Archive for category Alþingiskosningar

Framboðsmál fyrir austan

Eins og áður hefur komið fram verður kosið í nýju sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar þann 18. apríl n.k. Fimm framboð hafa þegar verið boðuð. Þau eru: Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkurinn, Vinstrihreyfingin grænt framboð og framboð félagshyggjufólks.

Óhlutbundin kosning var í Borgarfjarðarhreppi í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Í Djúpavogshreppi voru listakosningar sem ekki er vitað til að hafi fylgt flokkslínum. Á Fljótsdalshéraði og Seyðifirði voru hins vegar listakosningar sem fylgdu flokkslínum.

Greint hefur verið frá því að framsóknarfélögin í sveitarfélögunum fjórum hafi nú þegar sameinað krafta sína. Framsóknarflokkurinn hefur einn bæjarfulltrúa á Seyðisfirði (Framsóknarflokkur og frjálslyndir) og tvo á Fljótsdalshéraði.

Sama hafa nú sjálfstæðisfélögin gert skv. frétt Austurfréttar en á dögunum sameinuðu þau fulltrúaráð sitt. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þrjá bæjarfulltrúa á Fljótsdalshéraði (Sjálfstæðisflokkur og óháðir) og tvo á Seyðisfirði.

Félagshyggjufólk hyggur einnig á framboð en Austurfrétt hefur greint frá því að að Héraðslistinn á Fljótsdalshéraði og Seyðisfjarðarlistinn auk fólks á Borgarfirði og á Djúpavogi hafi ákveðið að sameina krafta sína í nýju framboði. Seyðisfjarðarlistinn hefur fjóra af sjö bæjarfulltrúum á Seyðisfirði og Héraðslistinn þrjá af níu á Fljótsdalshéraði.

Í síðustu viku ákváðu félagar í Vinstrihreyfingunni grænu framboði að bjóða fram í nýja sveitarfélaginu. Vinstri grænir hafa aldrei boðið fram sérstakan lista á Fljótsdalshéraði en buðu fram árið 2010 á Seyðisfirði og hlutu þá einn bæjarfulltrúa.

Miðflokkurinn hlaut einn bæjarfulltrúa á Fljótsdalshéraði og boðar á facebook-síðu sinni framboð í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Færðu inn athugasemd

Kosið fyrir austan 18.apríl 2020

Kosið verður til sveitarstjórnar í nýju sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar þann 18. apríl 2020, fyrsta laugardag eftir páska. Austurfrett.is greinir frá.

Færðu inn athugasemd

Andrés Ingi Jónsson segir sig úr þingflokki VG

Andrés Ingi Jónsson þingmaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hefur sagt sig úr þingflokki VG og mun hér eftir starfa sem þingmaður Utan flokka.

Færðu inn athugasemd

Sameining samþykkt á Austurlandi.

Sveitarfélögum mun í vor fækka úr 72 í 69 í eftir að íbúar Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar samþykktu að sameina sveitarfélögin í atkvæðagreiðslu í gær. Þegar sameiningin tekur gildi verða aðeins fjögur sveitarfélög á Austurlandi, Fjarðabyggð, Vopnafjarðarhreppur, Fljótsdalshreppur og hið nýja sameinaða sveitarfélag.

Samkvæmt vefmiðlinum Austurfrett.is voru úrslit eftirfarandi:

Borgarfjarðarhreppur: Já 44 (72,1%) Nei 17 (27,9%). Auðir og ógildir 7. Kjörsókn 71,6%.

Djúpavogshreppur: Já 156 (64,2%) Nei 87 (35,8%). Auðir og ógildir 2. Kjörsókn 78,0%.

Fljótsdalshérað: Já 1291 (93,9%) Nei 84 (6,1%). Auðir og ógildir 15. Kjörsókn 77,2%.

Seyðisfjarðarkaupstaður: Já 312 (87,4%) Nei 45 (12,6%). Auðir og ógildir 3. Kjörsókn 70,7%.

Samtals öll sveitarfélög: Já 1803 (88,6%) Nei 233 (11,4%). Auðir og ógildir 27. Kjörsókn 75,9%. Samtals samþykktu sameininguna 66,3% af þeim sem voru á kjörskrá.

Færðu inn athugasemd

Sameiningarkosningar á Austurlandi

Næst komandi laugardag, þann 26. október, ganga íbúar Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar til atkvæða um hvort sameina eigi sveitarfélögin í eitt. Um síðustu áramót bjuggu 3.600 íbúar í Fljótsdalshéraði, 685 á Seyðisfirði, 472 í Djúpavogshreppi og 109 í Borgarfjarðarhreppi. Samtals voru því íbúar í sveitarfélögunum fjórum 4.866.

