Íslenskir stjórnmálaflokkar

Stjórnmálaflokkar hlutu kjörna þingmenn í alþingiskosningunum 2017:

Stjórnmálaflokkar sem buðu fram í alþingiskosningum 2017 en hlutu ekki kjörna þingmenn:

Stjórnmálaflokkar sem buðu fram í sveitarstjórnarkosningunum 2018 en ekki í alþingiskosningunum 2017

Stjórnmálaflokkur sem hvorki bauð fram í sveitarstjórnarkosningunum 2018 eða alþingiskosningunum 2017:

———————————————————————————-

Sagan

Segja má að engin flokkaskipting hafi verið í landinu fram til ársins 1897 en þá risu upp deilur um sjálfstæðismál Íslendinga eða stöðu Íslands innan danska ríkisins. Framan af voru flokksbönd ákaflega laustengd.

1897-1915

Heimastjórnarflokkur (1897-1922)

Valtýingar (1897-1907) nefndu sig einnig stjórnbótamenn, Framsóknarflokk (eldri) og Þjóðræðisflokk. Sameinuðust Landvarnaflokki í Sjálfstæðisflokki (eldri) 1907.

Landvarnaflokkur (1902-1907) Sameinuðust Þjóðræðisflokki (Valtýingum) 1907 í Sjálfstæðisflokki (eldri).

Sjálfstæðisflokkur eldri (1907-1922/3) varð til við sameiningu Þjóðræðisflokks (Valtýinga) og Landvarnaflokks. Klofnaði í langsummenn og þversummenn á tímabilinu 1914-1916.

Sambandsflokkur (1912-1914) bandalag 31 af 40 þingmönnum úr Heimastjórnarflokki og Sjálfstæðisflokki.

Bændaflokkurinn eldri (1913-1916) sameinaðist Óháður bændum í Framsóknarflokknum.

1916

Alþýðuflokkurinn (1916-1998) stofnaður. Hann starfaði til 1998 þegar hann sameinaðist Alþýðubandalagið og Samtökum um Kvennalista í Samfylkingunni. Árið 1996 sameinuðust þingflokkar Alþýðuflokks og Þjóðvaka í þingflokki Jafnaðarmanna.

Óháðir bændur (1916) sameinuðust Bændaflokknum í Framsóknarflokknum árið 1916.

Eftir kjördæmakosningarnar og landskjörið 1916 voru þingmenn taldir til eftirtalinna stjórnmálaflokka. Hafa þarf í huga að flokkaskipting á þessum tíma var frekar óformleg.

Heimastjórnarflokkur – 15 þingmenn, Sjálfstæðisflokkur(eldri) – 15 þingmenn. Þar af töldust 3 til „langsummanna“ og 9 til þversummanna, Bændaflokkur – 5 þingmenn, Óháðir bændur – 2 þingmenn, Alþýðuflokkur – 1 þingmann og Utan flokka voru 2 þingmenn.

Framsóknarflokkurinn (1916- ) var stofnaður í desember 1916 af þingmönnum Bændaflokksins, Óháðra bænda og einum þingmanni Sjálfstæðisflokks.

1922

Kvennalisti bauð fram og Ingibjörg H. Bjarnason var kjörin á þing af honum. Hún taldist síðar til Borgaraflokksins/Sparnaðarbandalagsins og síðar Íhaldsflokks. Kvennalisti var aftur í kjöri í landskjörinu 1926 en náði ekki kjörnum þingmanni.

1923

Borgaraflokkur/Sparnaðarbandalag (1923-1924) bauð fram og hlaut hreinan meirihluta á þingi. Auk Borgaraflokks hlutu Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur kjörna þingmenn.

1924

Íhaldsflokkurinn (1924-1929) stofnaður af 20 þingmönnum sem aðild áttu að Borgaraflokknum 1923. Íhaldsflokkurinn sameinaðist Frjáslynda flokknum árið 1929 í Sjálfstæðisflokknum.

1926

Frjálslyndi flokkurinn (1926-1929) stofnaður af þingmönnum úr Sjálfstæðisflokki (eldri) sem aðild áttu að Borgaraflokknum 1923. Frjálslyndi flokkurinn sameinaðist Íhaldsflokknum árið 1929 í Sjálfstæðisflokknum.

1927

Í kosningunum 1927 buðu Íhaldsflokkurinn, Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Frjálslyndi flokkurinn fram lista og hlutu allir kjörna þingmenn.

1929

Sjálfstæðisflokkurinn (1929- ) stofnaður með sameiningu Íhaldsflokksins og Frjálslynda flokksins.

1930

Kommúnistaflokkur Íslands (1930-1938) stofnaður. Kommúnistaflokkurinn klofnaði út úr Alþýðuflokknum. Kommúnistaflokkur Íslands var hryggjastykkið í Sósíalistaflokknum þegar hann var stofnaður 1938 ásamt klofningsbroti úr Alþýðuflokknum.

