Sarpur fyrir desember, 2019

Árið 2019

Þrátt fyrir að engar kosningar hafi verið á árinu 2019 var það ekki tíðindalaust. Breytingar urðu á ríkisstjórn, þingmenn færðust milli þingflokka og fjögur sveitarfélög á Austurlandi sameinuðust.

Í febrúar gengu Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson, sem kjörnir voru á þing fyrir Flokk fólksins en höfðu verið utan þingflokka um skamma hríð, í Miðflokkinn.

Í september tók Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir við embætti dómsmálaráðherra af Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur sem gengt hafði embættinu um skamma hríð eftir afsögn Sigríðar Andersen í mars.

Í október samþykktu íbúar fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi sameiningu þeirra í eitt. Það voru Borgarfjarðarhreppur, Djúpavogshreppur, Fljótsdalshérað og Seyðisfjarðarkaupstaður.

Í nóvember sagði Andrés Ingi Jónsson sig úr þingflokki Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og stendur nú utan þingflokka.

Á árinu 2020 rennur út kjörtímabil Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands og verða því forsetakosningar haldnar á árinu.

 

Færðu inn athugasemd

Framboðsmál fyrir austan

Eins og áður hefur komið fram verður kosið í nýju sameinuðu sveitarfélagi Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar þann 18. apríl n.k. Fimm framboð hafa þegar verið boðuð. Þau eru: Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkurinn, Vinstrihreyfingin grænt framboð og framboð félagshyggjufólks.

Óhlutbundin kosning var í Borgarfjarðarhreppi í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Í Djúpavogshreppi voru listakosningar sem ekki er vitað til að hafi fylgt flokkslínum. Á Fljótsdalshéraði og Seyðifirði voru hins vegar listakosningar sem fylgdu flokkslínum.

Greint hefur verið frá því að framsóknarfélögin í sveitarfélögunum fjórum hafi nú þegar sameinað krafta sína. Framsóknarflokkurinn hefur einn bæjarfulltrúa á Seyðisfirði (Framsóknarflokkur og frjálslyndir) og tvo á Fljótsdalshéraði.

Sama hafa nú sjálfstæðisfélögin gert skv. frétt Austurfréttar en á dögunum sameinuðu þau fulltrúaráð sitt. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þrjá bæjarfulltrúa á Fljótsdalshéraði (Sjálfstæðisflokkur og óháðir) og tvo á Seyðisfirði.

Félagshyggjufólk hyggur einnig á framboð en Austurfrétt hefur greint frá því að að Héraðslistinn á Fljótsdalshéraði og Seyðisfjarðarlistinn auk fólks á Borgarfirði og á Djúpavogi hafi ákveðið að sameina krafta sína í nýju framboði. Seyðisfjarðarlistinn hefur fjóra af sjö bæjarfulltrúum á Seyðisfirði og Héraðslistinn þrjá af níu á Fljótsdalshéraði.

Í síðustu viku ákváðu félagar í Vinstrihreyfingunni grænu framboði að bjóða fram í nýja sveitarfélaginu. Vinstri grænir hafa aldrei boðið fram sérstakan lista á Fljótsdalshéraði en buðu fram árið 2010 á Seyðisfirði og hlutu þá einn bæjarfulltrúa.

Miðflokkurinn hlaut einn bæjarfulltrúa á Fljótsdalshéraði og boðar á facebook-síðu sinni framboð í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Færðu inn athugasemd