Á vef sameiningarverkefnisins segir:

Niðurstaða kosninga um sameiningu er bindandi. Þótt tillaga um sameiningu hljóti ekki samþykki meirihluta kjósenda í öllum sveitarfélögunum sem að tillögunni stóðu, er sveitarstjórnum sveitarfélaga þar sem sameiningartillaga hlýtur samþykki meirihluta kjósenda heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga  a.m.k. 2/ 3 sveitarfélaganna og í þeim sveitarfélögum búi a.m.k. 2/ 3 hlutar íbúa á svæðinu.

Ef sameiningin er samþykkt skipa sveitarstjórnir sveitarfélaganna sérstaka stjórn sem hefur það hlutverk að undirbúa stofnun nýs sveitarfélags. Hver sveitarstjórn skipar þrjá fulltrúa í stjórnina. Hlutverk hennar er að semja samþykkt um stjórn og fundarsköp hinnar nýju sveitarstjórnar. Stjórnin tekur einnig ákvarðanir um fjárhagsmálefni hins nýja sveitarfélags, tekur saman yfirlit yfir allar samþykktir og reglugerðir sem gilda í þeim sveitarfélögum sem sameinuð hafa verið og skal hefja vinnu við endurskoðun þeirra og samræmingu.

Stjórnin gerir auk þess tillögu til sveitarstjórrnarráðuneytis um það hvort kosið skuli til sveitarstjórnar fyrir hið nýja sveitarfélag eða sveitarstjórn eins hinna sameinuðu sveitarfélaga falin stjórn þess til loka yfirstandandi kjörtímabils. Meginreglan er að kosið er til nýrrar sveitarstjórnar að afloknum kosningum um sameiningu.

Færðu inn athugasemd

Áslaug Arna nýr dómsmálaráðherra

Tilkynnt var í dag að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Sjálfstæðisflokki taki við sem dómsmálaráðherra á morgun af Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur sem gengt hefur embættinu frá því að Sigríður Andersen sagði af sér. Áslaug Arna verður næstyngsti einstaklingur sem tekið hefur verið ráðherraembætti á Íslandi. Aðeins Eysteinn Jónsson Framsóknarflokki var yngri þegar að hann tók við embætti.

Færðu inn athugasemd

Sameining sveitarfélaga?

Lagðar hafa verið fram áætlanir um að ekkert sveitarfélag verði með færri en 250 íbúa við sveitarstjórnarkosningarnar 2022 og að ekkert sveitarfélag verði með færri en 1.000 íbúa árið 2026.

Fjórtán sveitarfélög voru með færri en 250 íbúa þann 1.janúar sl. Þau eru: Kjósarhreppur, Skorradalshreppur, Eyja- og Miklaholtshreppur, Helgafellssveit, Súðavíkurhreppur, Kaldrananeshreppur, Árneshreppur, Skagabyggð, Akrahreppur, Tjörneshreppur, Svalbarðshreppur, Borgarfjarðarhreppur, Fljótsdalshreppur og Ásahreppur.

Heyrst hefur að í mörgum þessara tilfella liggi sameining við nágrannasveitarfélög nokkuð beint við. T.d. að Skorradalshreppur sameinist Borgarbyggð, Helgafellssveit Stykkishólmi, Súðavíkurhreppur Ísafjarðarbæ, Kaldrananes- og Árneshreppar Strandabyggð, Akrahreppur Sveitarfélaginu Skagafirði, Tjörneshreppu Norðurþingi, Svalbarðshreppur Langanesbyggð, Fljótsdalshreppur Fljótsdalshéraði og Ásahreppur Rangárþingi ytra. Skagabyggð er nú þegar í viðræðum við hin sveitarfélögin þrjú í Austur Húnavatnssýslu um sameiningu og Borgarfjarðarhreppur er í viðræðum við sveitarfélög á Austurlandi um sameiningu.

Þau 26 sveitarfélög sem voru með 251-999 íbúa þann 1. janúar sl. voru; Hvalfjarðarsveit, Grundarfjarðarbær, Dalabyggð, Reykhólahreppur, Tálknafjarðarhreppur, Vesturbyggð, Bolungarvík, Strandabyggð, Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Sveitarfélagið Skagaströnd, Hörgársveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur, Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur, Langanesbyggð, Vopnafjarðarhreppur, Seyðisfjörður, Djúpavogshreppur, Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Hrunamannahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur og Flóahreppur.

Sameining þessara sveitarfélaga við önnur sveitarfélög liggur kannski ekki eins beint við. Hvalfjarðarsveit og Akranesbær gætu sameinast, Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð, Bolungarvík gæti sameinast Ísafjarðarbæ, Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur eru í viðræðum, Seyðisfjörður og Djúpavogshreppur eru í viðræðum við Fljótsdalshérað og Borgarfjarðarhrepp, Skaftáhreppur og Mýrdalshreppur gætu sameinast svo dæmi séu nefnd.

En svo verður tíminn að leiða í ljós hvaða sveitarfélag sameinast hverju.

Færðu inn athugasemd