1931 og 1933

Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur hlutu kjörna þingmenn í kosningunum 1931 og 1933. Kommúnistaflokkur Íslands náði ekki kjörnum þingmanni.

1933

Bændaflokkurinn (1933-1942) stofnaður. Bændaflokkurinn klofnaði út úr Framsóknarflokknum. Flokkurinn hlaut kjörna þingmenn í alþingiskosningunum 1934 og aftur 1937 en þá í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Þjóðernishreyfing Íslendinga (1933-1934) stofnuð af annars vegar óánægðum sjálfstæðis- og framsóknarmönnum og ungu fólki sem hrifist hafði af nasima. Flokkurinn klofnaði 1934 þegar að Flokkur þjóðernissinna var stofnaður og lagði fljótlega niður laupana og bauð aldrei fram.

1934

Flokkur Þjóðernissinna (1934-1940) stofnaður. Flokkurinn var klofningur úr Þjóðernishreyfingu Íslendinga. Hann bauð fram í alþingiskosningunum 1934 og 1937 og borgarstjórnarkosningunum 1934 og 1938 í Reykjavík en hlaut lítið fylgi.

Í kosningunum 1934 hlutu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Bændaflokkur kjörna þingmenn. Kommúnistaflokkur Íslands og Flokkur þjóðernissina hlutu ekki kjörna alþingismenn.

1937

Í kosningunum 1937 hlutu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur, Kommúnistaflokkur og Bændaflokkur kjörna þingmenn. Flokkur þjóðernissina náði ekki kosningu.

1938

Sameiningarflokkur alþýðu – Sósíalistaflokkurinn (1938-1968) stofnaður. Flokkurinn bauð fram til ársins 1953 en var frá árinu 1956-1968 hluti af framboði Alþýðubandalagsins sem þá var kosningabandalag. Flokkurinn var stofnaður á grunni Kommúnistaflokks Íslands og úr klofningsbroti úr Alþýðuflokknum.

1942

Þjóðveldismenn (1942) buðu fram í sumar- og haustkosningunum í Reykjavík án þess að ná inn manni.

Frjálslyndir vinstri menn (1942) buðu fram í Reykjavík í sumarkosningunum og hlutu lítið fylgi.

Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Sósíalistaflokkur og Alþýðuflokkur hlutu kjörna þingmenn í sumar- og haustkosningunum 1942.

1946 og 1949

Í kosningunum 1946 og 1949 hlutu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Sósíalistaflokkur og Alþýðuflokkur kjörna þingmenn. Önnur framboð komu ekki fram.

1953

Þjóðvarnarflokkur Íslands (1953-1963) stofnaður. Flokkurinn hlaut tvo þingmenn 1953 en missti þá aftur 1956 og náði ekki kjörnum mönnum í kosningunum 1959. Þjóðvarnarflokkurinn bauð fram í samvinnu við Alþýðubandalagið 1963. Málfundafélag jafnaðarmanna bauð fram lista með Þjóðvarnarflokknum í borgarstjórnarkosningunum 1962 en náðu ekki kjörnum borgarfulltrúa.

Lýðveldisflokkurinn (1953) stofnaður. Flokkurinn bauð fram 1953 en hlaut ekki kjörinn þingmann.

Í kosningunum 1953 hlutu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Sósíalistaflokkur, Alþýðuflokkur og Þjóðvarnarflokkur kjörna þingmenn. Lýðveldisflokkurinn náði ekki kjörnum þingmönnum.

1954

Málfundafélag Jafnaðarmanna hóf útgáfu blaðs. Í félaginu voru aðallega stuðningsmenn Hannibals Valdimarssonar og vinstri sinnaðir Alþýðuflokksmenn sem síðar skildu við Alþýðuflokkinn. Málfundafélagið og Sósíalistaflokkurinn stofnuðu Alþýðubandalagið 1956 sem kosningabandalag. Málfundafélagið bauð fram lista með Þjóðvarnarflokknum í borgarstjórnarkosningunum 1962 en náðu ekki kjörnum borgarfulltrúa.

1956

Alþýðubandalagið (1956-1998) stofnað sem kosningabandalag Sósíalistaflokksins og Málfundafélags Jafnaðarmanna. Það starfaði til 1998 þegar hann sameinaðist Alþýðuflokknum og Samtökum um Kvennalista í Samfylkingunni. Hluti Alþýðubandalagsmanna, m.a. þrír þingmenn flokksins, stofnuðu Vinstrihreyfinguna grænt framboð.

Í kosningunum 1956 hlutu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur kjörna þingmenn. Þjóðvarnarflokkurinn tapaði sínum þingmönnum. Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur voru í kosningabandalagi í kosningunum.

