Sarpur fyrir janúar, 2015

Árið 2014

Á árinu 2014 báru sveitarstjórnarkosningarnar hæst, en einnig urðu breytingar á ríkisstjórninni og einn þingmaður sagði af sér embætti og hvarf til annarra starfa.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sagði af sér embætti vegna lekamálsins svokallaða og tók Ólöf Nordal fv. alþingismaður Sjálfstæðisflokksins við embættinu.

Um áramótin tók Sigrún Magnúsdóttir við embætti umhverfis- og auðlindaráðherra af Sigurði Inga Jóhannssyni sem áfram var ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála. Sigrún og eiginmaður hennar Páll Pétursson eru fyrstu hjónin til að gegna ráðherraembætti á Íslandi.

Árni Þór Sigurðsson alþingismaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs sagði af sér sem þingmaður og tók Steinunn Þóra Árnadóttir sæti hans.

Helstu tíðindin í sveitarstjórnarkosningunum voru þessi:

  • Meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins í Reykjavík féll vegna mikils fylgistaps Bjartrar framtíðar/Besta flokksins sem tapaði 4 borgarfulltrúum. Samfylkingin og Björt framtíð endurnýjuðu meirihlutann með því að taka Vinstrihreyfinguna grænt framboð og Pírata inn í meirihlutann.
  • Meirihlutinn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Kópavogslista í Kópavogi hélt en var ekki framlengdur. Sjálfstæðisflokkur og Björt framtíð mynduðu meirihluta,
  • Meirihluti Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinar græns framboðs í Hafnarfirði féll vegna fylgistaps Samfylkingarinnar sem tapaði helmings fylgis síns frá 2010. Sjálfstæðisflokkur og Björt framtíð mynduðu meirihluta.
  • Á Akureyri féll hreinn meirihluti L-listans en listinn tapaði 4 af 6 bæjarfulltrúum sínum. Framsóknarflokkur, Samfylking og L-listi mynduðu nýjan meirihluta í bæjarstjórn.
  • Í Reykjanesbæ tapaði Sjálfstæðisflokkurinn hreinum meirihluta sínum í bæjarstjórn þegar flokkurinn tapaði þremur bæjarfulltrúum. Nýr meirihluti Frjáls afls, klofningsframboðs úr Sjálfstæðisflokki, Samfylkingar og óháðra og Beinnar leiðar tók við meirihluta í bænum,
  • Í Garðabæ, Árborg, Mosfellsbæ, Vestmannaeyjum, Hveragerði, Snæfellsbæ og Seltjarnarnesi hélt Sjálfstæðisflokkurinn hreinum meirihluta sínum.
  • Á Akranesi náði Sjálfstæðisflokkurinn hreinum meirihluta.
  • Í Skagafirði náði Framsóknarflokkurinn hreinum meirihluta.
  • Í Ísafjarðarbæ náði Í-listinn hreinum meirihluta.
  • Í Sveitarfélaginu Hornafirði missti Framsóknarflokkurinn meirihlutann og nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks og 3. framboðsins var myndaður.

Færðu inn athugasemd