Sarpur fyrir desember, 2015

Árið 2015

2015Engar kosningar voru á árinu 2015 og því minna um að vera á síðunni en undanfarin ár. En á árinu gerðist það helst að …

  • Pétur H. Blöndal alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður lést og tók Sigríður Á. Andersen sæti hans
  • Guðbjartur Hannesson alþingismaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi lést og tók Ólína Þorvarðardóttir sæti hans
  • Jón Þór Ólafsson alþingismaður Pírata sagði af sér þingmennsku og tók Ásta Guðrún Helgadóttir sæti hans.

Við þessar breytingar á Alþingi fór hlutfall kvenna upp í 46,0%.

Íbúakosning var í Reykjanesbæ um skipulagsmál í Helguvík. Aðeins fleiri studdu breytinguna en voru á móti henni en yfir 90% tóku ekki afstöðu.

Á síðunni var tekið saman yfirlit yfir

  • íslenska stjórnmálaflokka í 100 ár,
  • þróunar kosningaréttar til Alþingis
  • og yfirlit yfir kjördæmaskipun frá 1843.

Árið 2016
Á næsta ári rennur út kjörtímabil Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands og forsetakosningar verða væntanlega 25. júní n.k.

Á árinu 2017 verða alþingiskosningar í síðasta lagi fyrir apríllok. Búast má við fyrstu prófkjörum og uppstillingum haustið 2016.

Færðu inn athugasemd

Hrannar Pétursson íhugar forsetaframboð

hrannarHrannar Pétursson, fv. framkvæmdastjóri mannauðs-, markaðs- og lögfræðimála hjá Vodafone á Íslandi, íhugar að bjóða sig fram til forseta Íslands næsta sumar. Frá þessu greina Kjarninn og héraðsfréttamiðlinn Skarpur í dag. Fram kemur að hann hafi starfað sem sjónvarpsfréttamaður, en síðan við upplýsinga- og samskiptamál hjá ÍSAL og Vodafone. Hann starfaði sem verkefnisstjóri hjá forsætisráðuneytinu til nú í nóvember 2015 en rekur nú eigið upplýsinga- og samkiptafyrirtæki.

Færðu inn athugasemd

Lítil þátttaka í íbúakosningu í Reykjanesbæ

rnbSamtals greiddu 934 atkvæði  eða 8,71% í íbúakosningu í Reykjanesbæ um breytingar skipulagi í Helguvík sem lauk kl.2 í nótt. Já sögðu 471 eða 51,08% en nei 451 eða 48,92%. Auðir seðlar voru 12 eða 1,28% af heildarfjölda greiddra atkvæða. Á kjörskrá voru liðlega 10.700 manns.

Léleg þátttaka í atkvæðagreiðslunni vekur athygli þar sem að tæplega 2.800 manns skrifuðu undir kröfu um atkvæðagreiðsluna. Á vef Reykjanesbæjar segir: „Þessi dræma kjörsókn þykir óheppileg þar sem rafrænar kosningar eru tæki sem Reykjanesbær hyggst nota í ríkari mæli í framtíðinni til eflingar íbúalýðræði og voru nýafstaðnar kosningar liður í því lærdómsferli. „

Færðu inn athugasemd

Halla Tómasdóttir fjárfestir íhugar forsetaframboð

HallaTómasdÁ níunda hundrað manns hafa skorað á Höllu Tómasdóttur fjárfesti að bjóða sig fram til embættis Forseta Íslands. Hún hefur starfað hjá Háskólanum í Reykjavík og verið framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Í yfirlýsingu frá Höllu segir: „Það er ekki auðvelt að svara slikri áskorun svo ég hef ákveðið að gefa mér tíma í að hugsa og ræða við mína nánustu, áður en ég segi af eða á. Hver sem niðurstaðan verður, þá mun ég áfram brenna fyrir jafnrétti, sjálfbærni og uppbyggingu manneskjulegs samfélags.

Færðu inn athugasemd

Hlutfall kvenna á Alþingi 46%

AlþingiEftir síðustu alþingiskosningar voru konur 25 á Alþingi Íslendinga á móti 38 körlum. Með þeim breytingum sem hafa orðið á kjörtímabilinu hefur þeim fjölgað í 29. Hlutfall kvenna á Alþingi hefur því farið úr 39,7% eftir kosningarnar 2013 í 46,0% í dag.

Færðu inn athugasemd