1959

Í sumar- og haustkosningunum 1959 hlutu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur kjörna þingmenn. Þjóðvarnarflokkurinn náði ekki kjörnum þingmönnum.

1963

Í kosningunum 1963 hlutu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur kjörna þingmenn. „Mýneshreyfingin“, framboð utan flokka bauð fram í Austurlandskjördæmi en hlaut lítið fylgi.

1967

Í kosningunum 1967 hlutu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur kjörna þingmenn. Hannibal Valdimarsson var kjörinn af I-lista utan flokka, klofningslista Alþýðubandalagsins í Reykjavíkurkjördæmi. Hægt er að líta á það sem undanfara að stofnun Samtaka Frjálslyndra og vinstri manna.

Óháði lýðræðisflokkurinn bauð fram í Reykjavíkur- og Reykjaneskjördæmum en hlaut lítið fylgi.

1968

Alþýðubandalagið breytt úr kosningabandalagi í stjórnmálaflokk. Sósíalistafélag Reykjavíkur neitaði að ganga í Alþýðubandalagið. Sósíalistafélagið bauð fram í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík 1970 en hlaut lítið fylgi.

1969

Samtök Frjálslyndra og vinstri manna (1969-1979)  stofnuð. Flokkurinn var upphaflega klofningur úr Alþýðubandalaginu undir forystu Hannibals Valdimarssonar.

1970

Fylkingin – baráttusamtök sósíalista (1970-1984) slítur tengsl við Alþýðubandalagið. Árið 1976 var nafni samtakanna breytt í Fylking byltingarsinnaðra kommúnista. Fylkingin bauð fram í kosningunum 1974, 1978 og 1979 og hlaut lítið fylgi.

1971

Í kosningunum 1971 hlutu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag, Alþýðuflokkur og Samtök Frjálslyndra og vinstri manna kjörna þingmenn.

Framboðsflokkurinn bauð fram í Reykjavíkur- Reykjanes- og Suðurlandskjördæmi og hlaut lítið fylgi.

1972

Kommúnistahreyfingin marxistarnir-lenínistarnar (1972-1979). Árið 1975 var nafni samtakanna breytt í Kommúnistaflokkur Íslands marxistarnir-lenínistarnar. Flokkur bauð fram í alþingiskosningunum 1974 og hlaut lítið fylgi. Flokkurinn sameinaðist Einingarsamtökum kommúnista 1979 í Kommúnistasamtökunum.

1973

Frjálslyndi flokkurinn (1973-1974). Klofningur úr Samtökum Frjálsyndra og vinstri manna undir forystu Bjarna Guðnasonar alþingismanns. Flokkurinn bauð fram í borgarstjórnarkosningunum 1974 en hlaut lítið fylgi. Flokkurinn bauð ekki fram í alþingiskosningunum 1974.

Möðruvallahreyfingin (1973-1974) klofningshópur úr Framsóknarflokknum sem bauð fram undir merkjum Samtaka Frjálsyndra og vinstri manna í kosningunum 1974.

Einingarsamtök kommúnista (marx-lenínistar) (1973-1979) stofnuð en þau voru klofningur úr Fylkingunni baráttusamtökum sósíalista. Samtökin buðu aldrei fram. Samtökin sameinuðust Kommúnistaflokki Íslands marx-lenínistum 1979 í Kommúnistasamtökunum.

1974

Samtök Jafnaðarmanna (1974) stofnuð. Að mestu klofningur úr Alþýðuflokki og buðu fram undir merkjum Samtaka Frjálsyndra og vinstri manna í kosningunum 1974.

Lýðræðisflokkurinn (1974) stofnaður. Flokkurinn bauð fram í kosningunum 1974 í þremur kjördæmum en hlaut lítið fylgi.

Í kosningunum 1974 hlutu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag, Alþýðuflokkur og Samtök Frjálslyndra og vinstri manna kjörna þingmenn. Framboð Samtaka Frjálslyndra og vinstri manna innihélt einnig Möðruvallahreyfinguna og Samtök Jafnaðarmanna. Síðar sama ár sameinuðust þessi félög undir merkjum Samtaka Frjálslyndra og vinstri manna.

Fylkingin, Kommúnistasamtökin Marx-lenínistar og Lýðræðisflokkurinn hlutu lítið fylgi.

1976

Fylkingin – baráttusamtök sósíalista verður að Fylkingu byltingarsinnaðra kommúnista.

1977

Óháðir kjósendur á Vestfjörðum (1977-1978). Karvel Pálmason þingmaður Samtaka Frjálslyndra og vinstri manna stofnar til óháðs framboðs í Vestfjarðakjördæmi. Framboðið bauð fram í Vestfjarðakjördæmi í kosningunum 1978 og litlu munaði að það kæmi að manni.

