Sarpur fyrir ágúst, 2019

Sameining sveitarfélaga?

Lagðar hafa verið fram áætlanir um að ekkert sveitarfélag verði með færri en 250 íbúa við sveitarstjórnarkosningarnar 2022 og að ekkert sveitarfélag verði með færri en 1.000 íbúa árið 2026.

Fjórtán sveitarfélög voru með færri en 250 íbúa þann 1.janúar sl. Þau eru: Kjósarhreppur, Skorradalshreppur, Eyja- og Miklaholtshreppur, Helgafellssveit, Súðavíkurhreppur, Kaldrananeshreppur, Árneshreppur, Skagabyggð, Akrahreppur, Tjörneshreppur, Svalbarðshreppur, Borgarfjarðarhreppur, Fljótsdalshreppur og Ásahreppur.

Heyrst hefur að í mörgum þessara tilfella liggi sameining við nágrannasveitarfélög nokkuð beint við. T.d. að Skorradalshreppur sameinist Borgarbyggð, Helgafellssveit Stykkishólmi, Súðavíkurhreppur Ísafjarðarbæ, Kaldrananes- og Árneshreppar Strandabyggð, Akrahreppur Sveitarfélaginu Skagafirði, Tjörneshreppu Norðurþingi, Svalbarðshreppur Langanesbyggð, Fljótsdalshreppur Fljótsdalshéraði og Ásahreppur Rangárþingi ytra. Skagabyggð er nú þegar í viðræðum við hin sveitarfélögin þrjú í Austur Húnavatnssýslu um sameiningu og Borgarfjarðarhreppur er í viðræðum við sveitarfélög á Austurlandi um sameiningu.

Þau 26 sveitarfélög sem voru með 251-999 íbúa þann 1. janúar sl. voru; Hvalfjarðarsveit, Grundarfjarðarbær, Dalabyggð, Reykhólahreppur, Tálknafjarðarhreppur, Vesturbyggð, Bolungarvík, Strandabyggð, Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Sveitarfélagið Skagaströnd, Hörgársveit, Svalbarðsstrandarhreppur, Grýtubakkahreppur, Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur, Langanesbyggð, Vopnafjarðarhreppur, Seyðisfjörður, Djúpavogshreppur, Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Hrunamannahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Grímsnes- og Grafningshreppur og Flóahreppur.

Sameining þessara sveitarfélaga við önnur sveitarfélög liggur kannski ekki eins beint við. Hvalfjarðarsveit og Akranesbær gætu sameinast, Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð, Bolungarvík gæti sameinast Ísafjarðarbæ, Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur eru í viðræðum, Seyðisfjörður og Djúpavogshreppur eru í viðræðum við Fljótsdalshérað og Borgarfjarðarhrepp, Skaftáhreppur og Mýrdalshreppur gætu sameinast svo dæmi séu nefnd.

En svo verður tíminn að leiða í ljós hvaða sveitarfélag sameinast hverju.

Færðu inn athugasemd