Sarpur fyrir apríl, 2020

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla hefst líklega 23. maí

Í tilkynningu á vef dómsmálaráðuneytisins kemur eftirfarandi fram: „Í ljósi þess ástands sem nú ríkir í samfélaginu vegna COVID-19 farsóttarinnar, m.a. vegna samkomubanns sem framlengt var til og með 3. maí nk., og í samræmi við ráðleggingar almannavarnadeild ríkislögreglustjóra er miðað að því að kosning utan kjörfundar geti hafist hinn 23. maí 2020.

Færðu inn athugasemd

Guðmundur Franklín Jónsson hefur söfnun undirskrifta á Ísland.is

Guðmundur Franklín Jósnson, sem lýsti yfir forsetaframboði í síðustu viku, hefur hafið rafræna söfnun undirskrifta fyrir framboð sitt á Ísland.is. Áður hafði Axel Pétur Axelsson hafið rafræna undirskriftasöfnun.

Færðu inn athugasemd

Guðmundur Franklín í forsetaframboð

Guðmundur Franklín Jónsson viðskipta- og hagfræðingur og hótelstjóri á Hótel Klippen á Borgundarhólmi í Danmörku lýsti því yfir í ræðu á facebook-síðu sinni í morgun að hann gæfi kost á sér í embætti forseta Íslands. Jafnframt sagðist myndu setja orkupakka 4 og 5 í þjóðaratkvæðagreiðslu og að embætti forseta Íslands ætti ekki að vera til skrauts.

Guðmundur bauð sig einnig fram til forseta árið 2016 en dró framboð sitt til baka. Hann stofnaði árið 2013 stjórnmálaflokkinn Hægri græna og var formaður hans. Flokkurinn hlaut 1,7% í alþingiskosningum það sama ár og var því nokkuð langt frá því að ná kjörnum þingmönnum. Guðmundur Franklín var ekki í framboði þar sem hann uppfyllti ekki skilyrði um lögheimili.  Flokkurinn var lagður niður árið 2016 er hann gekk inn í Íslensku þjóðfylkinguna. Fyrir alþingiskosningarnar 2016 bauð Guðmundur Franklín sig fram í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík en hafði ekki erindi sem erfiði.

Guðmundur er sá þriðji sem lýst hefur yfir framboði. Hinir tveir eru Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Axel Pétur Axelsson.

Færðu inn athugasemd

Axel Pétur Axelsson hefur söfnun undirskrifta á Ísland.is

Axel Pétur Axelsson, sem boðað hefur forsetaframboð, hefur hafið söfnun undirskrifta fyrir framboð sitt á Ísland.is. Hann er eini frambjóðandinn sem hefur hafið undirskriftir á vefnum.

Færðu inn athugasemd

Fimm sunnlensk sveitarfélög skoða sameiningu

Sveitarfélögin fimm í Rangárvallasýslu og Vestur Skaftafellssýslu hafa skipað verkefnishóp til að kanna hvaða áhrif sameining sveitarfélaganna myndi hafa á rekstur og þjónustu sveitarfélaganna. Sveitarfélögin eru Ásahreppur, Rangárþing ytra, Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur. Heimasíða verkefnisins er svsudurland.is.

Þá er samstarfsnefnd um sameiningarferli Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps í gangi og  sömuleiðis er vinna í gangi um sameiningu Blönduósbæjar, Húnvatnshrepps, Skagabyggðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar í Austur-Húnavatnssýslu.

Færðu inn athugasemd

Rafræn meðmæli með forsetaframbjóðendum

Á þriðjudag eftir páska verður tekið til fyrstu umræðu frumvarp stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um breytingar á lögum um framboð og kjör forseta Íslands og kosningar til Alþingis. Annars vegar eru leiðréttingar að ræða vegna sameininga sveitarfélaga en hins vegar er um að ræða bráðabirgðaákvæði um að safna megi meðmælendum með forsetaefni rafrænt. Ákvæði þetta fellur úr gildi við næstu áramót.

Uppfært – frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi þann 14. apríl 2020.

Færðu inn athugasemd

Axel Pétur Axelsson boðar forsetaframboð

Axel Pétur Axelsson, sem titlar sig þjóðfélagsverkfræðing, boðar framboð til forseta Íslands. Framboðssíða hans er Axel Pétur á Bessó 2020. Axel Pétur boðar að fyrsta verk hans verði að reka ríkisstjórnina. Þá segist hann vilja gera Íslendinga sjálfveldunga þ.e. sjálfvalda og að stefna Víkingaflokksins nái fram að ganga.

Færðu inn athugasemd