1978

Framboð Óháðra kjósenda í Reykjaneskjördæmi (1978) kom fram. Framboðið hlaut lítið fylgi.

Framboð Óháðra kjósenda í Suðurlandskjördæmi (1978) kom fram. Framboðið hlaut lítið fylgi.

Stjórnmálaflokkurinn (1978) stofnaður. Flokkurinn bauð fram í Reykjavíkur- og Reykjaneskjördæmi en hlaut lítið fylgi.

Í kosningunum 1978 hlutu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur kjörna alþingismenn. Samtök Frjálslyndra og vinstri manna misstu sín þingsæti. Óháðir kjósendur í Vestfjarðakjördæmi voru nálægt því að ná inn þingmanni. Óháðir kjósendur í Reykjaneskjördæmi, Óháðir kjósendur í Suðurlandskjördæmi, Stjórnmálaflokkurinn, Fylking byltingasinnaðra kommúnista og Kommúnistaflokkur Íslands – marxistar/lenínistar voru langt frá því að ná kjörnum þingmönnum.

1979

Kommúnistasamtökin (1979-1985) stofnuð með sameiningu Einingarsamtaka kommúnista (marx-lenínistar) og Kommúnistaflokks Íslands marx-lenínistum. Kommúnistasamtökin buðu aldrei fram.

Hinn flokkurinn (1979) stofnaður. Flokkurinn bauð fram í kosningunum 1979 en hlaut lítið fylgi.

Sólskinsflokkurinn (1979) stofnaður.  Flokkurinn bauð fram í kosningunum 1979 en hlaut lítið fylgi.

Í kosningunum 1979 hlutu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur kjörna alþingismenn. Utan flokka framboð í Norðurlandskjördæmi eystra og á Suðurlandi sem voru klofningsframboð frá Sjálfstæðisflokki fengu ekki kjörna þingmenn. Fylking byltingarsinnaðra kommúnista, Hinn flokkurinn og Sólskinsflokkurinn fengu lítið fylgi.

1982

Samtök um kvennaframboð (1982-1986) stofnuð. Samtökin buðu fram í sveitarstjórnarkosningunum 1982 í Reykjavík og á Akureyri og hlutu tvo bæjarfulltrúa á hvorum stað. Arftaki hans voru Samtök um Kvennalista.

1983

Samtök um Kvennalista (1983-1998) stofnaður. Hann sameinaðist Alþýðuflokki og Alþýðubandalagi árið 1998 í Samfylkingunni.

Bandalag Jafnaðarmanna (1983-1987) stofnað. Flokkurinn var klofningur úr Alþýðuflokki að frumkvæði Vilmundar Gylfasonar. Flokkurinn hlaut 4 þingmenn 1983 en árið 1986 gengu þrír þeirra í Alþýðuflokkinn og einn í Sjálfstæðisflokkinn. Bandalag Jafnaðarmanna hlaut lítið fylgi í kosningunum 1987.

Í kosningunum 1983 hlutu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag, Alþýðuflokkur, Samtök um kvennalista og Bandalag Jafnaðarmanna kjörna þingmenn. Sérframboð Framsóknarmann í Norðurlandskjördæmi vestra og sérframboð Sjálfstæðismanna (T-listi Sjálfstæðra) í Vestfjarðakjördæmi komu ekki að mönnum.

1984

Flokkur mannsins (1984-1995) stofnaður. Hann bauð fram í alþingiskosningum 1987 og 1991 í samvinnu við Þjóðarflokkinn og í sveitarstjórnarkosningunum 1986 og 1990 án þess að fá verulegt fylgi. Árið 1995 skipti flokkurinn um nafn og heitir eftir það Húmanistaflokkurinn.

1987

Borgaraflokkurinn (1987-1991) stofnaður af Alberti Guðmundssyni og stuðningsmönnum hans. Flokkurinn var klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokki. Árið 1989 klofnaði flokkurinn þegar að Ingi Björn Albertsson (Guðmundssonar) og Hreggviður Jónsson þingmenn flokksins stofnuðu þingflokk Frjálslyndra hægri manna. Þingmenn Borgaraflokksins buðu sig fram undir merkjum Frjálslyndra í kosningum 1991 en náðu ekki kjörnum þingmönnum.

Þjóðarflokkurinn (1987-1995) stofnaður. Hann bauð fram í kosningunum 1987 og 1991 í samstarfið við Flokk mannsins án þess að ná kjörnum þingmanni. Þjóðarflokkurinn var nefndur sem hluti af þeim sem stóðu að Flokki heimilanna í kosningunum 2013.

Samtök um jafnrétti og félagshyggju (1987-1991) var klofningsframboð úr Framsóknarflokki stofnað af frumkvæði Stefáns Valgeirssonar alþingismanns. Samtökin buðu fram í Norðurlandskjördæmi eystra 1987 og náðu einu þingsæti.

