Sarpur fyrir október, 2019

Sameining samþykkt á Austurlandi.

Sveitarfélögum mun í vor fækka úr 72 í 69 í eftir að íbúar Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar samþykktu að sameina sveitarfélögin í atkvæðagreiðslu í gær. Þegar sameiningin tekur gildi verða aðeins fjögur sveitarfélög á Austurlandi, Fjarðabyggð, Vopnafjarðarhreppur, Fljótsdalshreppur og hið nýja sameinaða sveitarfélag.

Samkvæmt vefmiðlinum Austurfrett.is voru úrslit eftirfarandi:

Borgarfjarðarhreppur: Já 44 (72,1%) Nei 17 (27,9%). Auðir og ógildir 7. Kjörsókn 71,6%.

Djúpavogshreppur: Já 156 (64,2%) Nei 87 (35,8%). Auðir og ógildir 2. Kjörsókn 78,0%.

Fljótsdalshérað: Já 1291 (93,9%) Nei 84 (6,1%). Auðir og ógildir 15. Kjörsókn 77,2%.

Seyðisfjarðarkaupstaður: Já 312 (87,4%) Nei 45 (12,6%). Auðir og ógildir 3. Kjörsókn 70,7%.

Samtals öll sveitarfélög: Já 1803 (88,6%) Nei 233 (11,4%). Auðir og ógildir 27. Kjörsókn 75,9%. Samtals samþykktu sameininguna 66,3% af þeim sem voru á kjörskrá.

Færðu inn athugasemd

Sameiningarkosningar á Austurlandi

Næst komandi laugardag, þann 26. október, ganga íbúar Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðarkaupstaðar til atkvæða um hvort sameina eigi sveitarfélögin í eitt. Um síðustu áramót bjuggu 3.600 íbúar í Fljótsdalshéraði, 685 á Seyðisfirði, 472 í Djúpavogshreppi og 109 í Borgarfjarðarhreppi. Samtals voru því íbúar í sveitarfélögunum fjórum 4.866.

Á vef sameiningarverkefnisins segir:

Niðurstaða kosninga um sameiningu er bindandi. Þótt tillaga um sameiningu hljóti ekki samþykki meirihluta kjósenda í öllum sveitarfélögunum sem að tillögunni stóðu, er sveitarstjórnum sveitarfélaga þar sem sameiningartillaga hlýtur samþykki meirihluta kjósenda heimilt að ákveða sameiningu þeirra sveitarfélaga  a.m.k. 2/ 3 sveitarfélaganna og í þeim sveitarfélögum búi a.m.k. 2/ 3 hlutar íbúa á svæðinu.

Ef sameiningin er samþykkt skipa sveitarstjórnir sveitarfélaganna sérstaka stjórn sem hefur það hlutverk að undirbúa stofnun nýs sveitarfélags. Hver sveitarstjórn skipar þrjá fulltrúa í stjórnina. Hlutverk hennar er að semja samþykkt um stjórn og fundarsköp hinnar nýju sveitarstjórnar. Stjórnin tekur einnig ákvarðanir um fjárhagsmálefni hins nýja sveitarfélags, tekur saman yfirlit yfir allar samþykktir og reglugerðir sem gilda í þeim sveitarfélögum sem sameinuð hafa verið og skal hefja vinnu við endurskoðun þeirra og samræmingu.

Stjórnin gerir auk þess tillögu til sveitarstjórrnarráðuneytis um það hvort kosið skuli til sveitarstjórnar fyrir hið nýja sveitarfélag eða sveitarstjórn eins hinna sameinuðu sveitarfélaga falin stjórn þess til loka yfirstandandi kjörtímabils. Meginreglan er að kosið er til nýrrar sveitarstjórnar að afloknum kosningum um sameiningu.

Færðu inn athugasemd