Sveitarstjórnarkosningar 2018 – fréttayfirlit

Næstu sveitarstjórnarkosningar verða haldnar 26. maí 2018. Sveitarfélögin í landinu eru 74.

 • Höfuðborgarsvæðið (7): Reykjavík, Seltjarnarnes, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Mosfellsbær og Kjósarhreppur.
 • Suðurnes (5): Grindavík, Reykjanesbær, Sandgerði, Sveitarfélagið Garður og Sveitarfélagið Vogar.
 • Vesturland (10): Akranes, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppur, Borgarbyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Grundarfjörður, Helgafellssveit, Stykkishólmur og Dalabyggð.
 • Vestfirðir (9): Reykhólahreppur, Vesturbyggð, Tálknafjörður, Bolungarvík, Ísafjarðarbær, Súðavíkurhreppur, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur og Strandabyggð.
 • Norðurland vestra (7): Húnaþing vestra, Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Sveitarfélagið Skagaströnd, Sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur.
 • Norðurland eystra (13): Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Hörgársveit, Akureyri, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur, Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur, Tjörneshreppur, Norðurþing, Svalbarðshreppur og Langanesbyggð.
 • Austurland (9): Vopnafjarðarhreppur, Fljótsdalshreppur, Fljótsdalshérað, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjörður, Fjarðabyggð, Breiðdalshreppur, Djúpavogshreppur og Sveitarfélagið Hornafjörður.
 • Suðurland (14): Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Vestmannaeyjar, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Ásahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Hrunamannahreppur, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Flóahreppur, Sveitarfélagið Árborg, Hveragerði og Sveitarfélagið Ölfus.

16.8.2017 Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík gefur ekki kost á sér.

Halldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík gefur ekki kost á sér á lista flokksins í komandi borgarstjórnarkosningum. Þetta tilkynnir hann á facebook-síðu sinni. Halldór er jafnframt formaður Sambands Sveitarfélaga og var áður bæjarstjóri á Ísafirði. Eins og áður hefur verið greint frá leggur stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík til að viðhaft verði leiðtogaprófkjör fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor en að öðru leiti verði stillt upp á listann. Fulltrúaráðið kemur saman til fundar 22. ágúst n.k.

10.8.2017 Leiðtogaprófkjör hjá Sjálfstæðisflokki í Reykjavík?

Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að stjórn Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík muni leggja til við fulltrúaráðið að kosið verði um leiðtoga listans en stillt upp í önnur sæti. Það mun samkvæmt fréttinni vera til þess að fá betri dreifingu á frambjóðendum eftir hverfum borgarinnar en hverfafélög flokksins hafi kallað eftir því. Ekki kemur fram í fréttinni hvenær ákvörðun um hvernig stillt verður upp á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verður tekin.

25.7.2017 Inga Sæland leiðir Flokk fólksins í höfuðborginni

Inga Sæland formaður Flokks fólksins mun leiða lista flokksins í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningunum í maí 2018. Þetta kom fram í viðtali við hana á mbl.is í tilefni af því að flokkurinn mældis með 6,1% í skoðanakönnun MMR. Aðspurð segir hún að stefnt sé að því að bjóða fram í sem flestum sveitarfélögum.

7.7.2017 Fækkun sveitarfélaga fyrir vorið?

Á nokkrum stöðum á landinu er verið að skoða sameiningar sveitarfélaga en kosið verður til sveitarstjórna í maí 2018. Lengst eru mál líklega komin hjá Sveitarfélaginu Garði og Sandgerðisbæ en þar hefur verið skipað í samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna tveggja.

Á Snæfellsnesi eru hefur verið umræða um sameiningu Grundarfjarðarbæjar, Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar. Eyja- og Miklaholtshreppur ákvað á fundi í júní sl. að skoða fjóra kosti þ.e. að vera áfram sjálfstætt sveitarfélag, skoða að vera með í ofangreindri sameiningarumræðu eða skoða hlutina með Snæfellsbæ eða Borgarbyggð.

Á Norðurlandi vestra hafa sveitarfélögin Skagabyggð og Sveitarfélagið Skagafjörður ræðst við. Akrahreppur hefur lýst yfir vilja til að koma að viðræðunum en öllum sveitarfélögum á Norðurlandi vestra hefur verið boðið að viðræðuborðinu. Sveitarfélögin í Austur Húnavatnssýslu hafa ákveðið að boða til sameiginlegs fundar seinni partinn í ágúst til að fara yfir málin. Ekki er vitað með vilja Húnaþings vestra.