Í kosningunum 1987 hlutu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag, Alþýðuflokkur, Samtök um kvennalista, Borgaraflokkur og Samtök um jafnrétti og félagshyggju kjörna þingmenn. Flokkur mannsins, Þjóðarflokkurinn og Bandalag Jafnaðarmanna náðu ekki kjörnum þingmönnum.

1989

Frjálslyndir hægri menn (1989-1990), þingflokkur stofnaður af Inga Birni Albertssyni og Hreggviði Jónssyni þingmönnum Borgaraflokksins. Þeir gengu til liðs við Sjálfstæðisflokkinn árið 1990.

1990

Grænt framboð (1990-1991) kom fram í borgarstjórnarkosningunum 1990 en framboðið bauð einnig fram í alþingiskosningunum 1991 án þess að fá verulegt fylgi.

1991

Framboð Frjálslyndra (1991) kom fram. Meðal frambjóðenda voru þingmenn Borgaraflokksins. Frjálslyndir hlutu lítið fylgi og enga þingmenn.

Heimastjórnarsamtökin (1991) stofnuð. Flokkurinn bauð fram í alþingiskosningunum 1991 en hlaut lítið fylgi.

Framboð Öfgasinnaðra jafnaðarmanna (1991) kom fram. Framboðið hlaut lítið fylgi.

Framboð Verkamannaflokks Íslands (1991) kom fram. Framboðið hlaut lítið fylgi.

Í kosningunum 1991 hlutu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag, Alþýðuflokkur og Samtök um kvennalista kjörna þingmenn. Sameiginlegt framboð Þjóðarflokksins og Flokks mannsins, Frjálslyndir, Heimastjórnarsamtökin, Grænt framboð, Öfgasinnaðir Jafnaðarmenn og Verkamannaflokkur Íslands hlutu lítið fylgi og engan mann kjörinn.

1994

Þjóðvaki, hreyfing fólksins (1994-1996) stofnaður að frumkvæði Jóhönnu Sigurðardóttur. Flokkurinn var klofningur úr Alþýðuflokknum. Árið 1996 sameinuðust þingflokkar Alþýðuflokks og Þjóðvaka í þingflokki Jafnaðarmanna.

1995

Húmanistaflokkurinn (1995- ) áður Flokkur mannsins, bauð fram í alþingiskosningunum 1999, 2013 og 2016 og í sveitarstjórnarkosningunum 1998 og 2002 án þess að fá verulegt fylgi.

Suðurlandslistinn (1995) kom fram í Suðurlandskjördæmi. Um var að ræða sérframboð frá Sjálfstæðisflokki leitt af Eggerti Haukdal alþingismanni. Framboðið var nokkuð langt frá því að ná inn manni.

Náttúrulagaflokkurinn (1995) bauð fram í kosningunum 1995. Hann hlaut lítið fylgi og náði ekki manni á þing.

Vestfjarðalistinn (1995) kom fram í Vestfjarðakjördæmi. Um var að ræða sérframboð leitt af Pétri Bjarnasyni sem var varaþingmaður Framsóknarflokksins í kjördæminu. Framboðið vantaði nokkrar tugi atkvæði upp á að ná kjörnum þingmanni.

Kristileg stjórnmálahreyfing (1995) bauð fram í Reykjavíkur- og Reykjaneskjördæmi en hlaut lítið fylgi.

Í kosningunum 1995 hlutu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag og óháðir, Alþýðuflokkur, Þjóðvaki-hreyfing fólksins og Samtök um Kvennalista kjörna þingmenn. Suðurlandslistinn, Náttúrulagaflokkurinn, Vestfjarðalistinn og Kristileg stjórnmálahreyfing náðu hins vegar ekki mönnum á þing.

1996

Þingflokkur Jafnaðarmanna stofnaður af þingmönnum Alþýðuflokks og Þjóðvaka. Þingmenn Þjóðvaka að Jóhönnu Sigurðardóttur undanskilinni gengu í Alþýðuflokkinn.

1998

Frjálslyndi flokkurinn (1998-2013) stofnaður að frumkvæði Sverris Hermannsson fv. ráðherra og alþingismanns Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn fékk kjörna alþingismenn í kosningunum 1999, 2003 og 2007. Frjálslyndi flokkurinn gekk inn í Dögun, samtök um réttlæti sanngirni og lýðræði fyrir kosningarnar 2013.

Þingflokkur óháðra stofnaður af þremur þingmönnum úr Alþýðubandalagi og einum utan flokka sem kjörinn hafði verið af lista Samtöka um Kvennalista. Þingmennirnir þrír úr Alþýðubandalaginu gengu siðar í Vinstrihreyfinguna grænt framboð.

