Sarpur fyrir ágúst, 2013

Framboðsmál í Reykjavík

Í morgun greindi Jón Gnarr Kristinsson borgarstjóri frá því að Besti flokkurinn muni bjóða fram í borgarstjórnarkosningunum í vor. Jón sjálfur er hins vegar ekki ákveðinn í því hvort að hann muni sjálfur bjóða sig fram.  Besti flokkurinn hlaut 6 borgarfulltrúa af 15 í síðustu borgarstjórnarkosningum. Af þeim hefur Óttar Proppé verið kjörinn á þing fyrir Bjarta framtíð. Líklegt verður að telja að verði af framboði Besta flokksins verði það í einhverju samstarfi við Bjarta framtíð en margir af forystumönnum Besta flokksins voru í framboði fyrir Bjarta framtíð í nýliðnum alþingiskosningum. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut 5 borgarfulltrúa í síðustu borgarstjórnarkosningum sem var slakasti árangur Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningum í 80 ára sögu flokksins. Oddviti flokksins var Hanna Birna Kristjánsdóttir sem kjörin var á þing og er orðin innanríkisráðherra. Framundan er því slagur um forystusæti í flokknum en búast má við því að blásið verði til prófkjörs ekki seinna en í nóvember n.k. Samfylkingin hlaut 3 borgarfulltrúa í síðustu borgarstjórnarkosningum. Ekki er vitað um áform sitjandi borgarfulltrúa en Björk Vilhelmsdóttir gerði atlögu að þingsæti sem tókst ekki. Sóley Tómasdóttir var eini fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs sem náði kjöri í síðustu kosningum og eins og með Samfylkinguna er ekki vitað um hverjir koma til með að leiða lista flokksins í næstu kosningum. Fyrir utan þá flokka sem náðu mönnum kjörnum síðast mun Framsóknarflokkurinn örugglega bjóða fram. Þá er spurning hvort að Píratar og jafnvel einhverjir af minni flokkunum muni bjóða fram. Af minni flokkum hafa Kristleg stjórnmálasamtök og Húmanistaflokkurinn gefið því undir fótinn að bjóða fram.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Sameiningar sveitarfélaga?

Af fréttum má ráða að verið sé að skoða sameiningar sveitarfélaga a.m.k. á tveimur stöðum á landinu. Annars vegar voru fréttir af því um helgina að Vesturbyggð hefði óskað eftir viðræðum við Tálknafjarðarhrepp um sameiningu sveitarfélaganna. Hins vegar er einhver vinna í gangi í Austur-Húnavatnssýslu varðandi hugsanlega sameiningu Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Skagabyggðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar. Gengju þessar sameiningar eftir myndi sveitarfélögum fækka um fjögur. 

Færðu inn athugasemd