Archive for category Forsetakosningar

Frambjóðendur til embættis forseta Íslands

skjaldEins og við var að búast hafa fjölmiðlar fjallað mikið um það í dag hverjir komi til greina í embætti forseta Íslands í kjölfar yfirlýsingar Ólafs Ragnars Grímssonar.

Tveir virðast vera ákveðnir í að bjóða sig fram en það eru rithöfundarnir Þorgrímur Þráinsson og Elísabet Jökulsdóttir. 

Aðrir sem eru sagðir hugsa málið eru Stefán Jón Hafstein umdæmisstjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun í Úganda, Hrannar Pétursson ráðgjafi, Halla Tómasdóttir fjárfestir, Sturla Jónsson vörubílstjóri, Ómar Valdimarsson almannatengill og Katrín Jakobsdóttir formaður VG. Auk þessa fólks hafa fjölmargir verið nefndir og jafnvel verið stofnaðar stuðningssíður við framboð einstakra manna.

Færðu inn athugasemd

Ólafur Ragnar hættir sem forseti

skjaldÓlafur Ragnar Grímsson sem hefur verið forseti Íslands frá 1996 tilkynnti í nýársávarpi sínu rétt í þessu að hann ætli ekki að bjóða sig fram til forseta Íslands. Ljóst er því að nýr forseti verður kjörinn 26. júní n.k.

Ólafur var fyrst kjörinn árið 1996 og endurkjörinn án mótframboðs árið 2000. Hann var síðan endurkjörinn með yfirburðum árið 2004 og endurkjörinn án mótframboðs 2008. Hann var síðan endurkjörinn með meirihluta atkvæða í kosningunum 2012.

Færðu inn athugasemd

Árið 2015

2015Engar kosningar voru á árinu 2015 og því minna um að vera á síðunni en undanfarin ár. En á árinu gerðist það helst að …

  • Pétur H. Blöndal alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður lést og tók Sigríður Á. Andersen sæti hans
  • Guðbjartur Hannesson alþingismaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi lést og tók Ólína Þorvarðardóttir sæti hans
  • Jón Þór Ólafsson alþingismaður Pírata sagði af sér þingmennsku og tók Ásta Guðrún Helgadóttir sæti hans.

Við þessar breytingar á Alþingi fór hlutfall kvenna upp í 46,0%.

Íbúakosning var í Reykjanesbæ um skipulagsmál í Helguvík. Aðeins fleiri studdu breytinguna en voru á móti henni en yfir 90% tóku ekki afstöðu.

Á síðunni var tekið saman yfirlit yfir

  • íslenska stjórnmálaflokka í 100 ár,
  • þróunar kosningaréttar til Alþingis
  • og yfirlit yfir kjördæmaskipun frá 1843.

Árið 2016
Á næsta ári rennur út kjörtímabil Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands og forsetakosningar verða væntanlega 25. júní n.k.

Á árinu 2017 verða alþingiskosningar í síðasta lagi fyrir apríllok. Búast má við fyrstu prófkjörum og uppstillingum haustið 2016.

Færðu inn athugasemd

Hrannar Pétursson íhugar forsetaframboð

hrannarHrannar Pétursson, fv. framkvæmdastjóri mannauðs-, markaðs- og lögfræðimála hjá Vodafone á Íslandi, íhugar að bjóða sig fram til forseta Íslands næsta sumar. Frá þessu greina Kjarninn og héraðsfréttamiðlinn Skarpur í dag. Fram kemur að hann hafi starfað sem sjónvarpsfréttamaður, en síðan við upplýsinga- og samskiptamál hjá ÍSAL og Vodafone. Hann starfaði sem verkefnisstjóri hjá forsætisráðuneytinu til nú í nóvember 2015 en rekur nú eigið upplýsinga- og samkiptafyrirtæki.

Færðu inn athugasemd

Halla Tómasdóttir fjárfestir íhugar forsetaframboð

HallaTómasdÁ níunda hundrað manns hafa skorað á Höllu Tómasdóttur fjárfesti að bjóða sig fram til embættis Forseta Íslands. Hún hefur starfað hjá Háskólanum í Reykjavík og verið framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Í yfirlýsingu frá Höllu segir: „Það er ekki auðvelt að svara slikri áskorun svo ég hef ákveðið að gefa mér tíma í að hugsa og ræða við mína nánustu, áður en ég segi af eða á. Hver sem niðurstaðan verður, þá mun ég áfram brenna fyrir jafnrétti, sjálfbærni og uppbyggingu manneskjulegs samfélags.

Færðu inn athugasemd

Þorgrímur Þráinsson rithöfundur íhugar alvarlega forsetaframboð

torgrimurÞorgrímur Þráinsson rithöfundur telur líklegt að hann bjóði sig fram til forseta en segir að hann hafi ætlað að bíða með tilkynningu um framboð fram yfir áramót.

„Ég er að fylgja mínu inn­sæi og mig lang­ar í fram­boð hvort sem það verður til þess að ég nái kjöri eða ekki. Það verður tím­inn að leiða í ljós. Og mér finnst í raun­inni tæki­fær­in sem embættið býður upp á áhuga­verð, miklu frek­ar en að verða for­seti. Ég hef verið talsmaður heil­brigðis og mannúðar og rétt­læt­is í gegn­um árin og lang­ar að halda áfram að tala á þeim vett­vangi. Það er það sem hvet­ur mig áfram.“ sagði Þorgrímur í samtali við mbl.is

Í viðtali í fréttum Stöðvar 2 sagðist Þorgrímur vera 95% viss um að fara í framboð. Þorgrímur Þráinsson var í 4. sæti á lista Borgaraflokksins í alþingiskosningunum 1987.

Færðu inn athugasemd

Sturla Jónsson íhugar forsetaframboð

sturlajonssonSturla Jónsson vörubílstjóri og baráttumaður segir á facebook-síðu sinni að hann sé að íhuga framboð til embættis forseta Íslands. Sturla var í 1.sæti á lista framboðsins „Sturla Jónsson K-listi“ í Reykjavíkurkjördæmi suður í síðustu alþingiskosningum og hlaut þá 222 atkvæði eða 0,6% í kjördæminu (0,12% á landsvísu). Í kosningunum 2009 var hann í framboði fyrir Frjálslynda flokkinn í sama kjördæmi en náði ekki kjöri.

Færðu inn athugasemd