Lýðræðishreyfingin (1998-2009) stofnuð undir forystu Ástþórs Magnússonar. Hreyfingin bauð fram í alþingiskosningunum 2009 en hlaut lítið fylgi.

1999

Samfylkingin (1999- ) stofnuð sem kosningabandalag Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Samtaka um kvennalista. Varð síðan að formlegum stjórnmálaflokki árið 2000.

Vinstrihreyfingin grænt framboð (1999- ) stofnað af stórum hluta af fólki úr Alþýðubandalaginu sem ekki sættu sig við sameiningu flokksins í Samfylkinguna en einnig einstaklingum úr Kvennalistanum og fólki sem stutt hafði smáflokka vinstra megin við Alþýðubandalagið.

Kristilegi lýðræðisflokkurinn (1999) bauð fram í kosningunum 1999 en fékk lítið fylgi.

Anarkistar á Íslandi (1999) buðu fram í kosningunum 1999 en fengu lítið fylgi.

Í kosningunum 1999 hlutu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylking, Vinstrihreyfingin grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn kjörna alþingismenn. Húmanistaflokkurinn, Kristilegi lýðræðisflokkurinn og Anarkistar á Íslandi hlutu lítið fylgi.

2000

Félag íslenskra þjóðernissinna (2000-2003) stofnað. Félagið boðaði framboð í alþingiskosningunum 2003 en af því varð ekki.

2002

Nýtt afl (2002-2006) stofnað. Flokkurinn bauð fram í kosningunum 2003 en hlaut ekki nægilegt fylgi til að ná kjörnum þingmanni. Árið 2006 sameinaðist Nýtt afl Frjálslynda flokknum.

Höfuðborgarsamtökin (2002-2007) stofnuð. Samtökin buðu fram til borgarstjórnar árið 2002 en fengu lítið fylgi. Höfuðborgarsamtökin boðuðu sameiginlegt framboð með Baráttusamtökum eldri borgara og öryrkja í kosningunum 2007 en ekkert varð úr því.

2003

Framboð óháðra í Suðurkjördæmi var sérframboð undir forystu Kristjáns Pálsson þingmanns Sjálfstæðisflokks. Framboðið hlaut ekki nægilegt fylgi til að ná kjörnum þingmanni.

Í kosningunum 2003 hlutu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylking, Vinstrihreyfingin grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn kjörna alþingismenn. Nýtt afl og Óháðir í Suðurkjördæmi hlutu hinsvegar ekki nægilegt fylgi til að ná inn mönnum.

2007

Íslandshreyfingin (2007-2009) stofnuð. Hún bauð fram í alþingiskosningunum 2007 en náði ekki nægilegu fylgi til að ná kjörnum þingmanni. Íslandshreyfingin varð hluti Samfylkingarinnar árið 2009.

Listi Baráttusamtaka aldraðra og öryrkja (2007) kom fram í Norðausturkjördæmi en var dreginn til baka. Áður höfðu Baráttusamtökin og Höfuðborgarsamtökin boðað sameiginlegt framboð í kosningunum 2007 en ekkert varð úr því.

Í kosningunum 2007 hlutu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylking, Vinstrihreyfingin grænt framboð og Frjálslyndi flokkurinn kjörna alþingismenn. Íslandshreyfingin hlaut hins vegar ekki nægilegt fylgi til að ná kjörnum þingmanni.

2009

Norræni íhaldsflokkurinn (2009-2012) stofnaður af Friðrik Hansen Guðmundssyni o.fl. Flokkurinn bauð ekki fram í kosningum 2009. Árið 2012 skipti flokkurinn um nafn og hét eftir það Lýðfrelsisflokkurinn.

Samtök fullveldissinna (2009-2013) stofnuð. Samtökin buðu aldrei fram en fengu úthlutað listabókstaf fyrir kosningarnar 2009. Félagar í samtökunum komu að framboði Flokks heimilanna í kosningunum 2013.

Framfaraflokkurinn (2009-2013) fékk úthlutað listabókstaf 2009 en bauð ekki fram. Forystumaður framboðsins var Sturla Jónsson vörubílstjóri en hann bauð fram undir eigin nafni 2013.

Samtök um réttlæti (2009) fengu úthlutað listabókstaf en buðu ekki fram.

Borgarahreyfingin (2009-2013) stofnuð. Flokkurinn hlaut 4 þingmenn í kosningunum 2009. Þingflokkurinn leystist upp sama ár og stofnuðu þá 3 þingmenn Hreyfinguna ásamt fleirum úr Borgarahreyfingunni. Einn þingmaður var Utan flokka en gekk síðar í Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Borgarahreyfingin varð hluti af Dögun – samtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði.

Í kosningunum 2009 hlutu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylking, Vinstrihreyfingin grænt framboð og Borgarahreyfingin kjörna alþingismenn. Frjálslyndi flokkurinn missti sín þingsæti og Lýðræðishreyfingin hlaut lítið fylgi.

Hreyfingin (2009-2013) stofnuð af þremur þingmönnum Borgaraflokksins og fleirum úr þeim flokki. Hreyfingin varð síðar hluti af Dögun – samtaka um réttlæti, sanngirni og lýðræði.

Kristileg stjórnmálasamtök (2009-2013) kynntu helstu stefnumál sín. Samtökin boðuðu framboð í alþingiskosningunum 2013 en ekki varð af því.

2010

Besti flokkurinn (2010-2013/4) stofnaður að frumkvæði Jóns Gnarr. Flokkurinn bauð fram í borgarstjórnarkosningum í Reykjavík 2010 og hlaut 6 af 15 borgarfulltrúum. Besti flokkurinn sameinaðist Bjartri framtíð veturinn 2013 en borgarstjórnarflokkurinn starfaði út kjörtímabilið.

Hægri grænir (2010-2016 ) stofnaðir undir formennsku Guðmundar Franklíns Jónssonar. Flokkurinn bauð fram í kosningunum 2013 en náði ekki nægilegu fylgi til að ná inn manni. Flokkurinn var lagður niður í febrúar 2016 og gekk inn í nýjan flokk, Íslensku þjóðfylkinguna.

2012

Björt framtíð (2012- )stofnuð að frumkvæði Guðmundar Steingrímssonar alþingismanns sem hafði verið í Framsóknarflokknum og Samfylkingunni og Heiðu Kristínu Helgadóttur úr Besta flokknum. Veturinn 2013 sameinaðist Besti flokkurinn Bjartri framtíð.

Samstaða (2012-2014) stofnuð að frumkvæði Lilju Mósesdóttur sem kjörin hafði verið alþingismaður fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Flokkurinn mældist mjög hátt fyrstu mánuðina í skoðanakönnunum en dalaði síðan mjög hratt. Flokkurinn bauð ekki fram í alþingiskosningunum 2013 þrátt fyrir að hafa verið úthlutað listabókstaf.

Lýðfrelsisflokkurinn (2012) áður Norræni íhaldsflokkurinn undir forystu Guðbjörns Guðbjörnssonar boðaði framboð í kosningunum 2013. Ekkert varð af því. Guðbjörn tók sæti á lista Lýðræðisvaktarinnar.

Píratar (2012- ) stofnaðir að frumkvæði Birgittu Jónsdóttur þingmanns Hreyfingarinnar sem kjörin hafði verið á þing fyrir Borgarahreyfinguna.

Dögun – samtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði (2012- 2018) stofnuð. Að stofnun flokksins kom fólk úr Hreyfingunni, Borgarahreyfingunni og Frjálslynda flokknum. Samtökin buðu fram í kosningunum 2013 og 2016 en náði ekki nægilegu fylgi til að ná inn manni.

Bjartsýnisflokkurinn (2012-2013) stofnaður undir forystu Einars Gunnars Birgissonar og kenndi sig við hófsama þjóðernishyggju. Flokkurinn fékk úthlutað listabókstaf fyrir kosningarnar 2013 en bauð ekki fram.

2013

Alþýðufylkingin (2013- ) stofnuð undir forystu Þorvalds Þorvaldssonar og Vésteins Valgarðssonar. Flokkur er róttækur vinstri flokkur. Alþýðufylkingin bauð fram lista í alþingiskosningunum 2013 og 2016 og í borgarstjórnarkosningunum 2014 en hlaut lítið fylgi.

Lýðræðisvaktin (2013-2016) bauð fram í alþingiskosningunum 2013. Að framboðinu stóðu m.a. stjórnlagaráðsmennirnir Lýður Árnason, Þorvaldur Gylfason, Pétur Gunnlaugsson og Örn Bárður Jónsson. Lýður starfaði áður með Dögun. Pétur sagði skilið við framboðið og fór fyrir Flokki heimilanna. Flokkurinn náði ekki kjörnum þingmanni.

Lýðveldisflokkurinn (2013) stofnaður og fékk úthlutað listabókstaf. Flokkurinn varð hluti af framboði Flokks heimilanna í kosningunum 2013 sem notaði listabókstafinn sem Lýðveldisflokknum hafði verið úthlutað.

Landsbyggðarflokkurinn (2013) stofnaður. Flokkurinn bauð fram í kosningunum 2013 en náði ekki nægilegu fylgi til að ná inn manni.

Regnboginn (2013) tilkynnti um framboð. Að framboðinu stóðu m.a. Jón Bjarnason fv.ráðherra og alþingismaður og Atli Gíslason alþingismaður. Framboðið var klofningsframboð úr Vinstrihreyfingunni grænu framboði. Framboðið bauð fram í kosningunum 2013 en náði ekki nægilegu fylgi til að ná inn manni.

