjóri, Ómar Valdimarsson almannatengill og Andri Snær Magnason rithöfundur sagst vera að hugsa málið. Katrín Jakobsdóttir formaður VG sagði hins vegar aðspurð um framboð: „Það hefur ekki verið á dagskrá.“

2. janúar 2016 Frambjóðendur til embættis forseta Íslands.

Eins og við var að búast hafa fjölmiðlar fjallað mikið um það í dag hverjir komi til greina í embætti forseta Íslands í kjölfar yfirlýsingar Ólafs Ragnars Grímssonar.

Tveir virðast vera ákveðnir í að bjóða sig fram en það eru rithöfundarnir Þorgrímur Þráinsson og Elísabet Jökulsdóttir. 

Aðrir sem eru sagðir hugsa málið eru Stefán Jón Hafstein umdæmisstjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun í Úganda, Hrannar Pétursson ráðgjafi, Halla Tómasdóttir fjárfestir, Sturla Jónsson vörubílstjóri, Ómar Valdimarsson almannatengill og Katrín Jakobsdóttir formaður VG. Auk þessa fólks hafa fjölmargir verið nefndir og jafnvel verið stofnaðar stuðningssíður við framboð einstakra manna.

1. janúar 2016 Ólafur Ragnar hættir sem forseti. 

Ólafur Ragnar Grímsson sem hefur verið forseti Íslands frá 1996 tilkynnti í nýársávarpi sínu rétt í þessu að hann ætli ekki að bjóða sig fram til forseta Íslands. Ljóst er því að nýr forseti verður kjörinn 26. júní n.k.

Ólafur var fyrst kjörinn árið 1996 og endurkjörinn án mótframboðs árið 2000. Hann var síðan endurkjörinn með yfirburðum árið 2004 og endurkjörinn án mótframboðs 2008. Hann var síðan endurkjörinn með meirihluta atkvæða í kosningunum 2012.

17.desember 2015 Hrannar Pétursson íhugar forsetaframboð. 

Hrannar Pétursson, fv. framkvæmdastjóri mannauðs-, markaðs- og lögfræðimála hjá Vodafone á Íslandi, íhugar að bjóða sig fram til forseta Íslands næsta sumar. Frá þessu greina Kjarninn og héraðsfréttamiðlinn Skarpur í dag. Fram kemur að hann hafi starfað sem sjónvarpsfréttamaður, en síðan við upplýsinga- og samskiptamál hjá ÍSAL og Vodafone. Hann starfaði sem verkefnisstjóri hjá forsætisráðuneytinu til nú í nóvember 2015 en rekur nú eigið upplýsinga- og samkiptafyrirtæki.

4. desember 2015 Halla Tómasdóttir fjárfestir íhugar framboð.

 Á níunda hundrað manns hafa skorað á Höllu Tómasdóttur fjárfesti að bjóða sig fram til embættis Forseta Íslands. Hún hefur starfað hjá Háskólanum í Reykjavík og verið framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Í yfirlýsingu frá Höllu segir: „Það er ekki auðvelt að svara slikri áskorun svo ég hef ákveðið að gefa mér tíma í að hugsa og ræða við mína nánustu, áður en ég segi af eða á. Hver sem niðurstaðan verður, þá mun ég áfram brenna fyrir jafnrétti, sjálfbærni og uppbyggingu manneskjulegs samfélags.

24.nóvember 2015 Þorgrímur Þráinsson rithöfundur íhugar alvarlega forsetaframboð. 

Þorgrímur Þráinsson rithöfundur telur líklegt að hann bjóði sig fram til forseta en segir að hann hafi ætlað að bíða með tilkynningu um framboð fram yfir áramót. „Ég er að fylgja mínu inn­sæi og mig lang­ar í fram­boð hvort sem það verður til þess að ég nái kjöri eða ekki. Það verður tím­inn að leiða í ljós. Og mér finnst í raun­inni tæki­fær­in sem embættið býður upp á áhuga­verð, miklu frek­ar en að verða for­seti. Ég hef verið talsmaður heil­brigðis og mannúðar og rétt­læt­is í gegn­um árin og lang­ar að halda áfram að tala á þeim vett­vangi. Það er það sem hvet­ur mig áfram.“ sagði Þorgrímur í samtali við mbl.is Í viðtali í fréttum Stöðvar 2 sagðist Þorgrímur vera 95% viss um að fara í framboð. Þorgrímur Þráinsson var í 4. sæti á lista Borgaraflokksins í alþingiskosningunum 1987.

24.ágúst 2015 Sturla Jónsson íhugar forsetaframboð. 

Sturla Jónsson vörubílstjóri og baráttumaður segir á facebook-síðu sinni að hann sé að íhuga framboð til embættis forseta Íslands. Sturla var í 1.sæti á lista framboðsins „Sturla Jónsson K-listi“ í Reykjavíkurkjördæmi suður í síðustu alþingiskosningum og hlaut þá 222 atkvæði eða 0,6% í kjördæminu (0,12% á landsvísu). Í kosningunum 2009 var hann í framboði fyrir Frjálslynda flokkinn í sama kjördæmi en náði ekki kjöri.

26.júlí 2015 Ómar Valdimarsson íhugar forsetaframboð. 

Ómar Andersen Valdimarsson (f.1950) sem starfað hefur sem blaðamaður, almannatengill og upplýsingafulltrúi Rauða krossins íhugar að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands, en forsetakosningar eru á næsta ári. Þetta kemur fram í frétt Kjarnans og á facebook-síðunni Ómar Valdimarsson á Bessastaði 2016.

Auglýsingar
 1. #1 by Þórður on 2.1.2016 - 1:30 f.h.

  Hvað með Katrínu Jakobsdóttur? Skorað hefur verið á hana og hún gefið út yfirlýsingu um að hún útiloki ekki framboð.

 2. #2 by ritstjóri on 2.1.2016 - 1:53 f.h.

  Það er rétt Þórður. Textinn hefur verið uppfærður.

 3. #3 by Valur Alexandersson on 4.1.2016 - 5:25 e.h.

  Valur Alexandersson ætlar í Forsetaframboð 2016 30 ára karlmaður

  • #4 by ritstjóri on 4.1.2016 - 10:36 e.h.

   Þú þarft að vera orðinn 35 ára til að vera kjörgengur.

 4. #5 by Þórdís Skarphéðinsdóttir on 5.1.2016 - 9:30 e.h.

  Mig mundi langa til að ‘Olöf Nordal biði sig fram.Hún er einlæg og ákveðin kona.kv

 5. #6 by Unnur on 31.3.2016 - 3:08 e.h.

  Fá frambjóðendur einhvern styrk frá ríkinu?

 6. #9 by Steingrímur Guðjónsson on 1.4.2016 - 8:25 f.h.

  Ég er með hugmynd um að opnuð verði vefgátt sem geri okkur kjósendum kleift að kanna hvort við séum á undirskriftalistum frambjóðenda til Forseta 2016
  þetta er ekki flókið í framkvæmd aðeins að skrá inn kennitölu og svarið kæmi strax, viðkomandi gæti þá merkt við hvort rétt sé eða ekki. Eins væri áhugavert að sjá hvort maður væri á fleiri en einum lista. (sporin hræða)

  • #10 by ritstjóri on 1.4.2016 - 11:19 f.h.

   Áhugavert. Spurning er hvort undirskriftir sem þessar ættu ekki að fara með rafrænum hætti. Kjósandi gæti skráð sig inn á vef sem innanríkisráðuneytið/landskjörstjórn stjórnaði með rafrænum skilríkjum, gegnum skattlykil eða heimabanka. Það fyrirkomulag myndi koma í veg fyrir bæði misnotkun og að kjósandi gæti skrifað á fleiri en tvo lista.

 1. Árið 2016 | kosningasaga

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

%d bloggurum líkar þetta: