Kosningaréttur til Alþingis

Yfirlit

1843 Alþingistilskipun um ráðgefandi þing. Skilyrði kosningaréttar voru ströng og snéru m.a. að eignum. Þannig máttu aðeins kjósa þeir karlar sem voru 25 ára gamlir og áttu jörð að minnsta kosti 10 hundraða dýrleika eða múr- eða timburhús í verslunarplássi sem metið var til a.m.k. 1000 ríkisdalavirðis. Áætlað var að 2-3% landsmanna hafi haft atkvæðisrétt. Í Nýjum félagsritum 1846 segir Jón Sigurðsson: „það er alkunnugt af þingtíðindum, að þingmann vantaði frá Vestmannaeyjum, af því enginn gat kosið þar, sökum hinna óhentugu kosningarlaga, sem nú eru, og ekkert varð þó gjört við að þessu sinni.“

1857 breyting á Alþingistilskipun frá 1843.Ákvæði um kosningarétt rýmkuð verulega. En skilyrðin snéru að því að karlar byggju á eign heimili, borguðu skatta, áttu eignir eða höfðu lokið háskólaprófi. Talið er að kosningaréttur hafi með þessum breytingum náð til um 10% landsmanna.

1874 17.gr. stjórnarskrárinnar var efnislega óbreytt og kosningalögin nr.16 frá 1877.

Kosningarétt til Alþingis hafa: –

  • allir bændur, sem hafa grasnyt og gjalda nokkuð til allra stétta; þó skulu þeir, sem með sérstaklegri ákvörðun kynni að vera undanskyldir einhverju þegnskyldugjaldi, ekki fyrir það missa kosningarétt sinn.
  • kaupstaðarborgarar, ef þeir gjalda til sveitar að minnsta kosti 8.kr. (4.rd.) á ári.
  • þurrabúðarmenn, ef þeir gjalda til sveitar að minnsta kosti 12 krónur (8.rd.) á ári.
  • embættismenn, hvort heldur þeir hafa konungslegt veitingarbréf eða þeir eru skipaðir af því yfirvaldi, sem konungur hefur veitt heimild til þessa.
  • þeir, sem tekið hafa lærdómspróf við háskólann, eða embættispróf við prestaskólann í Reykjavík, eða eitthvað annað þess háttar próf, sem nú er eða kann að verða sett, þó ekki séu þeir í embættum, ef þeir eru ekki öðrum háðir.

Þar að auki getur enginn átt kosningarétt, nema hann sé orðinn fulltra 25 ára að aldri, þegar að kosning fer fram, hafi óflekkað mannorð, hafi verið heimilisfastur í kjördæminu eitt ár, sé fjár síns ráðandi og honum sé ekki lagt af sveit eða, hafi hann þáð sveitarstyrk, að hann hafi þá endurgoldið hann eða honum verið gefinn hann upp.“

 

1903. Breyting á stjórnarskrá um hins sérstaklegu málefni Íslands.

  • allir bændur, sem hafa grasnyt og gjalda nokkuð til allra stétta; þó skulu þeir, sem með sérstaklegri ákvörðun kynni að vera undanskyldir einhverju þegnskyldugjaldi, ekki fyrir það missa kosningarétt sinn. Óbreytt.
  • allir karlmenn, sem ekki eru öðrum háðir sem hjú, ef þeir gjalda að minnsta kosti 4 kr. á ári sem aukaútsvar. -og c. liðum slegið saman og reglur um þessa hópa samræmdar.
  • embættismenn, hvort heldur þeir hafa konungslegt veitingarbréf eða þeir eru skipaðir af því yfirvaldi, sem konungur hefur veitt heimild til þessa. Óbreytt var áður d-liður.
  • þeir, sem tekið hafa lærdómspróf við háskólann, eða embættispróf við prestaskólann eða læknaskólann í Reykjavík, eða eitthvað annað þess háttar opinbert próf, sem nú er eða kann að verða sett, þó ekki séu þeir í embættum, ef þeir eru ekki öðrum háðir sem hjú. Læknaskólanum bætt við var áður e-liður.

Þar að auki getur enginn átt kosningarétt, nema hann sé orðinn fulltra 25 ára að aldri, þegar að kosning fer fram, hafi óflekkað mannorð, hafi verið heimilisfastur í kjördæminu eitt ár, sé fjár síns ráðandi og honum sé ekki lagt af sveit eða, hafi hann þáð sveitarstyrk, að hann hafi þá endurgoldið hann eða honum verið gefinn hann upp.

Með lögum má afnema aukaútsvarsgreiðsluna eftir starflið b. sem skilyrði fyrir kosningarétti.“ Síðasta ákvæðið var breyting.

1908 Leynilegar kosninga teknar upp og kjörstaður í hverjum hreppi. Þetta auðveldaði kjósendur mjög að neita atkvæðisréttar síns en áður hafði aðeins verið einn kjörstaður í hverju kjördæmi.

Í kosningunum 1908 var hlutfall kjósenda á kjörskrá 14,1% af íbúafjölda

19. júní 1915 10.gr. stjórnskipunarlaga.

  • gr. Kosningarétt við óhlutbundnar kosningar til Alþingis hafa karla og konur, sem fædd eru hér á landi eða hafa átt hér lögheimili síðastliðin 5 ár og eru 25 ára, er kosningin fer fram; þó getur enginn átt kosningarétt, nema hann hafi óflekkað mannorð, hafi verið heimilisfastur í kjördæminu í 1 ár og sé fjár síns ráðandi, enda ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk. Hér er gerð sú breyting að konur fá kosningarétt og inn kemur ákvæði um lögheimili og fæðingarland.
  • Ennfremur eru þau skilyrði sett, að hinir nýju kjósendur, konur og þeir karlmenn, erkki hafa kosningarétt samkvæmt stjórnskipunarlögunum frá 1930 fái ekki rétt þann, er hér ræðir um, öll í einu, heldur þannig, að þegar semja á alþingiskjörskrá næsta sinn, eftir að lög þessi eru komin í gildi, skal setja á kjörskrána þá nýju kjósendur eina, sem eru 40 ára eða eldri, og að öðru leyta fullnægja hinum almennu skilyrðum til kosningaréttar. Næsta ár skal á sama hátt bæta við þeim nýju kjósendum, sem eru 39 ára, og svo framvegis, lækka aldurstakmarkið um eitt ár í hvert sinn, til þess er allir kjósendur, konur og karlar, hafa náð kosningarétti, svo sem segir í upphafi þessarar greinar. Tímabundið ákvæði um nýja kjósendur.
  • Nú hafa hjón óskilinn fjárhag, og missir ekki konan kosningarétt sinn fyrir því.
  • Með sömu skilyrðum hafa karlar og konur, sem eru 35 ára og eldri, kosningarétt til hlutbundinna kosninga. Þrengri reglur um landskjörskosningar en kjördæmakosningar.

1915 1.gr. – „Útsvarsskylda er úr lögum numin sem skilyrði fyrir kosningarétti, og ber því ekki að telja þá menn nýja kjósendur, sem fullnægt hafa kosningaskilyrðu, þegar lög þessi öðlast gildi, að öðru leyti en því, að greiða nægilega hátt útsvar.“ Breyting sbr. heimildarákvæði frá 1903 og tekur einnig á tímabundna ákvæðinu um nýja kjósendur

Í kosningunum 1916 var hlutfall kjósenda á kjörskrá 31,7% af íbúafjölda og hafði ríflega tvöfaldast frá 1908.

Í kosningunum 1919 var hlutfall kjósenda á kjörskrá 34,5% af íbúafjölda sem var 2,8% meira en í kosningum 1916. Fjölgun kjósenda má eflaust rekja til þess að kosningaaldur nýrra kjósenda var lægri en 1916 sbr.tímabundna ákvæðið um nýja kjósendur.

1920 Stjórnarskrá konungsríkisins Íslands 29.gr.

„Kosningarétt við kosningar til Alþingis í sérstökum kjördæmum hafa allir, karlar og konur, sem eru 25 ára eða eldri, er kosning fer fram, og hafa ríkisborgararétt hér á landi og verið búsettir í landinu síðustu fimm árin áður en kosningar fara fram. Þó getur enginn átt kosningarétt, nema hann hafi óflekkað mannorð, hafi verið heimilisfastur í kjördæminu í 1 ár og sé fjár síns ráðandi, enda ekki í skuld fyrir þeginn sveitarstyrk.

Gift kona telst fjárs síns ráðandi, þótt hún eigi óskilið fjárlag með manni sínum.

Með sömu skilyrðum hafa karlar og konur, sem eru 35 ára og eldri, kosningarétt til hlutbundinna kosninga um land allt. Breytingin er sú að tímabundna ákvæðið um nýja kjósendur fellt burt.

Í kosningunum 1923 var hlutfall kjósenda á kjörskrá 45,2% af íbúafjölda sem var auking upp á 10,7% og má rekja til þess að tímabundna ákvæðið um nýja kjósendur var fellt burt.

 1934 Stjórnskipunarlög nr.22.

Kosningarétt við kosningar til Alþingis hafa allir, karlar sem konur, sem eru 21 ára og eldri, þegar kosning fer fram, hafa ríkisborgararétt hér á landi og hafa verið búsettir í landinu síðustu fimm árin áður en kosning fer fram. Þó getur enginn átt kosningarétt, nema hann hafi óflekkað mannorð og sé fjárráður. Gift kona telst fjárs síns ráðandi, þótt hún eigi óskilið fjárlag með manni sínum. Hér er sú breyting að kosningaaldur er lækkaður úr 25 árum í 21 ár,  sveitarstyrksákvæðið er tekið út og skilyrði um heimilisfesti í kjördæmi í 1 ár. Sömuleiðis var landskjör fellt út og þ.a.l. ákvæðið um 35 ára aldur til að hafa kosningarétt.

Í kosningunum 1934 var hlutfall kjósenda á kjörskrá 56,4% af íbúafjölda sem var auking upp á 9,7% frá kosningunum 1933 og má rekja til þess að kosningaaldur var lækkaður úr 25 árum í 21 ár og að sveitarstyrksákvæðið var fellt burt.

1968 Kosningaaldur færður niður í 20 ár.

Í kosningunum 1971 var hlutfall kjósenda á kjörskrá 57,6% af íbúafjölda sem var auking upp á 3,7% frá kosningunum 1967 og má rekja til þess að kosningaaldur var lækkaður úr 21 árum í 20 ár.

1984 Kosningaaldur færður niður í 18 ár.

Í kosningunum 1987 var hlutfall kjósenda á kjörskrá 70,0% af íbúafjölda sem var auking upp á 6,2% frá kosningunum 1983 og má rekja til þess að kosningaaldur var lækkaður úr 20 árum í 18 ár.

 Byggt að mestu á grein Sigurðar Líndal í Tímariti lögfræðinga árg.1963 1.tbl. bls.35-47. Þróun kosningaréttar á Íslandi 1874-1963 og Vísindavefnum „Hvenær fengu allir fullorðnir kosningarétt á Íslandi?“