Á síðasta ári voru settar fram hugmyndir hjá Akureyrarkaupstað um sameiningu allra sveitarfélaga við Eyjafjörð. Dræmt var tekið í þær hugmyndir að hálfu flestra sveitarfélaga á svæðinu.

Sameiningarviðræður hafa átt sér stað á milli Djúpavogshrepps, Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Skaftárhrepps. Stefnt er að íbúafundum í haust.

Í Árnessýslu stendur yfir greining á kostum og göllum þess að sameina öll sveitarfélög í Árnessýslu. Íbúafundir voru haldnir í júní. Sveitarfélögin eru Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Hveragerðisbær, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Sveitarfélagið Árborg og Sveitarfélagið Ölfus.

Gangi allar þessar hugmyndir eftir gæti sveitarfélögum fækkað um allt að tuttugu en þau eru 74 í dag. Reynslan kennir reyndar að það er ólíklegt.

Athygli vekur að nokkur af minnstu sveitarfélögunum sem telja um eða innan við 100 íbúa eru ekki í viðræðum um sameiningu sveitarfélaga. Þau eru Árneshreppur (46 íbúar), Skorradalshreppur (58), Tjörneshreppur (59), Fljótsdalshreppur (81), Svalbarðshreppur (95),  Kaldrananeshreppur (106) og Borgarfjarðarhreppur (116).

12.4.2017 Flokkur fólksins boðar framboð í borgarstjórnarkosningunum

Inga Sæland formaður Flokks fólksins boðar framboð flokksins í til borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík næsta vor. Þá verði skoðað hvort bjóða eigi fram undir merkjum flokksins í fleiri sveitarfélögum. Þetta kom fram í viðtali við Ingu á Rás 1 í gærmorgun. Flokkur fólksins hlaut 3,5% fylgi á landsvísu í alþingiskosningunum í haust. Í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur hlaut flokkurinn samtals 2.935 atkvæði sem gæti nægt til að ná inn einum manni þar sem að 15. borgarfulltrúinn var með 2.933 atkvæði á bak við sig í síðustu borgarstjórnarkosningum.

3.4.2017 Boða framboð til borgarstjórnarkosninga

Þrátt fyrir að ríflega ár sé til næstu sveitarstjórnarkosninga sem haldnar verða 26. maí 2018 hefur Íslenska þjóðfylkingin lýst því yfir að flokkurinn muni bjóða fram í Reykjavík. Í ályktun sem samþykkt var á landsfundi flokksins segir: „Íslenska þjóðfylkingin lýsir yfir að hún mun bjóða fram í komandi borgar­stjórnar­kosningu. Það verður lögð áhersla á að aftur­kalla lóð undir mosku­byggingu; viðhaldi gatna verði komið í viðun­andi horf; stuðlað verði að upp­byggingu á félags­legu húsnæði með því að lóða­kostnaður verði einungis samkvæmt útlögðum kostnaði.“

19.12.2016 Fækkun sveitarfélaga framundan? 

Í maí 2018 verður kosið til sveitarstjórna. Samkvæmt frétt á vef RÚV eru nokkrar hugmyndir, mislangt komnar, um sameiningu sveitarfélaga í gangi. Gangi þessar hugmyndir eftir sem kannski er ekki mjög líklega gæti sveitarfélögum fækkað um 17. Þessar hugmyndir eru:

 • Sveitarfélagið Garður og Sandgerðisbær – myndi fækka um eitt
 • Öll sveitarfélög í Árnessýslu utan Bláskógarbyggðar – myndi fækka um sex
 • Stykkishólmur, Grundarfjörður og Helgafellssveit – myndi fækka um tvö
 • Djúpavogshreppur, Sveitarfélagið Hornafjörður og Skaftárhreppur – myndi fækka um tvö
 • Eyjafjörður – Fjallabyggð, Dalvíkurbyggð, Hörgársveit, Akureyri, Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandahreppu og Grýtubakkahreppur – myndi fækka um sex
%d bloggurum líkar þetta: