Archive for category Alþingiskosningar

Áslaug Arna nýr dómsmálaráðherra

Tilkynnt var í dag að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Sjálfstæðisflokki taki við sem dómsmálaráðherra á morgun af Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur sem gengt hefur embættinu frá því að Sigríður Andersen sagði af sér. Áslaug Arna verður næstyngsti einstaklingur sem tekið hefur verið ráðherraembætti á Íslandi. Aðeins Eysteinn Jónsson Framsóknarflokki var yngri þegar að hann tók við embætti.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Sameining sveitarfélaga?

Lagðar hafa verið fram áætlanir um að ekkert sveitarfélag verði með færri en 250 íbúa við sveitarstjórnarkosningarnar 2022 og að ekkert sveitarfélag verði með færri en 1.000 íbúa árið 2026.

Fjórtán sveitarfélög voru með færri en 250 íbúa þann 1.janúar sl. Þau eru: Kjósarhreppur, Skorradalshreppur, Eyja- og Miklaholtshreppur, Helgafellssveit, Súðavíkurhreppur, Kaldrananeshreppur, Árneshreppur, Skagabyggð, Akrahreppur, Tjörneshreppur, Svalbarðshreppur, Borgarfjarðarhreppur, Fljótsdalshreppur og Ásahreppur.

Heyrst hefur að í mörgum þessara tilfella liggi sameining við nágrannasveitarfélög nokkuð beint við. T.d. að Skorradalshreppur sameinist Borgarbyggð, Helgafellssveit Stykkishólmi, Súðavíkurhreppur Ísafjarðarbæ, Kaldrananes- og Árneshreppar Strandabyggð, Akrahreppur Sveitarfélaginu Skagafirði, Tjörneshreppu Norðurþingi, Svalbarðshreppur Langanesbyggð, Fljótsdalshreppur Fljótsdalshéraði og Ásahreppur Rangárþingi ytra. Skagabyggð er nú þegar í viðræðum við hin sveitarfélögin þrjú í Austur Húnavatnssýslu um sameiningu og Borgarfjarðarhreppur er í viðræðum við sveitarfélög á Austurlandi um sameiningu.

Þau 26 sveitarfélög sem voru með 251-999 íbúa þann 1. janúar sl. voru; Hvalfjarðarsveit, Grundarfjarðarbær, Dalabyggð, Reykhólahreppur, Tálknafjarðarhreppur, Vesturbyggð, Bolungarvík, Strandabyggð, Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Sveitarfélagið Skagaströnd, Hörgársveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur, Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur, Langanesbyggð, Vopnafjarðarhreppur, Seyðisfjörður, Djúpavogshreppur, Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Hrunamannahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur og Flóahreppur.

Sameining þessara sveitarfélaga við önnur sveitarfélög liggur kannski ekki eins beint við. Hvalfjarðarsveit og Akranesbær gætu sameinast, Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð, Bolungarvík gæti sameinast Ísafjarðarbæ, Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur eru í viðræðum, Seyðisfjörður og Djúpavogshreppur eru í viðræðum við Fljótsdalshérað og Borgarfjarðarhrepp, Skaftáhreppur og Mýrdalshreppur gætu sameinast svo dæmi séu nefnd.

En svo verður tíminn að leiða í ljós hvaða sveitarfélag sameinast hverju.

Færðu inn athugasemd

Lýðræðisflokkurinn – ný stjórnmálasamtök

Benedikt S. Lafleur o.fl. hafa stofnað nýjan stjórnmálaflokk, Lýðræðisflokkinn. Á facebook-síðu flokksins kemur fram að um sé að ræða þverpólitíska stjórnmálahreyfingu sem berst fyrir beinu lýðræði og samfélagslegri stjórnun auðlindanna. Upphaflegt heiti flokksins var Lýðræðishreyfingin en Ástþór Magnússon mun vera skráður fyrir því nafni skv. facebook-síðu Lýðræðisflokksins.

Benedikt S. Lafleur var á lista Íslandshreyfingarinnar í Suðvesturkjördæmi 2007 og á lista Frjálslyndra og óháðra í Sveitarfélaginu Skagafirði í sveitarstjórnarkosningunum 2010.

Færðu inn athugasemd

Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur í sameiningarviðræðum

Sveitarstjórnir Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps hafa ákveðið að hefja skoðun á sameiningu sveitarfélaganna. Íbúar Þingeyjarsveitar voru 894 þann 1. janúar sl. en íbúar Skútustaðahrepps 502.

Færðu inn athugasemd

Karl Gauti og Ólafur Ísleifsson gengnir í Miðflokkinn

Alþingismennirnir Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason hafa ákveðið að ganga til liðs við þingflokk Miðflokksins frá og með deginum í dag. Við þetta varð Miðflokkurinn stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn og telur nú níu þingmenn.

Færðu inn athugasemd

Árið 2018

Sveitarstjórnarkosningar voru haldnar á árinu. Niðurstöður urðu þessar í fjölmennustu sveitarfélögunum:

 • Reykjavík. Borgarfulltrúum fjölgaði úr 15 í 23. Meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs féll. Viðreisn, sem hlaut tvo borgarfulltrúa, kom inn í meirihlutasamstarfið í stað Bjartrar framtíðar sem ekki bauð fram. Sósíalistaflokkur Íslands, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins voru meðal sextán framboða sem komu fram og náðu einum manni í borgarstjórn hvert framboð. Þá bætti Sjálfstæðisflokkurinn nokkru fylgi við sig.
 • Kópavogur. Litlar breytingar urðu á bæjarstjórn Kópavogs þrátt fyrir níu framboð utan það að Píratar unnu mann af Vinstrihreyfingunni grænu framboði.
 • Garðabær. Sjálfstæðisflokkurinn bætti við hreinan meirihluta sinn, hlaut átta af ellefu bæjarfulltrúum.
 • Seltjarnarnes. Sjálfstæðisflokkurinn hélt hreinum meirihluta.
 • Hafnarfjörður. Allnokkrar breytingar urðu á bæjarstjórn Hafnarfjarðar. Framsóknarflokkur, Viðreisn, Miðflokkur og Bæjarlisti komu ný inn í bæjarstjórn. Bæjarfulltrúi Bæjarlistans var bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar sem ekki bauð fram. Samfylkingin tapaði einum bæjarfulltrúa og Vinstrihreyfingin grænt framboð tapaði sínum bæjarfulltrúa.
 • Mosfellsbær. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði einum manni og hreinum meirihluta í bæjarstjórn. Íbúahreyfingin í Mosfellsbæ sem nú bauð fram með Pírötum tapaði sínum bæjarfulltrúa og Samfylkingin tapaði öðrum sínum bæjarfulltrúa. Viðreisn, Vinir Mosfellsbæjar og Miðflokkurinn komu ný inn með einn fulltrúa hvert framboð.
 • Reykjanesbær. Miðflokkurinn náði inn manni. Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin bættu við sig einum manni hvor flokkur. Á móti töpuðu Sjálfstæðisflokkur, Bein leið og Frjálst afl einum bæjarfulltrúa hver.
 • Suðurnesjabær – sameinað sveitarfélag Garðs og Sandgerðis. Sjálfstæðismenn og óháðir hlutu þrjá bæjarfulltrúa, Jákvætt samfélag þrjá, Listi fólksins tvo og Framsóknarflokkur og óháðir einn.
 • Grindavíkurbær. Listi Miðflokksins og  Radda unga fólksins komu nýir inn í bæjarstjórn með einn fulltrúa hvort framboð. Framsóknarflokkurinn missti annan bæjarfulltrúa sinn og Listi Grindvíkinga missti sinn bæjarfulltrúa.
 • Sveitarfélagið Vogar. E-listinn hélt hreinum meirihluta í bæjarstjórn.
 • Akranes. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði hreinum meirihluta í bæjarstjórn. Framsóknarflokkur og Samfylking unnu einn bæjarfulltrúa hvor flokkur.
 • Borgarbyggð. Framsóknarflokkur og Vinstrihreyfingin grænt framboð bættu við sig einum manni hvor flokkur á kostnað Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem töpuðu einum manni hvor flokkur.
 • Snæfellsbær. Sjálfstæðisflokkur hélt hreinum meirihluta í sveitarfélaginu.
 • Grundarfjarðarbær. Sjálfstæðisflokkur vann hreinan meirihluta í bæjarstjórn af Bæjarmálafélaginu Samstöðu.
 • Stykkishólmur. H-listinn hélt hreinum meirihluta í bæjarstjórn.
 • Vesturbyggð. Ný sýn vann hreinan meirihluta af Sjálfstæðisflokknum og óháðum en listi þeirra var sjálfkjörinn 2014.
 • Bolungarvík. Sjálfstæðisflokkur hélt hreinum meirihluta í bæjarstjórn.
 • Ísafjarðarbær. Í-listinn tapaði hreinum meirihluta í bæjarstjórn og Framsóknarflokkurinn bætti við sig bæjarfulltrúa.
 • Húnaþing vestra. Framsóknarflokkur náði hreinum meirihluta og vann einn mann af N-lista.
 • Blönduósbær. Listi fólksins hélt hreinum meirihluta í bæjarstjórn.
 • Sveitarfélagið Skagafjörður. Framsóknarflokkurinn tapaði hreinum meirihluta í sveitarstjórn. Byggðalistinn, sem bauð fram í fyrsta skipti, hlaut tvo sveitarstjórnarmenn og Vinstrihreyfingin grænt framboð bætti við sig einum sveitarstjórnarmanni.
 • Fjallabyggð. Sjálfstæðisflokkur bætti við sig einum manni, hlaut 3 bæjarfulltrúa. Tvö ný framboð á eldri grunni hlutu tvo bæjarfulltrúa hvort.
 • Dalvíkurbyggð. Engar breytingar urðu fjölda bæjarfulltrúa framboða.
 • Akureyri. Þær breytingar urðu að Miðflokkurinn náði manni inn í bæjarstjórn í stað Bjartrar framtíðar sem bauð ekki fram.
 • Eyjafjarðarsveit. F-listinn hélt hreinum meirihluta í sveitarstjórn.
 • Þingeyjarsveit. A-listi Samstöðu hélt hreinum meirihluta í sveitarstjórn.
 • Norðurþing. Listi samfélagsins kom nýr inn í bæjarstjórn með einn mann og Framsóknarflokkur bætti við sig einum bæjarfulltrúa. Samfylkingin og Vinstrihreyfingin grænt framboð töpuðu einum bæjarfulltrúa hvor flokkur.
 • Fljótsdalshérað. Framsóknarflokkur tapaði einum bæjarfulltrúa. Sjálfstæðisflokkur og óháðir og Héraðslistinn bættu við sig einum manni og Miðflokkurinn kom nýr inn með einn fulltrúa. Listi Áhugafólks um sveitarstjórnarmál bauð ekki fram en fólk af þeim lista var á lista Sjálfstæðisflokksins.
 • Fjarðabyggð. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur töpuðu einum manni hvort framboð til Fjarðalistans og Miðflokksins.
 • Sveitarfélagið Hornafjörður. Framsóknarflokkurinn vann hreinan meirihluta í bæjarstjórn. 3.framboðið tapaði einum manni.
 • Vestmannaeyjar. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði hreinum meirihluta í bæjarstjórn. Klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, Fyrir Heimaey, hlaut þrjá bæjarfulltrúa myndaði meirihluta með Eyjalistanum sem tapaði einum bæjarfulltrúa.
 • Rangárþing eystra. Framsóknarflokkur tapaði meirihluta í sveitarstjórn og einum manni til Sjálfstæðisflokks.
 • Rangárþing ytra. Sjálfstæðisflokkur hélt hreinum meirihluta í sveitarstjórn.
 • Bláskógabyggð. T-listi hélt hreinum meirihluta sínum í sveitarstjórn, hlaut fimm sveitarstjórnarfulltrúa af sjö.
 • Sveitarfélagið Árborg. Sjálfstæðisflokkurinn tapaði hreinum meirihluta í bæjarstjórn. Miðflokkurinn og Áfram Árborg sem var m.a. skipað fólki úr Viðreisn og Pírötum hlutu einn bæjarfulltrúa hvort framboð.
 • Hveragerði. Sjálfstæðisflokkurinn hélt hreinum meirihluta í bæjarstjórn.
 • Sveitarfélagið Ölfus. Sjálfstæðisflokkur hlaut hreinan meirihluta í bæjarstjórn eftir að hafa bætt við sig tveimur mönnum.

Sameiningarmál. Sveitarfélagið Garður og Sandgerðisbær sameinuðust á árinu undir nafninu Suðurnesjabær. Þá sameinaðist Breiðdalshreppur Fjarðabyggð undir nafni hins síðarnefnda.

Alþingi. Breytingar urðu á þingflokkum á Alþingi þegar að Ólafi Ísleifssyni og Karli Gauta Hjaltasyni var vikið úr Flokki fólksins í kjölfar Klausturmálsins svokallaða en þeir eru utan flokka.

Færðu inn athugasemd

Ólafi og Karli Gauta vikið úr Flokki fólksins

This image has an empty alt attribute; its file name is flokkurfolks.gif

 

Í dag ákvað stjórn Flokks Fólksins að víkja þingmönnunum Ólafi Ísleifssyniog Karli Gauta Hjaltasyni úr flokknum. Í tilkynningu frá Ingu Sæland formanni flokksins segir: “ Í ljósi alvarlegs trúnaðarbrests sem upp er kominn í þingflokki Flokks fólksins ákvað stjórn flokksins á nýafstöðnum fundi sínum í dag, að vísa þingmönnum flokksins þeim Karli Gauta Hjaltasyni og Ólafi Ísleifssyni úr Flokki fólksins, sbr. samþykktir flokksins grein 2.6 en þar segir: „Sé félagsmaður staðinn að því, að vinna gegn meginmarkmiðum og hagsmunum Flokks fólksins, skal hann sviptur félagsaðild og skal það gert á stjórnarfundi með auknum meirihluta atkvæða og félagsmanni tilkynnt það formlega“.Stjórnin harmar þá rýrð sem þeir hafa kastað á Flokk fólksins, með óafsakanlegri þátttöku sinni á fundi með þingmönnum Miðflokksins á Klaustur-bar þann 20. nóv. sl.

Ólafur og Karl Gauti eru því utan flokka. Inga Sæland og Guðmundur Ingi Kristinsson skipa því ein þingflokk Flokks fólksins.

Færðu inn athugasemd