Archive for category Alþingiskosningar

Tíu framboð til bæjarstjórnar Akureyrar?

akureyriSamkvæmt frétt á Ruv.is íhuga 10 flokkar eða framboð að bjóða fram í bæjarstjórnarkosningunum í vor. Öll framboðin sex sem eiga bæjarfulltrúa ætla að bjóða fram aftur en þau eru Björt framtíð, Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur, L-listinn, Samfylking og Vinstrihreyfingin grænt framboð. Þar að auki boða Viðreisn, Píratar, Flokkur Fólksins og Íslenska þjóðfylkingin framboð. Dögun sem bauð fram í kosningunum 2014 en hlaut aðeins 1,4% hefur ekki tekið ákvörðun um framboð í vor.

Færðu inn athugasemd

Íslenska þjóðfylkingin í sveitarstjórnarmálin

islenskathjodÍ samtali við Ruv.is Guðmundur Þorleifsson formaður Íslensku þjóðfylkingarinnar að flokkurinn hyggist bjóða fram í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum. Þá sé verið að skoða með framboð á Akureyri. Áður hafði flokkurinn gefið út að hann stefndi á framboð í Reykjavík.

Færðu inn athugasemd

Halldór Haldórsson oddviti Sjálfstæðisflokks gefur ekki kost á sér

sjalfstflHalldór Halldórsson oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík gefur ekki kost á sér á lista flokksins í komandi borgarstjórnarkosningum. Þetta tilkynnir hann á facebook-síðu sinni. Halldór er jafnframt formaður Sambands Sveitarfélaga og var áður bæjarstjóri á Ísafirði. Eins og áður hefur verið greint frá leggur stjórn fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík til að viðhaft verði leiðtogaprófkjör fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor en að öðru leiti verði stillt upp á listann. Fulltrúaráðið kemur saman til fundar 22. ágúst n.k.

Færðu inn athugasemd

Leiðtogaprófkjör hjá Sjálfstæðisflokki í Reykjavík?

sjalfstflFram kemur í Morgunblaðinu í dag að stjórn Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík muni leggja til við fulltrúaráðið að kosið verði um leiðtoga listans en stillt upp í önnur sæti. Það mun samkvæmt fréttinni vera til þess að fá betri dreifingu á frambjóðendum eftir hverfum borgarinnar en hverfafélög flokksins hafi kallað eftir því. Ekki kemur fram í fréttinni hvenær ákvörðun um hvernig stillt verður upp á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík verður tekin.

Færðu inn athugasemd

Frelsisflokkurinn stofnaður

frelsisflokkur_10Í júní sl. var Frelsisflokkurinn stofnaður. Samkvæmt heimasíðu flokksins að þá vill flokkurinn standa vörð um íslenskt fullveldi og þjóðfrelsi íslensku þjóðarinnar. Flokkurinn vill varðveita og efla íslenska þjóðmenningu og tungu. Þá vill Frelsisflokkurinn að útlendingar sem vilja flytjast til landsins á lögmætum forsendum aðlagist íslensku samfélagi. Flokkurinn segist styðja þjóðleg borgaraleg viðhorf og kristna trú og gildi.

Flokksstjórn skipa Gunnlaugur Ingvarsson formaður, Margrét Friðriksdóttir ritari, Gústaf Níelsson, Ágúst Örn Gíslason, Einar Hjaltason, Höskuldur Geir Erlingsson, Gunnar Andri Sigtryggsson, Guðmundur Jónas Kristjánsson, María Magnúsdóttir og Ægir Óskar Hallgrímsson. Flestir stjórnarmanna voru í eða áttu að vera í framboði fyrir Íslensku þjóðfylkinguna í síðustu alþingiskosningum.

Gunnlaugur átti að leiða lista Íslensku þjóðfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður í alþingiskosningunum 2016, Ægir Óskar átti að vera í 4. sæti, Höskuldur Geir í því 5. Gústaf Níelsson átti að leiða lista Íslensku þjóðfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, Ágúst Örn átti að vera í 5.sæti og Guðmundur Jónas í 10.sæti en listarnir voru ekki lagðir fram. Einar Hjaltason var á lista Íslensku þjóðfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi og María Magnúsdóttir á lista flokksins í Suðurkjördæmi

Færðu inn athugasemd

Inga Sæland leiðir Flokk fólksins í höfuðborginni

FlokkurfolksInga Sæland formaður Flokks fólksins mun leiða lista flokksins í Reykjavík í sveitarstjórnarkosningunum í maí 2018. Þetta kom fram í viðtali við hana á mbl.is í tilefni af því að flokkurinn mældis með 6,1% í skoðanakönnun MMR. Aðspurð segir hún að stefnt sé að því að bjóða fram í sem flestum sveitarfélögum.

Færðu inn athugasemd

Fækkun sveitarfélaga fyrir vorið?

Á nokkrum stöðum á landinu er verið að skoða sameiningar sveitarfélaga en kosið verður til sveitarstjórna í maí 2018. Lengst eru mál líklega komin hjá Sveitarfélaginu Garði og Sandgerðisbæ en þar hefur verið skipað í samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna tveggja.

Á Snæfellsnesi eru hefur verið umræða um sameiningu Grundarfjarðarbæjar, Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar. Eyja- og Miklaholtshreppur ákvað á fundi í júní sl. að skoða fjóra kosti þ.e. að vera áfram sjálfstætt sveitarfélag, skoða að vera með í ofangreindri sameiningarumræðu eða skoða hlutina með Snæfellsbæ eða Borgarbyggð.

Á Norðurlandi vestra hafa sveitarfélögin Skagabyggð og Sveitarfélagið Skagafjörður ræðst við. Akrahreppur hefur lýst yfir vilja til að koma að viðræðunum en öllum sveitarfélögum á Norðurlandi vestra hefur verið boðið að viðræðuborðinu. Sveitarfélögin í Austur Húnavatnssýslu hafa ákveðið að boða til sameiginlegs fundar seinni partinn í ágúst til að fara yfir málin. Ekki er vitað með vilja Húnaþings vestra.

Á síðasta ári voru settar fram hugmyndir hjá Akureyrarkaupstað um sameiningu allra sveitarfélaga við Eyjafjörð. Dræmt var tekið í þær hugmyndir að hálfu flestra sveitarfélaga á svæðinu.

Sameiningarviðræður hafa átt sér stað á milli Djúpavogshrepps, Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Skaftárhrepps. Stefnt er að íbúafundum í haust.

Í Árnessýslu stendur yfir greining á kostum og göllum þess að sameina öll sveitarfélög í Árnessýslu. Íbúafundir voru haldnir í júní. Sveitarfélögin eru Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Hveragerðisbær, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Sveitarfélagið Árborg og Sveitarfélagið Ölfus.

Gangi allar þessar hugmyndir eftir gæti sveitarfélögum fækkað um allt að tuttugu en þau eru 74 í dag. Reynslan kennir reyndar að það er ólíklegt.

Athygli vekur að nokkur af minnstu sveitarfélögunum sem telja um eða innan við 100 íbúa eru ekki í viðræðum um sameiningu sveitarfélaga. Þau eru Árneshreppur (46 íbúar), Skorradalshreppur (58), Tjörneshreppur (59), Fljótsdalshreppur (81), Svalbarðshreppur (95),  Kaldrananeshreppur (106) og Borgarfjarðarhreppur (116).

 

 

 

Færðu inn athugasemd