Flokkur heimilanna (2013) stofnaður. Formaður flokks­ins var Pét­ur Gunn­laugs­son lögfræðingur og útvarpsmaður. Að flokkn­um stóðu eft­ir­far­andi hóp­ar og sam­tök: Lýðveld­is­flokk­ur­inn, Sam­tök full­veld­issinna, Áhuga­hóp­ur um tján­inga­frelsi, Sjálf­stæðir Sjálf­stæðis­menn, Þjóðarflokk­ur­inn, Áhuga­hóp­ur úr Hags­muna­sam­tök­um heim­il­anna, Áhuga­fólk um kjör aldraðra og ör­yrkja og fyrr­um fé­lag­ar úr Sam­stöðu. Flokkurinn bauð fram í kosningunum 2013 en náði ekki nægilegu fylgi til að ná inn manni.

Framboðið Sturla Jónsson K-listi (2013) kom fram. Sturla Jónsson vörubílstjóri kom fram með framboð í eigin nafni en framboðið hét áður Framfaraflokkurinn. Framfaraflokknum var úthlutað listabókstarf 2009 en bauð ekki fram. Framboðið bauð aðeins fram í Reykjavíkurkjördæmi suður og hlaut lítið fylgi. Sturla var í framboði fyrir Dögun í alþingiskosningunum 2016.

Í kosningunum 2013 hlutu Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Samfylking, Vinstrihreyfingin grænt framboð, Björt framtíð og Píratar kjörna þingmenn. Önnur framboð hlutu ekki nægilegt fylgi. Þau voru Flokkur heimilanna, Dögun – stjórnmálasamtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði, Lýðræðisvaktin, Hægri grænir – flokkur fólksins, Regnboginn – fyrir sjálfstæði Íslands og sjálfbæra þróun, Landsbyggðarflokkur, Sturla Jónsson K-listi, Húmanistaflokkur og Alþýðufylkingin.

2014

Viðreisn(2014-) nýtt stjórnmálaafl hefur undirbúning að flokksstofnun. Flokkurinn var stofnaður formlega í maí 2016.

 2016

Íslenska  þjóðfylkingin (2016-) var stofnuð af einstaklingum á hægri væng stjórnmálanna í febrúar 2016. Stjórnmálaflokkurinn Hægri grænir lögðu flokk sinn niður og gengu til liðs við Íslensku þjóðfylkinguna. Flokkurinn bauð fram í tveimur kjördæmum í alþingiskosningunum 2016 en hlaut lítið fylgi. Íslenska þjóðfylkingin klofnaði er Frelsisflokkurinn var stofnaður. Flokknum mistókst að bjóða fram í kosningunum 2017.

Flokkur fólksins (2016-)  stofnaður. Fyrstu stjórn flokksins skipa þau Inga Sæland, Auður Traustadóttir og Einir Guðjón Kristjánsson. Flokkurinn bauð fram í alþingiskosningum 2016 en fékk ekki nægilegt fylgi til að ná inn alþingismanni. Flokkur fólksins náði hins vegar fjórum mönnum á þingi í kosningunum 2017.

Í kosningunum 2016 hlutu Sjálfstæðisflokkur, Vinstrihreyfingin grænt framboð, Píratar, Framsóknarflokkur, Viðreisn, Björt framtíð og Samfylking kjörna þingmenn. Flokkur fólksins, Dögun – samtök um réttlæti, sanngirni og lýðræði, Alþýðufylkingin, Íslenska þjóðfylkingin og Húmanistaflokkurinn ekki nægilegt fylgi til að ná inn kjörnum þingmönnum.

2017

Sósíalistaflokkur Íslands (2017- ) stofnaður 1. maí af Gunnar Smára Egilssyni fv.ritstjóra og útgefanda o.fl.

Frelsisflokkurinn (2017- ) stofnaður í júní 2017 af Gunnlaugi Ingvarssyni (formaður), Margréti Friðsdóttur (ritari) o.fl. Gunnlaugur og fleiri stjórnarmenn í Frelsisflokknum voru áður í Íslensku þjóðfylkingunni.

Miðflokkurinn (2017- ) Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fv. alþingismaður Framsóknarflokksins stofnaði nýjan flokk. Flokkurinn hlaut 7 þingmenn í kosningunum 2017.

Í kosningunum 2017 hlutu Framsóknarflokkur, Viðreisn, Sjálfstæðisflokkur, Flokkur fólksins, Miðflokkurinn, Píratar, Samfylkingin og Vinstrihreyfingin grænt framboð kjörna alþingismenn. Björt framtíð tapaði sínum þingmönnum. Alþýðufylkingin og Dögun voru langt frá því að ná kjörnum þingmönnum.

Auglýsingar
%d bloggurum líkar þetta: